„Mikilvægt að þurrka sér rétt til að forðast þvagfærasýkingar“

Deila

- Auglýsing -

Anna  Eðvaldsdóttir ljósmóðir hefur undanfarin ár tekið eftir mikilli aukningu á þvagfærasýkingum hjá konum á barneignaraldri og jafnvel allt niður í leikskólaaldur. Aðalástæða aukningarinnar telur Anna vera að konur þurrki sér ekki rétt eftir að þær eru búnar að pissa.

„Ég hef tekið eftir því bæði í vinnunni minni á meðgöngu- og sængulegudeildinni á Landspítalanum og í heimaþjónustum að fleiri konur eiga sögu um endurteknar þvagfærasýkingar, blöðrubólgu og jafnvel nýrnasýkingar,“ segir Anna sem hefur verið ljósmóðir í 24 ár. 

„Síðastliðin ár hef ég markvisst spurt konurnar sem ég sinni og eru með þessa sögu hvernig þær þurrki sér eftir að þær eru búnar að pissa. Hvort þær fari á milli fóta og þurrki eða hvort þær fari frá annarri hvorri hliðinni og þurrki. Niðurstaðan er heldur betur athyglisverð því nánast undantekningarlaust eru konur sem eru með sögu um endurteknar e-coli-bakteríur í þvagi að þurrka sér vitlaust. Sem sagt, þær eru að fara með pappírinn á milli fóta og halda að þær séu ekki að fara með pappírinn nema bara yfir þvagrásina og alls ekki aftar, en það er bara oft þannig að pappírinn fer aðeins lengra en hann átti að fara og þá draga þær e-coli-bakteríurnar með pappírnum að eða yfir þvagrásina þegar þær „skoða“ pappírinn eftir að þær eru búnar að þurrka sér. Ef bakterían hefur einu sinni komist í þvagrásina og upp í blöðru, þá er eins og þvagrásin sé farin að þekkja þessa bakteríu og býður hana velkomna næst þegar hún á „leið fram hjá“.“

Niðurstaðan er heldur betur athyglisverð því nánast undantekningarlaust eru konur sem eru með sögu um endurteknar e-coli-bakteríur í þvagi að þurrka sér vitlaust.

Nauðsynlegt að kenna strax í leikskólum
Það er upplifun Önnu að konur séu almennt ekki meðvitaðar um mikilvægi þess að skeina sig rétt.

„Þegar ég var lítil stelpa þá var lögð mikil áhersla á að passa að fara aldrei með pappírinn á milli fóta þegar ég þurrkaði mér eftir að ég var búin að pissa. Núna finnst mér konur verða dálítið hissa þegar ég spyr þær um þetta, því þær hafa bara aldrei heyrt að þetta gæti verið ástæðan fyrir því að þær fá endalausar blöðrubólgur. Það er auðsjáanlega lítið rætt eða kennt hvorki í skólum né leikskólum, hversu mikilvægt er að aðskilja algerlega svæðið í kringum endaþarminn, þar sem e-coli-bakteríurnar eru, þær geta líka verið á stærra svæði í kringum endaþarminn en að maður heldur. Þess vegna eiga konur alltaf að þurrka frá þvagrás og afturábak en alls ekki frá þvagrás og framávið, því þá er hætta orðin á að e-coli-bakteríur nái í bláendann á pappírnum og slæðist yfir þvagrásarsvæðið þá er leiðin greið upp í þvagfærin.“

Anna segir að átak sé nauðsynlegt í þessum fræðum og þar þyrfti að byrja strax á leikskólunum.

„Ég veit það með vissu að í mörgum leikskólum er litlu stelpunum kennt að þurrka sér þannig að þær fara með pappírinn á milli fóta og þerra pissið. Ef við komum þessu strax í ferli, frá því stelpur byrja að þurrka sér sjálfar, eftir að þær eru búnar að pissa, þá held ég að við gætum sparað mikið í sýklalyfjanotkun. Ég er sannfærð eftir þessa eftirfylgni mína síðastliðin tvö ár að sýkingarhætta yrði miklu minni ef við myndum kenna stelpum og konum að þurrka sér rétt,“ segir Anna. 

Ef við komum þessu strax í ferli, frá því stelpur byrja að þurrka sér sjálfar, eftir að þær eru búnar að pissa, þá held ég að við gætum sparað mikið í sýklalyfjanotkun.

Konur sem breyttu skeiniaðferð hættu að fá sýkingar
Hún hefur verið með konur í heimaþjónustu eftir barnsburð sem hafa verið á sýklalyfjum nokkrum sinnum á ári vegna sýkinga í þvagfærum og fékk að fylgja nokkrum þeirra eftir þegar þær breyttu um aðferðir við að þurrka sér eftir að þær voru búnar að pissa.

„Það kom mér bara ekkert á óvart að þvagfærasýkingarnar sem konurnar fengu nokkrum sinnum á ári höfðu bara ekki komið aftur eftir að þær breyttu um aðferð við að þurrka sér eftir þvaglát. Auðvitað er það líka þekkt að kynlíf er einn þáttur í e-coli-sýkingum í þvagfærum en ég held að ég geti fullyrt að ef konur passi upp á hvernig þær þurrki sér þá muni sýklalyfjanotkun vegna þvagfærasýkinga snarminnka. Því vil ég endilega skapa umræðu um þetta,“ segir Anna.

Hún bætir þó við að lokum að auðvitað séu alltaf einhverjar sem sleppi þó þær hafi alltaf þurrkað sér fram á við. „En eg tel þær bara heppnar að hafa ekki sýkst. Við erum mismeðtækilegar fyrir sýkingum og ef við fáum fyrstu sýkinguna, vilja gjarnan fleiri fylgja i kjölfarið. Allar konur ættu að hafa þetta í huga ef þær hafa einhvern tímann fengið þvagfærasýkingu.“ 

 

 

 

 

- Advertisement -

Athugasemdir