Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Merkúr – samskipti, lærdómur og störf

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Líkt og Merkúr, sendiboði guðanna, hefur plánetan Merkúr mikið með samskipti að gera innan stjörnuspekinnar. Merkúr er tákn þess hvernig við tjáum okkur, lærum, störfum og eigum samskipti við aðra. Merkúr stjórnar hinu talaða og ritaða orði. Merkúr stjórnar því hvernig við komum hugsunum okkar og hugmyndum á framfæri.

En hvað táknar Merkúr í hinum ólíku stjörnumerkjum?

 

Hrútur

Hugaður, hreinskilinn og hvatvís.

Sá sem er með Merkúr í Hrúti er afar beinskeyttur í samskiptum. Hann framkvæmir yfirleitt áður en hann hugsar og er sífellt á fleygiferð. Það er engin lognmolla í kringum hann. Hann vill ferðast í gegnum lífið á hlaupum og honum leiðist afar auðveldlega. Það er því best fyrir hann að hafa alltaf nóg fyrir stafni.

Þessi einstaklingur meinar það sem hann segir og segir það sem hann meinar – lygar eru honum nánast ómögulegar. Þú getur treyst á hreinskilið svar frá honum, en það er sömuleiðis engin sía til staðar, svo álit hans og svör verða ávallt óritskoðuð.

- Auglýsing -

 

Naut

Þrautseigt, þrjóskt og heiðarlegt.

Sá sem hefur Merkúr í Nauti býr yfir mikilli þrautseigju og haggast ekki þegar á reynir.

- Auglýsing -

Viðbrögð þessa fólks eru yfirleitt ekki hröð og því líkar illa að þurfa að tjá sig eða ákveða hluti, öðruvísi en að vandlega yfirlögðu ráði. Breytingar í lífi þess eru almennt hægar.

Þegar þessir einstaklingar hafa hins vegar ákveðið eitthvað verður þeim seint haggað. Þeir kjósa að læra með því að gera hluti; orðin tóm hugnast þeim ekki.

Þetta er traust og heiðarlegt fólk, en það kýs að sýna það og sanna í verki. Sömuleiðis mun þetta fólk ávallt horfa á verk þín frekar en orð, til þess að ákvarða hvort þú sért trausts þess verður.

  

Tvíburi

Opinn, forvitinn og félagslyndur.

Fólk með Merkúr í Tvíbura er sífellt á ferð og flugi; það er félagslynt og fær töluverða örvun út úr mannlegum samskiptum. Þetta er fólk sem á einstaklega auðvelt með að skoða mál frá öllum hliðum og skilja ólík sjónarmið.

Þekkingarþorsti þeirra er mikill og þessir einstaklingar vilja sífellt læra eitthvað nýtt. Það er oft dálítill athyglisbrestur í þeim og einbeiting þeirra fer fyrir ofan garð og neðan ef viðfangsefnið vekur ekki áhuga þeirra. Þessir einstaklingar eiga afar auðvelt með að detta með höfuðið á undan ofan í ýmsar kanínuholur. Til að mynda getur þeim dottið í hug eitt kvöldið að þeir vilji vita meira um ákveðið málefni eða manneskju. Skyndilega hafa margir klukkutímar liðið og Tvíburamerkúrinn gæti haldið fyrirlestur um málið eða tekið þátt í rökræðum um það.

  

Krabbi

Varfærinn, djúpur og greinandi.

Sá sem hefur Merkúr í Krabba kýs að miðla upplýsingum og tala um hlutina við einn eða fáa í einu. Hann hefur ekki þörf fyrir að básúna mál sitt í stórum hópum eða tala við marga í einu yfirhöfuð. Hann talar vandlega um hlutina frekar en að þjóta út og framkvæma. Hann er hugsandi, greinandi og gerir sér vel grein fyrir mætti hins talaða orðs og mikilvægi þess að hafa áætlun.

Þetta eru einstaklingar með mikla tilfinningagreind sem þeir nota óspart í samskiptum. Það er oft svo að fólk með Merkúr í Krabba veit öll leyndarmál vina sinna. Fólk hefur einhverja ósjálfráða tilhneigingu til að segja þeim hluti.

Þetta er fólk með ríka aðlögunarhæfni en á sama tíma afar breytilegt skap. Það er enginn ofsi í því út á við, en þetta fólk getur hreinlega upplifað sig sem tvær ólíkar manneskjur að morgni og kvöldi sama dags.

 

Ljón

Einlægt, glettið og heiðarlegt.

Einstaklingar með Merkúr í Ljóni koma ávallt til dyranna eins og þeir eru klæddir. Þeir hafa litla þörf fyrir að sýnast; þeir treysta á sjálfa sig og það sem þeir hafa fram að færa. Þeir standa styrkir og taka ábyrgð á ákvörðunum sínum og gjörðum.

Þessir einstaklingar elska að læra nýja hluti sem vekja áhuga þeirra. Þeir læra á barnslegan máta, í gegnum leik og forvitni. Það hentar þeim best að læra hluti með því að framkvæma og þegar þeir hafa komist upp á lagið með eitthvað gleymist það ekki svo glatt. Þetta eru skapandi einstaklingar og allt sem þeir gera kemur frá hjartanu. Þeir sjá ekki tilgang í því að gera hluti nema þeir séu sannir í þeim. Þannig er þetta fólk lítið fyrir að hoppa á vagna og fylgja tískustraumum. Þetta er leiðandi fólk sem hrífur aðra með sér. 

 

Meyja

Framtakssöm, nákvæm og rökræn.

Fólk með Merkúr í Meyju er afar vinnusamt. Það er stanslaust að og getur yfirleitt sinnt mörgum verkefnum í einu – og gert það vel. Þetta fólk er gjarnan miklum gáfum gætt og metur hina vitrænu hlið mikils. Það talar yfirleitt aldrei um hluti öðruvísi en að vita mikið um þá.

Þessir einstaklingar eru einstaklega færir í rökræðum og jarða andstæðinga sína leikandi. Ekki með neinum æsingi, heldur einungis með rökum og vitneskju. Þeim hættir oft við áhyggjum og streitu, enda setja þeir mikla pressu á sjálfa sig.

Þetta fólk er hjálpsamt og liðtækt í að leysa úr hinum ýmsu flækjum og vandamálum. Það gleður það þegar aðrir kunna að meta gáfur þess.

  

Vog

Listræn, forvitin og diplómatísk.

Sá sem hefur Merkúr í Vog er fær í mannlegum samskiptum. Hann er afar diplómatískur og því flinkur sáttasemjari. Hann er fróðleiksfús, vill helst hafa eyru alls staðar og vita allt um alla.

Þessir einstaklingar hafa mikinn áhuga á fólki. Persónulegar skoðanir þeirra virðast yfirleitt ekki flækjast fyrir þeim þegar þeir nálgast málefni og deilur. Raunar finnst þessu fólki oft erfitt að tjá sínar eigin skoðanir; að lenda í sviðsljósinu og hugsanlegri hakkavél. Ákvarðanir geta líka reynst því þrautin þyngri og þetta fólk glímir yfirleitt við valkvíða.

Þessir einstaklingar geta yfirleitt unnið með hér um bil hverjum sem er og sameinað ólíka einstaklinga og sjónarmið. Það er afar gott að hafa þá í vinnuhópum, enda eiga þeir auðvelt með að koma hlutum í gang og fá fólk til að tjá sig.

 

Sporðdreki

Leyndardómsfullur, hreinskilinn og ástríðufullur.

Fólk með Merkúr í Sporðdreka er einstaklega ástríðufullt og þarf að hafa djúpan áhuga á því sem það tekur sér fyrir hendur. Það gengur ekki upp hjá þessu fólki að vinna að verkefnum sem vekja ekki áhuga þess; því þykir það tilgangslaust.

Eins og er með flestar plánetur í Sporðdreka vill þetta fólk fara á dýptina og yfirborðsleg samskipti eru því þvert um geð.

Þessir einstaklingar elska að skilja hluti og stinga sér ávallt á bólakaf í hugðarefni sín. Það er dálítil rannsóknarlögregla í þeim. Umfram allt eru þeir rannsakandi, greinandi og elska að taka hluti í sundur og setja þá aftur saman.

Þetta eru þrjóskir einstaklingar sem kunna best við að hafa leynd yfir hugsunum sínum og áætlunum.

 

Bogmaður

Hreinskilinn, hvatvís og djarfur.

Sá sem er með Merkúr í Bogmanni er hnyttinn og snöggur upp á lagið. Hann er hreinskilinn og almennt fer ekkert sem hann segir í gegnum nokkurs konar síu. Enda á hann ekki í nokkrum vandræðum með að standa með því sem hann segir. Hann á það til að sjokkera og hefur lúmskt gaman af því.

Þetta eru virkir og félagslyndir einstaklingar sem kunna vel við að vera í miklum samskiptum við aðra. Þeir eru forvitnir og fróðleiksfúsir. Þeim líkar afar vel að læra í gegnum ferðalög og ævintýri ýmiss konar. Raunar er þetta fólk sem metur yfirleitt frelsi og ferðalög ansi mikils. Þeim líkar mjög illa að vera fastir í sama landinu lengi og ferðalög til annarra landa eru þeim sem ferskur andblær og spennandi rannsóknarvinna.

Þetta fólk er oftast með svör á reiðum höndum og er hnyttið í tilsvörum. Það er yfirleitt ekki sérlega gott í tímastjórnun og á það til að vera of seint.

  

Steingeit

Stjórnsöm, hvöss og vinnusöm.

Einstaklingar með Merkúr í Steingeit eru iðnir og nákvæmir. Þeir vinna verk sín vandlega og skorast aldrei undan ábyrgð. Þetta eru oft leiðtogar og þeir geta verið ansi stjórnsamir. Þeir ætlast til sömu vinnusemi frá öðrum og þeir leggja sjálfir til, sem getur reynst samstarfsfólki þeirra eða undirmönnum þrautin þyngri. Það eru nefnilega alls ekki allir sem koma jafn miklu í verk og fólk með Merkúr í Steingeit.

Þessu fólki líkar þó ekki að vinna að mörgu á sama tíma – það kýs heldur að búta verkefnin niður og klára eitt í einu.

Þessir einstaklingar hafa oft skemmtilegan húmor, sem oft er dálítið kaldhæðinn og óvenjulegur. Þeir þurfa á ákveðinni formfestu að halda og þekkja regluverk inn og út. Það blundar þó í þeim löngun til að brjóta reglurnar og því eiga þessir einstaklingar það til að fara í uppreisn.

  

Vatnsberi

Frumlegur, sjálfstæður og sjálfsöruggur.

Fólk með Merkúr í Vatnsbera er einstaklega hugmyndaríkt og elskar að kafa djúpt ofan í hugðarefni sín. Oft er þetta fólk sem fæst við tvo eða fleiri, afar ólíka hluti í lífi sínu. Þessir einstaklingar hafa oft áhuga á ýmiss konar dulspeki en eru svo ef til vill í „hefðbundnum“ störfum á daginn frá níu til fimm. Þeir eru einstaklega skapandi og eiga auðvelt með að heilla fólkið í kringum sig með óvenjulegum hugmyndum sínum. Þeir standa með hugðarefnum sínum og skoðunum, og nálgast hluti ávallt út frá vitsmunalegum grundvelli.

Þessu fólki finnst ekki erfitt að aðrir séu því ósammála eða að fólki þyki það skrýtið. Það virðist hreinlega ekki snerta þetta fólk.

Einstaklingum með Merkúr í Vatnsbera þykir skemmtilegt að rýna í menn og málefni og eru yfirleitt klárir. Þeir eru sérfræðingar í rökræðum og snöggir í tilsvörum. Þeim þykir ferill á sviði einhvers skonar vísinda, sérstaklega ef það tengist framþróun mannkyns, oft afar spennandi.

 

Fiskar

Skapandi, tilfinningaríkir og dularfullir.

Einstaklingur með Merkúr í Fiskum heldur yfirleitt öllum spilum sínum á hendi þar til í síðasta leik. Hann er mjög leyndardómsfullur og erfitt getur reynst að átta sig á markmiðum hans.

Þessir einstaklingar búa gjarnan yfir skáldgáfu og eru sérlega góðir sögumenn með mikið hugmyndaflug. Þeir geta spunnið heilu ævintýrin á staðnum og heillað áheyrendur sína með sér. Þeir hafa oft frumlega sýn á lífið og hugmyndir þeirra eru óhefðbundnar.

Þetta fólk notar innsæi og tilfinningar til að meta fólk og aðstæður, enda býr það yfir ákveðinni náðargáfu þegar kemur að tilfinningavitund. Það getur verið dálítið sveiflukennt í skapi og oft er engin leið að vita hvaða útgáfu af þeim þú munt mæta hverju sinni.

Þessir einstaklingar eru góðir hlustendur og hafa sérstakt lag á að umvefja viðmælendur sína hlýju og láta þeim líða vel.

 

Með réttum fæðingartíma og stað er enginn vandi að skoða hvaða merki Merkúr er í hjá þér, til dæmis á Cafe Astrology.

Smelltu hér til að lesa brakandi feskt helgarblaðið eða flettu því hér fyrir neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -