Föstudagur 19. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Meiri líkur á sigri nú en nokkru sinni fyrr

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Óhætt er að segja að algjört Hatara-æði sé búið að grípa um sig meðal landsmanna, eftir að sveitin kom, sá og sigraði í keppninni á þriðjudag og kom Íslandi upp úr undankeppninni í fyrsta sinn í fimm ár. Sumir eru meira að segja farnir að spá sveitinni sigri í lokakeppninni í kvöld.

 

„Ég held að ég hafi bara ekki verið jafnspennt yfir þessari keppni í 20 í ár. Við erum að fá þarna fínustu keppni á heildina litið, eiginlega bara allan glansmenningarskalann. Og í fyrsta skipti erum við með framlag sem er ekki bara lag, heldur hrikalega flott atriði sem er þaulhugsað fyrir sjónvarp. Ég fæ bara gæsahúð um allan líkamann í hvert sinn sem ég sé og heyri það,“ segir Sunna Mímisdóttir, kynningar- og viðburðastjóri Félags áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, FÁSES OGAE Iceland.

Sunna getur ekki beðið eftir keppninni í kvöld og segir mikla tilhlökkun ríkja á heimilinu. „Börnin mín eru mjög spennt og farin að benda mér hvar best sé að fylgjast með Euro-umræðunni á Youtube.“ Hún segir að áhugi barnanna fyrir íslenska atriðinu sé búinn að vera það mikill að fyrir öskudag hafi sjö  ára dóttir hennar heimtað að vera Hatari. Ég hef aldrei skemmt mér jafn vel við að búa til grímubúning,“ segir hún og hlær.

Sunna Mímisdóttir bíður í ofvæni eftir úrslitakvöldinu.

Tilhlökkunina segir Sunna ekki síst tilkomna vegna þess að hún trúi því einlægt að Íslendingar eigi, í fyrsta sinn, möguleika á sigri í keppninni. „Já, veistu, ég held að það séu meiri líkur á sigri Íslands núna en nokkru sinni fyrr. Þetta er bara svo flott lag út í gegn,“ lýsir hún og kveðst því alvarlega vera farin að íhuga að heyra í yfirmanni sínum í vinnunni til að tryggja sér frí í vinnunni á næsta ári. Sérstaklega fari keppnin fram á Íslandi.

Alvöruinnistæða fyrir góðu partíi

Svanhildur Hólm segist sömuleiðis vera spennt fyrir laugardagskvöldinu enda orðið mjög langt síðan Íslendingar hafi átt alvöruinnistæðu fyrir góðu Eurovision-partíi. „Spenningurinn tengist eðlilega mest Hatara, enda get ég með góðri samvisku sagt að mér finnst það langbesta atriði keppninnar í ár.“ Hún kveðst reyndar vera búin að spá Íslendingum 6. sæti í keppninni en finnst Hatari alveg eiga skilið að enda ofar.

- Auglýsing -

Svanhildur hefur alltaf haft gaman af Eurovision. Hún segist til að mynda muna vel eftir því að hafa verið í heimavist á Laugum í Reykjadal í 9. bekk þegar Sigga og Grétar náðu 4. sætinu og Íslendingum fannst þeir hafa unnið. „Mamma tók keppnina upp fyrir mig og næst þegar ég fór heim horfði ég á hana aftur frá upphafi til enda, eðlilega, því það voru aðeins of mikil læti á vistinni til að njóta almennilega.“ Þetta ár var uppáhaldslagið hennar White and black blues með Joëlle Ursull sem hafi hafnað í 2. sæti, mjög óverðskuldað að hennar mati, á eftir einu leiðinlegasta lagi sem hafi unnið Eurovision, Insieme 1992 frá Ítalíu. „Það fjallar um sameinaða Evrópu, svo mér finnst alveg kominn tími til að kolefnisjafna innihaldið og leiðindin með hressandi framlagi og sigri Hatara sem syngja um að Evrópa sundrist.“

Svanhildur Hólm ætlar meðal annars að borða tóma vitleysu, skrá sigurstranglegustu lögin og segja lélega brandara á Twitter á meðan keppni stendur. Mynd/Aldís Pálsdóttir

Hún segist að sjálfsögðu ætla að njóta keppninnar í botn í kvöld. „Já, ég ætla að horfa með fjölskyldunni, borða tóma vitleysu, skrá sigurstranglegustu lögin, segja lélega brandara á Twitter og svo auðvitað bilast af þjóðernisást og stemningu þegar okkar fólk stígur á svið,“ segir hún hress.

Mun öskra úr sér röddina ef Hatari vinnur

- Auglýsing -

Margrét Nilsdóttir, formaður BDSM-félagsins, er heldur ekki frá því að íslenska framlagið geti unnið í ár. Bæði lagið og keppnin eru henni að skapi. „Já, ég er hrifin af þessum óskapnaði öllum, það verður að viðurkennast. Ég er líka sett í strangar Euro-þjálfunarbúðir fyrir hverja keppni, þar sem dóttir mín hefur allt að því sjúklegan áhuga á keppninni. Hún spilar þá gjarnan lög og hlýðir mér yfir: „Hvaða land er þetta, mamma?“ Ef maður er ekki með svarið á hraðbergi fær maður hneykslunaraugnaráð og svo segir hún manni rétta svarið. Ég er líka með veikan blett fyrir ofurdramatískum Balkan-kraftballöðum. Er annað hægt?“

Margrét segir að sennilega komi hún til með að öskra úr sér röddina ef Íslandi vinni, því það yrði svo stórt skref í baráttu BDSM-fólks til að auka umræðu og afmá fáfræði og fordóma um hneigðir þess. „Það er þegar búið að vera óendanlega skrítið og skemmtilegt að sjá táknmyndir okkar notaðar til að selja sælgæti, heyra fólk á RÚV spjalla um BDSM og hvað búningarnir séu flottir og lesa frétt um prest með gaddaól. Fólk er allavega óðum að læra að við erum til og að við erum ekki skemmd eða hjálparþurfi og vonandi skilar þetta sér í vitundarvakningu um fjölbreytileika kyntjáningar. Þetta er allt verk Hatara.“

Hún segist ætla að horfa á keppnina í faðmi fjölskyldunnar í kvöld. „Ég ætla að horfa á ósköpin með fjölskyldunni, samt ekki kallinum því hann er of töff fyrir þetta, bara mömmu, systur minni og hennar börnum. Við skrifum niður topp 10 lista og giskum á endanlega röð og svona, gera það ekki allir?“ spyr hún og brosir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -