2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Mígrenið reyndist vera æxli í heila

Þegar Karítas Björgúlfsdóttir leitaði til heimilislæknis síns fyrir sex árum síðan vegna höfuðverks var hún greind með mígreni. Fimm árum síðar fékk hún þær fréttir að hún hafði verið ranglega greind og að höfuðverkurinn væri af völdum heilaæxlis.

 

Tæpt ár er liðið síðan Karítas Björgúlfsdóttir fékk þær fréttir að hún hafði verið ranglega greind með mígreni árið 2013. Í ljós kom að höfuðverkur og sjóntruflanir sem hún hafði þjáðst af voru af völdum ólæknandi heilaæxlis hægra megin í höfði.

„Ég hafði sem sagt verið með mígreni, að ég hélt, í sex ár. Heimilislæknirinn minn greindi mig með mígreni árið 2013, það var þá sem ég byrjaði að fá höfuðverk og sjóntruflanir. Þessi höfuðverkur var samt í byrjun ekki neitt óbærilegur líkt og mígrenishöfuðverk er lýst,“ útskýrir Karítas sem fékk lyf við mígreni en fann að þau slógu ekki almennilega á verkinn. Hana grunaði þó aldrei að hún hefði verið ranglega greind og að í raun væri hún með heilaæxli.

Tæpt ár er liðið síðan Karítas Björgúlfsdóttir fékk þær fréttir að hún væri með heilaæxli. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

AUGLÝSING


„Þegar ég byrjaði í mastersnámi fór höfuðverkurinn að aukast. Ég fékk höfuðverkjarköst þegar prófin nálguðust og þegar ég var undir álagi. Ég fór aftur til læknis sem fullvissaði mig um að þetta væri mígreni.“

Það var svo í september 2018 að Karítas fékk höfuðverkjarkastið sem varð til þess að fjölskylda hennar sannfærði hana um að hún þyrfi að gangast undir rannsóknir af einhverju tagi. „Ég fékk svo svakalegt höfuðverkjarkast og sjóntruflanir að ég vissi varla hvað ég hét. Ég gat hvorki svarað í símann né staðið upp úr rúminu. Þarna var ég ein heima með dóttur mína. Við náðum að hringja í manninn minn og ég sagði honum að hann þyrfti að koma heim, að það væri eitthvað að mér. Eftir þetta fóru hann og fjölskyldan mín fram á að ég færi aftur til læknis.“

Karítas fór að ráðum fjölskyldu sinnar og útskýrði fyrir heimilislækninum sínum að hennar nánustu hefðu miklar áhyggjur af ástandinu. „Hann taldi mér trú um að þetta hefði bara verið mjög slæmt mígreniskast  en samþykkti að senda mig í myndatöku. Hann sagði að hann myndi svo senda mér niðurstöðurnar skriflega, nema það kæmi eitthvað í ljós í myndatökunni, þá myndi hann hringja.“

„Þá var hann með tárin í augunum og tilkynnti mér að þetta væri heilaæxli.“

Karítas fór í segulómun 12. október. Hún segir að á meðan á myndatökunni stóð hafi hana farið að gruna að eitthvað alvarlegt væri að henni. „Þegar ég var að keyra heim úr myndatökunni var hringt í mig frá heilsugæslunni og mér tilkynnt að ég þyrfti að koma í viðtal til heimilislæknisins.“

Læknirinn sem greindi Karítas með mígreni á sínum tíma tók á móti henni til að fara yfir niðurstöðurnar. „Þá var hann með tárin í augunum og tilkynnti mér að þetta væri heilaæxli. Það var ekki auðvelt að sjá hvað honum fannst erfitt að segja mér þetta.“

 Helmingur æxlisins fjarlægður

Eftir að Karítas fékk þær fréttir að hún væri með æxli í heila tóku við fleiri myndatökur og fundur með heilaskurðlækni. „Ég fékk fréttirnar 12. október og 25. október var ég komin í aðgerð. Þeim tókst að skera helming æxlisins í burtu. Það var ekki hægt að taka allt vegna hættu á að skemma sjóntaugar og annað. En æxlið var búið að vaxa hægt í langan tíma og var orðið á stærð við tómat,“ segir Karítas og bendir á stórt ör á höfði sínu.

Við tóku lyfja- og geislameðferðir sem Karítas segir að vissulega hafi tekið sinn toll af heilsunni en hún tekur fram að hún hafi alltaf verið í góðu líkamlegu formi og það hafði hjálpað henni mikið.

„Það hvarflaði aldrei að mér að ég hefði fengið ranga greiningu,“ segir Karítas. Myndir / Hákon Davíð Björnsson

„Lyfin fóru auðvitað svolítið illa í mig en þetta hefur samt allt gengið rosalega vel. Ég náði til dæmis alltaf að stunda líkamsrækt meðan á meðferðinni stóð. Þannig að þegar fólk rakst á mig úti á götu á meðan á meðferðinni stóð var það oft hissa. Það hélt greinilega bara að ég lægi í rúminu deyjandi. Ég var alltaf að reyna að fullvissa fólk um að ég væri á réttri leið. Mig langaði ekki að fólk sæi mig fyrir sér að deyja.“

Karítas bætir við að hún hafi aldrei litið á heilaæxlið sem dauðadóm. „Það sem hefur einkennt hjúkrunarfræðinga sem hafa komið að minni sjúkrasögu er að þær eru bara að undirbúa mig fyrir dauðann. Ég fór til dæmis á fund með líknarteymi og var þá spurð hvernig það legðist í mig að deyja. Annar hjúkrunarfræðingur sem ég talaði við spurði mig hvað tæki við þegar bleika skýið mitt væri ekki lengur til staðar. Þetta finnst mér mjög áhugavert – að draga úr manneskju sem er lífsglöð og vill líta á björtu hliðarnar á lífinu.“

„Læknar geta gert mannleg mistök“

Eins og áður sagði grunaði Karítas ekki að höfuðverkurinn og sjóntruflanirnar sem höfðu hrjáð hana í gegnum árin væri af völdum heilaæxlis. Hún segir greininguna hafa verið mikið áfall fyrir sig og sína nánustu. „Það hvarflaði aldrei að mér að ég hefði fengið ranga greiningu. Þannig að það að heyra að ég væri með ólæknandi heilaæxli var mikið sjokk. Maður býst ekki við að svona geti komið fyrir. En þetta getur komið fyrir hvern sem er.“

Aðspurð hvort að hún sé reið yfir því að hafa verið greind með mígreni þegar að um heilaæxli var að ræða svarar Karítas neitandi. „Nei, þetta getur auðvitað gerst. Fólk treystir yfirleitt lækninum sínum en læknar eru bara fólk eins og við. Læknar geta gert mannleg mistök.“

„Fólk treystir yfirleitt lækninum sínum en læknar eru bara fólk eins og við. Læknar geta gert mannleg mistök.“

Jákvæðni einkennir persónuleika Karítasar og hún segir það hafa hjálpað sér mikið undanfarið ár. „Fyrst var ég svolítið reið að heyra að ég væri með ólæknandi heilaæxli en svo ákvað ég bara að reyna að tækla þetta með jákvæðni. Krabbameinslæknirinn minn hefur líka hjálpað mér að líta á björtu hliðarnar og veitt mér von,“ segir Karítas og tekur sem dæmi að hún sé heppin að æxlið sé staðsett hægra megin í heila en ekki í framheila t.d. því það hefði geta haft áhrif á persónuleikann.

Karítas segir greininguna hafa sett lífið í nýtt samhengi. „Við fjölskyldan fluttum úr Vesturbænum í Hafnarfjörð eftir að ég greindist vegna þess að ég fann að ég vildi vera nær fjölskyldunni minni sem býr í Hafnarfirði. Núna veit ég að ég vil beina athyglinni fyrst og fremst að fjölskyldunni.“

Mynd sem Kári Sverriss tók af Karítas fyrir ljósmyndasýningu Krafts.

Spurð út í framhaldið segir Karítas að núna ætli hún að einbeita sér að því að ná fullri heilsu og gera það sem veitir henni gleði í lífinu. „Ég fékk svo góðar fréttir í lok ágúst. Nýjustu myndirnar af æxlinu sýna að það hefur minnkað. Ég er í raun útskrifuð og þarf bara að vera í eftirfylgni,“ segir Karítas skælbrosandi. „Þannig að núna ætla ég bara að halda áfram að hugsa vel um mig og gera skemmtilega hluti.  Við höfum ekki stjórn á því hvaða leið við þurfum að þarf að fara í gegnum lífið, en við stjórnum því hvernig við förum hana. Mín leið hefur verið ansi skemmtileg og mér tókst að takast á við þetta erfiða verkefni nokkuð vel. “

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is