Miðvikudagur 24. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

María Rut Kristinsdóttir: „Stóra verkefnið að breyta viðhorfum til hinsegin fólks“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

UN Women á Íslandi ýtti úr vör á dögunum Fokk ofbeldi-herferð í áttunda skipti. Í ár var farin ný leið þar sem varningurinn er alíslenskur.

„Védís Jónsdóttir prjónahönnuður hannaði ótrúlega fallega og kraftmikla vettlinga sem Varmi sá um að framleiða,“ segir María Rut Kristinsdóttir, kynningarstýra UN Women á Íslandi.

UN Women er sú stofnun Sameinuðu þjóðanna sem berst fyrir réttindum og málefnum hinsegin fólks um allan heim og bendir María Tut á að jafnrétti verði ekki náð nema með jöfnum réttindum allra hópa.

„35% ríkja heims búa yfir lögum sem banna hinseginleika og 84% ríkja heims banna samkynja hjónabönd. Með því að kaupa vettlinga stuðlar almenningur að því að aukið bolmagn verði hjá UN Women á heimsvísu að berjast gegn þessu bakslagi. Hinsegin sjóður UN Women er eins og sakir standa tómur. Því er gríðarlega mikilvægt að hrinda af stað söfnun sem þessari á þessum tímapunkti.“

María Rut Kristinsdóttir

 

Víða býr hinsegin fólk við gríðarlega mismunun.

María Rut segir að mikið bakslag hafi orðið í réttindabaráttu hinsegin fólks á síðustu árum, þar með talið innan Sameinuðu þjóðanna þar sem aðildaríki takast á um þessi málefni.

- Auglýsing -

„Víða býr hinsegin fólk við gríðarlega mismunun, skert réttindi og ofbeldi sökum kyns og kynhneigðar. Það er því gríðarlega mikilvægt að UN Women standi áfram vörð um velferð og réttindi hinsegin fólks á tímum sem þessum. Við viljum benda á stöðuna í heiminum gagnvart réttindum hinsegin fólks á sama tíma og hér er að verða ömurlegt bakslag í orðræðu og í umræðunni.“

 

Erum ekki að biðja um mikið

- Auglýsing -

María Rut segir að hér á landi hafi margt áunnist í baráttunni síðastliðna áratugi.

Heimurinn væri ekki skemmtilegur ef við værum öll nákvæmlega eins.

„Hinsegin fólk hefur farið frá því að vera fordæmt og útskúfuð yfir í að vera virkir þátttakendur í samfélaginu okkar. Ég tilheyri auðvitað þeirri kynslóð sem að mörgu leyti tók bara á móti þeim réttindum sem kynslóðirnar á undan börðust fyrir. Og mörg þeirra töpuðu ærunni, heilsunni eða jafnvel sjálfu lífinu í þeirri baráttu. Þannig að mér finnst ábyrgð minnar kynslóðar mjög mikil að viðhalda þessum réttindum og tryggja að hatrið fái ekki að grassera í garð hinsegin fólks. 84% ríkja heims banna til dæmis samkynja hjónabönd eins og þegar hefur komið fram en þau voru lögleidd á Íslandi 2010. Ég giftist ástinni minni 2018 og ég man að ég hugsaði þegar ég stóð við altarið hversu súrrealískt það væri að aðeins átta árum fyrr hefði ég ekki getað átt þessa stund með þessum hætti með manneskjunni minni. Við erum nefnilega ekki að biðja um mikið; bara að fá að vera til og ekki endalaust jaðarsett fyrir það hvernig við erum. Fjölbreytileikinn er svo fallegur og mikilvægur. Heimurinn væri ekki skemmtilegur ef við værum öll nákvæmlega eins, með sömu skoðanir og langanir. Þá kæmumst við eflaust ekki mjög langt sem samfélag.“

María Rut Kristinsdóttir

Alls konar misgáfuleg komment

María Rut segist hafa upplifað fordóma vegna samkynhneigðar sinnar og hefur henni fundist hún þurfa að fela það hver hún er í ákveðnum aðstæðum.

„Við litum ekki út fyrir að vera lesbíur“.

„Við konan mín lentum mikið í því fyrst þegar við vorum að byrja saman að fólk trúði því ekki að við værum í alvörunni kærustupar – vegna þess að „við litum ekki út fyrir að vera lesbíur“ – og alls konar kjánakarlar töldu sig vita betur eða vildu að við „sönnuðum að við værum saman“ og við heyrðum alls konar misgáfuleg komment.

Þegar við áttum svo von á stráknum okkar sem við eignuðumst saman 2019 fundum við fyrir ljótum fordómum í okkar garð svo sem að við værum að gera barninu óleik að eignast það því öll börn ættu rétt á að eiga föður og eitthvað í þeim dúr.

Það var mjög sárt að sjá og upplifa þetta viðmót, enda veit ég sjálf hversu góðir foreldrar við erum og að við gefum okkar börnum góð og falleg skilyrði. Ég hef svo verið á hliðarlínunni og fylgst full af aðdáun með því hvernig unga fólkið okkar hefur þorað miklu fyrr en ég nokkurn tíman þorði að vera það sjálft. Og það er orðið mun algengara að ungt fólk sé að koma út úr skápnum í grunnskólum landsins sem er í alvörunni svo mikilvæg og góð þróun. Vegna þess að við sem komum seinna út vorum öll allan tímann hinsegin í grunnskóla og menntaskóla. Við bara þorðum ekki að vera við sjálf af ótta við fordóma.

Ég var 21 árs þegar ég loksins þorði að horfast í augu við sjálfa mig. Þess vegna hef ég líka verið að tala fyrir því að við opnum augun fyrir því að unga, hugrakka fólkið okkar finnur vel fyrir þessu bakslagi sem við höfum fundið fyrir hvort sem er í formi skemmdaverka, hótana, hatursorðræðu eða auknu óþoli í garð hinsegin einstaklinga. Ég skrifaði um þetta grein á dögunum og minntist á að sum þeirra þurfa nú að þola það að kallað sé til þeirra ókvæðisorðum, tilvera þeirra ekki viðurkennd, gelt að þeim og þeim hótað lífláti eða þau hvött til þess að taka eigið líf. Þetta er að gerast í gegnum skilaboð á samfélagsmiðlum, á skólagöngunum, í félagsmiðstöðvunum eða jafnvel út á götu. Ég hef því miður séð of mörg dæmi um nákvæmlega þetta síðustu mánuði.“

María Rut Kristinsdóttir

Hinseginleikinn

María Rut og eiginkona hennar, Ingileif Friðriksdóttir, hafa staðið framarlega í baráttu fyrir hinseginréttindum síðustu ár.

Hinseginleikinn er orðið mjög stórt verkefni.

„Við Ingileif stofnuðum Hinsegnleikann árið 2016 með það að markmiði að uppræta fordóma, kasta staðalmyndum hinsegin fólks út á sjó og fjölga fyrirmyndum. Við hófum samtalið á Snapchat og á tímabili voru um 8.000 manns sem fylgdust með alls kyns hinsegin einstaklingum segja frá sínum hinseginveruleika. Það eru nokkrar troðfullar Eldborgir í Hörpu. Þetta var á sínum tíma algjört brautryðjendaverkefni í því að búa til aukið pláss fyrir fjölbreytileikann. Og það hefur verið okkar ástríða síðan þá. Hinseginleikinn er orðið mjög stórt verkefni.

Árið 2018 varð Hinseginleikinn að sjónvarpsþætti sem sýndur var á RÚV. Ég veit til þess að mjög margir sýna þessa þætti sem hluta af hinseginfræðslu og það er eitthvað sem við erum mjög stoltar af. Árið 2019 gaf Ingileif svo út hlaðvarpið Hinseginleikinn sem framleitt var fyrir RÚV í tilefni af 20 ára afmælis Hinsegin daga og 50 ára afmælis Stonewall-uppþotanna.

Árið 2020 gáfum við svo út barnabókina Vertu þú! þar sem við lögðum áherslu á litríkar sögur af fjölbreytileikanum fyrir yngri börn. Bókin er mikið notuð í grunnskólum og leikskólum landsins til að hefja samtal um fjölbreytileikann og þá vonandi koma í veg fyrir óþarfa fordóma. Börn fæðast nefnilega ekki fordómafull; skoðanir á jaðarsettum hópum og viðmót er lærð félagsleg hegðun. Stóra verkefnið er að breyta þessum viðhorfum svo við getum öll fengið að vera við sjálf. Við Ingileif erum svo alltaf að halda fyrirlestra í nafni Hinseginleikans og yfirleitt með eina til tvær hugmyndir í ofninum í þessum dúr. Við vinnum mjög vel saman og okkur finnst fátt skemmtilegra en verkefni tengd Hinseginleikanum.“

 

Svarti köggullinn hvarf

María Rut varð móðir 18 ára gömul og sagði frá kynferðismisnotkun sem hún varð fyrir í æsku í viðtali fyrir um áratug.

Ég er í dag að mestu leyti frjáls frá fortíðinni.

„Ég hef svo sem ekki farið klakklaust í gegnum lífið. Ég er 33 ára og hef líklega reynt meira en margir jafnaldrar mínir. Æskan mín var langt frá því að vera fullkomin og ég hef oft opnað mig upp á gátt um þau mál. En fyrir einhverjum árum fann ég að það var hluti af fortíðinni minni og ekki lengur sami dragbítur á mér. Svarti köggullinn innan í mér hvarf og skyndilega fannst mér miklu betra líf að horfa fram á veginn en ekki stöðugt í baksýnisspegilinn.

En það að takast á við þá reynslu sem ég fékk í veganesti í æsku er það langerfiðasta sem ég hef upplifað og mótaði mig mikið sem manneskju. Ég þurfti svolítið að læra það að eiga fjölskyldu og að það væri gott að tilheyra slíkri. Nú erum við Ingileif ábyrgar fyrir okkar eigin heimili, börnum og hundi og það er ekkert sem gefur mér meira í heiminum en að fá að endurforrita allar þær tilfinningar sem snúa að þeirri veröld. Það hefur verið alveg ofboðslega lærdómsríkt fyrir mig og mikilvægt.

En ofbeldið skilgreinir mig ekki lengur og stýrir mér ekki. Ég er í dag að mestu leyti frjáls frá fortíðinni. Ég verð líklega aldrei alveg heil og það koma alveg dagar sem eru erfiðari en aðrir en þá bara reyni ég að sýna mér mildi og á auðvitað bara algjöran klett í konunni minni sem les mig eins og opna bók og grípur mig ef það þarf sem verður alltaf sjaldnar og sjaldnar með tímanum.“

 

Flokkadrættirnir of ráðandi

María Rut var aðstoðarmaður formanns Viðreisnar á sínum tíma. Hvað lærði hún af því að vinna í tengslum við stjórnmálin og lifa í þeim heimi? Hvað ber að laga í íslensku samfélagi?

Það er gott fólk í öllum flokkum.

„Ég starfaði sem aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í fjögur og hálft ár. Það var alveg ofboðslega lærdómsríkt og góður tími. Ætli stóri lærdómurinn sé samt ekki bara sá að það er alveg hrikalega mikilvægt að það séu einstaklingar í þessu landi sem eru tilbúnir að taka á sig þetta mikilvæga hlutverk að vera fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi. Og það er gott fólk í öllum flokkum. Ég vildi bara óska þess að fólk gæti unnið betur saman og komið sér saman um stóru málin sem við erum langflest sammála um að séu mikilvæg að klára. Flokkadrættirnir eru alltof ráðandi í mínum huga. Það á ekki að skipta máli hver fær heiðurinn af góðu málunum. Það á að skipta máli að klára þau fyrir fólkið sem bíður og bíður eftir ákveðnum réttarbótum eða betri lífsskilyrðum.“

Hver eru markmiðin og draumarnir?

„Ég hef ekki verið mjög markmiðadrifin manneskja. Reynslan hefur kennt mér að það er mjög erfitt að setja lífið upp í Excel. En ég geri mitt besta í að við fjölskyldan förum sæl að sofa og vöknum spennt fyrir næsta degi. Ætli það sé ekki bara nóg fyrir mig.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -