2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Milljarðamæringur og vinur forseta sagður hafa misnotað tugi ólögráða stúlkna

Milljarðamæringurinn Jeffrey Epstein verður leiddur fyrir dómara í New York í dag. Hann er grunaður um að hafa starfrækt umfangsmikinn kynlífshring og misnotað tugi stúlkna undir lögaldri, allt niður í 14 ára gamalar. Núverandi og fyrrverandi Bandaríkjaforsetar tengjast Epstein sem og meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar.

Epstein var handtekinn í einkaþotu sinni á Teterboro flugvelli í New Jersey um helgina. Í grunninn snúast ákærur á hendur honum um að hann hafi komið upp neti aðila sem urðu honum úti um ungar stúlkur sem hann svo misnotaði, bæði á heimili sínu í New York og villu í Palm Beach í Flórída. Samkvæmt Miami Herald eru fórnarlömb Epstein að minnsta kosti 60 talsins en New York Times segir að þau geti skip hundruðum. Verði hann fundin sekur á hinn 66 ára milljarðamæringur yfir höfði sér allt að 45 ára fangelsi.

Málið má rekja aftur til Flórída í byrjun þessarar aldar. Epstein var þá ákærður fyrir sömu hluti og nú en því máli lauk með leynilegu samkomulagi við saksóknara í Flórída. Var hann dæmdur í eins árs fangelsi en það var í raun aðeins til málamynda því hann fékk að yfirgefa fangelsið 12 tíma á dag, sex daga vikunnar. Fórnarlömb Epsteins og fjölskyldur þeirra fréttu ekki af samkomulaginu fyrr en eftir að dómari hafði samþykkt það. Málið var tekið upp að nýju í febrúar eftir að dómari úrskurðaði að samkomulagið hefði verið ólögmætt vegna þessa.

Í lögfræðingateymi Epsteins á þessum tíma voru nokkrir af þekktustu lögmönnum Bandaríkjanna, svo sem Alan Dershowitz prófessor við Harvard háskóla og Kenneth Starr sem er hvað þekktastur fyrir rannsóknina á hendur Bill Clinton í Monicu Lewinsky málinu.

Sjálfur er Bill Clinton tengdur Epstein, því New York Times greinir frá því að Clinton hafi margsinnis fengið afnot af einkaþotu Epsteins. Andrés prins, hertogi af York, er einnig góður vinur Epsteins og þá hefur verið bent á tengsl milli Donalds Trump og Epsteins, þótt sá fyrrnefni hafi reynt að hreinsa hendur sínar af honum. Þannig mun Donald Trump hafa sagt að Epstein væri frábær náungi. „Það er mjög gaman að umgangast hann. Það er sagt að hann kunni að meta fallegar konur jafn mikið og ég, og margar þeirra eru í yngri kantinum,“ er haft eftir Trump í New York Magazine árið 2002.

AUGLÝSING


Það vekur svo upp enn frekari spurningar að Donald Trump skipaði Alexander Acosta, einn þeirra saksóknara sem komu að samkomulaginu við Epstein í Flórída, sem vinnumálaráðherra í ríkisstjórn sína. Talsmenn forsetans hafa þó hafnað öllum tengslum forsetans við Epstein og meðal annars bent á að honum hafi verið meinaður aðgangur að Mar-a-Lago klúbbi forsetans eftir að hann áreitti ólögráða stúlku þar. Þó er vitað að Trump hafi í að minnsta kosti eitt skipti ferðast með einkaþotu Epsteins.

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is