Mannlíf sendi Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra tölvupóst með spurningum er sneru að Landhelgisgæslunni og það hvernig tekið sé á tilkynningum um kynferðislega áreitni og einelti innan stofnunarinnar. Spurningarnar voru almenns eðlis.
Svörin sem upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, Fjalar Sigurðsson, gaf voru á þá leið að dómsmálaráðuneytið skipti sér ekki af málefnum Gæslunnar því um sé að ræða sjálfstæða stofnun. Gæslan heyrði sannarlega undir dómsmálaráðuneytið en „stofnunin er jafnframt sjálfstæð í sínum daglega rekstri enda segir í lögunum að forstjóri fari með daglegan rekstur hennar.“ Fjalar svaraði enn fremur að almenn starfsmannamál Landhelgisgæslunnar væru því ekki á borði ráðuneytisins.
Það er skilningur Mannlífs að tilkynningar um meinta kynferðislega áreitni og einelti innan Gæslunnar, flokkist tæplega undir almenn starfsmannamál.
Spurningarnar sem Áslaug Arna fékk senda í tölvupósti, en fríar sig af að svara eru eftirfarandi:
1. Þegar starfsmenn Gæslunnar eru sakaðir um kynferðislega áreitni, hvernig kemur dómsmálaráðuneytið að framvindu málsins?
2. Þegar rannsókn á meintri kynferðislegri áreitni starfsmanns Gæslunnar fer fram, hvernig er henni háttað?
3. Hvaða fagaðilar eru kallaðir til við rannsókn slíkra mála?
4. Í slíkum málum sem hafa endað í sátt, hvernig er þeirri sátt háttað?
5. Ef í ljós kemur að starfsmaður Gæslunnar hafi gerst sekur um kynferðislega áreitni gegn öðrum starfsmanni/mönnum Gæslunnar, er honum stætt að halda áfram starfi sínu?
Sjá einnig: Segja konur áreittar og niðurlægðar á skipum Landhelgisgæslunnar
og: Frétt Mannlífs veldur usla hjá Landhelgisgæslunni – Skipherra Týs sendur í leyfi