Miðvikudagur 4. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

„Megrunarskilaboðin eru bara ekki að virka“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Margt fólk setur sér markmið um áramótin og ætlar sér að verða betri útgáfa af sjálfum sér á nýju ári. Markmið sem snúa að heilsunni, mataræði og hreyfingu eru algeng en Gréta Jakobsdóttir, næringarfræðingur í Heilsuborg, mælir með að fólk fari ekki of geyst af stað.

Gréta lauk meistaraprófi í næringar- og matvælafræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð 2008 og doktorsprófi í næringarfræði frá sama skóla 2013.

Gréta hefur reynslu af því að aðstoða fólk við að eiga í betra og heilbrigðu sambandi við mat. Hún mælir gegn því að ætla sér að sleppa alfarið ákveðnum fæðutegundum því það verður gjarnan til þess að fólk myndar slæmt samband við mat sem jafnvel geti þróast í ofát eða ofátsköst að sögn Grétu.

„Fólk er oft rosalega týnt í þessum málum enda eru alltaf að koma upp einhverjar nýjar „reglur“ sem rugla fólk,“ segir Gréta sem tekur fram að hún er alls ekki hrifin af skyndilausnum, megrunartöflum og dufti.

„Það er algengt að fólk vilji breyta miklu um áramótin og setur sér því óraunhæf markmið. Það ætlar að taka allt í gegn bara vegna þess að það er komið nýtt ár. En í raun er ártalið það eina sem hefur breyst,“ segir Gréta.

Þyngdin segir ekki allt. Fólk á frekar að hreyfa sig til að líða vel í stað þess að fókusera á til dæmis magavöðvana.

„Ég hvet fólk frekar til að spyrja sig af hverju það vill breyta einhverju og hvernig. Ekki hugsa bara út í að breyta útlitinu drastískt. Og ekki einblína á einhverja tölu á vigtinni. Sú tala gefur alls ekki skýra mynd af hvernig heilsufarslegu ástandi við erum í,“ útskýrir Gréta sem mælir eindregið gegn því að fólk setji sér þyngdartengd markmið.

„Þyngdin segir ekki allt. Fólk á frekar að hreyfa sig til að líða vel í stað þess að fókusera á til dæmis magavöðvana. Megrunarskilaboðin eru bara ekki að virka.“

Heimurinn hrynur ekki ef þú missir af æfingu

- Auglýsing -

„Annað sem er gott að hugsa út í eru þau atriði sem geta staðið í vegi fyrir manni. Til dæmis hvað ætlar þú að gera ef að barnið þitt veikist eða þú þarft að skila skýrslu í vinnunni eða læra fyrir próf í skólanum? Hvað gerir þú þegar hið fullkomna plan er ekki til staðar, eins og er nú sjaldnast. Getur þú þá kannski gert eitthvað annað í staðinn? Heimurinn hrynur ekkert þó að þú missir af einni æfingu, en auðvitað villt þú ekkert að það endurtaki sig oft,“ segir Gréta.

Þegar maður ætlar sér að hætta algjörlega í einhverju ákveðnu þá er líklegt að mann langi enn meira í það.

„Hvað mataræðið varðar þá mæli ég einnig gegn því að fólk sökkvi sér í of miklar breytingar þar. Það kemur líklega í andlitið á manni seinna. Við erum vanaverur og það þarf að bera virðingu fyrir því og fara hægt og rólega í breytingar. Til dæmis er hægt að auka magn grænmetis í hádeginu og á kvöldin og stefna á að eitt millimál yfir daginn sé ávöxtur. Jafnframt drekka vatn með matnum frekar en aðra drykki,“ útskýrir Gréta.

Að hennar mati er ekki skynsamlegt að ætla sér að taka út allan sykur eða hveiti sem dæmi. „Þegar maður ætlar sér að hætta algjörlega í einhverju ákveðnu þá er líklegt að mann langi enn meira í það,“ segir Gréta. Að lokum minnir hún á að lykillinn að góðri heilsu er góður svefn. „Ef maður ætlar út í einhverjar breytingar þá er mikilvægt að sofa vel.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -