Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

„Mín aðaláhersla er að njóta og hafa gaman“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir hefur alltaf notið þess að vera úti í náttúrunni og hreyfa sig á hlaupum, í hjólreiðum eða í hestamennsku. Eftir að hún fór að hlaupa markvisst fyrir nokkrum árum hafa utanvegahlaupin heillað hana og nýlega gerði hún sér lítið fyrir og vann Hengil Ultra, 100 km utanvegahlaup.

„Mér finnst gaman að mæta í keppni af því að maður hittir alltaf svo marga, þetta er ekki bara keppni heldur líka félagsskapurinn.“ Mynd / Hallur

„Ég byrjaði fyrst að hlaupa í menntaskóla, bæði vegna þess að á þeim tíma voru kröfur um að fólk hreyfði sig eitthvað og pressa á að maður liti vel út,“ segir Ragnheiður sem er 37 ára gömul. Eftir að hafa hlaupið af og til og hætt ítrekað fór hún að hlaupa reglulega árið 2005 og fyrir sjö árum skráði hún sig í hlaupahóp.

„Ég hef alltaf verið sjálfstæð og fundist gott að geta hreyft mig ein og á mínum eigin forsendum. En það er líka meiriháttar að hlaupa með hópi og kynnast fólki með sömu áhugamál. Sumir hlaupafélagar mínir vita líka töluvert meira um mig en margir aðrir því lengri hlaup geta verið mjög góður sálfræðitími.“

Ragnheiður byrjaði að hlaupa utanvegar fyrir 3-4 árum og hefur núna í eitt ár hlaupið með hópnum Náttúruhlaup. „Ég hleyp og tek þátt í keppnum í bæði götuhlaupum og utanvegahlaupum, þó að þau síðari hafi yfirtekið allt þetta sumar,“ segir Ragnheiður og bætir við að hún hafi tekið þátt í 5 og 10 km götuhlaupum, en ekki unnið stór afrek á því sviði. Hún hefur einnig tekið þátt í hálf- og heilmaraþonum og segist ágæt í því. Hún hefur þrisvar verið hraðastjóri í Reykjavíkurmaraþoninu og segir það rosalega skemmtilegt og alveg meiriháttar að upplifa stemninguna sem þar er.

Kílómetratalan ein og sér segir ekki til um erfiðleikastigið
Ragnheiður segir marga hlaupa 100 km hlaup og það hafi verið gaman að kynnast þeim hópi, „því fyrir nokkrum árum vissi ég ekki að það væri til fólk sem hleypur 100 km.“ Hún bætir jafnframt við að kílómetrafjöldinn einn og sér segi ekki til um erfiðleikastig hlaups, hvort sem er á malbiki eða utanvegar.

„Lengri hlaup geta verið mjög góður sálfræðitími“

„Mér finnst álagið minna á líkamann í utanvegahlaupum af því að undirlagið er ekki alltaf það sama, ýmist hart eða mjúkt og maður er því ekki alltaf í sama takti. Það er fólk sem hleypur 100 km hlaup á malbiki, en það heillar mig ekki. Utanvegar ferðu upp brekku og þá hægir á þér, eins og í 100 km þá gengur maður upp brekkurnar. Þú ert löglega afsakaður í utanvegahlaupinu að hægja stundum ferðina, götuhlaupið krefst jafnari hraða. Utanvegahlaup eru líka einhvern veginn allt öðruvísi jafnvel þótt mann langi til að allt gangi ótrúlega vel og sigri hlaupið þá upplifir maður líka svo mikið á leiðinni og hleypur á allt annan hátt.“

Sigrum utanvegar raðað inn í sumar
Sigurinn í Hengli er ekki sá eini sem Ragnheiður vann í sumar því hún tók tvo aðra: Tvöföld Vesturgata, 45 km hlaup, sem fór fram í vestfirsku Ölpunum eða skaganum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, stundum kallaður Fjallaskaginn og Esja Ultra.

- Auglýsing -

„Þar hlaupum við upp Kerhólakamb og svo niður hann aftur og tökum dalinn sem er upp að Steini, svo upp á topp, langa leið niður og hana aftur upp og svo tvisvar í viðbót upp að Steini. Maður fer svona fimm sinnum upp,“ segir Ragnheiður og bendir á að það sé meiri hækkun í því 45 km hlaupi en í 100 km Hengilshlaupinu. Hún leggur áherslu á að þó að gaman sé að vinna hlaup, þá er það ekki aðalmarkmiðið, heldur frekar gleðin við að taka þátt, stemningin í hlaupinu og það að hitta og kynnast fólki. Ragnheiður hefur líka hlaupið erlendis og tók þátt í heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum í fyrra á Spáni, 88 kílómetra vegalengd. „Mér gekk bara vel, það voru engin met slegin en þetta var bara mjög gaman. Ég kláraði fyrst íslenska kvenna og fannst það ótrúlega skemmtilegt. Ég var ákveðin eftir það að hlaupa næst 100 km.“

Ragnheiður er önnur konan til að sigra 100 km hlaupið, sú fyrsta var Elísabet Margeirsdóttir árið 2017, en þá var vegalengdin í boði í fyrsta sinn. Árið 2018 keppti engin kona.
„Í ár voru þær nokkrar, en það sem er merkilegt við árangur Ragnheiðar er að hún var í 2. sæti af öllum. Tíminn hennar var og er brautarmet í 100 km hlaupi kvenna í Hengil Ultra Trail,“ segir Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri hlaupsins.

„Þeim fannst aðallega töff að ég fékk bikar“
Ragnheiður er umsjónarkennari í 2. bekk í Húsaskóla í Grafarvogi, en hún hefur starfað sem kennari í 12 ár. Hún segir að nemendur hennar hafi fengið veður af því að hún hefði unnið Hengil. „Þau voru spennt yfir því og spurðu hvort ég hefði fengið bikar, þeim fannst það mikilvægast af öllu og þau báðu fallega um að fá að skoða hann þannig að hann fór með í vinnuna einn daginn. Þeim fannst aðallega töff að ég fékk bikar.“

Ragnheiður hleypur ekki bara, hún er líka í hestamennsku, hjólreiðum og spinning, ýmist ein, með eiginmanninnum, Þorkeli Guðjónssyni, eða með dætrum þeirra þremur, sem eru á aldrinum 8-16 ára. Hún hefur fjórum sinnum tekið þátt í WOW-Cyclothon, vann fyrsta árið með hópi kvenna úr Mosfellsbæ, Team Spinnegal. Í þriðja skiptið hjólaði hún með Hjólakrafti. „Þá tók ég tvær eldri dætur mínar með og þetta er eitt það merkilegasta og skemmtilegasta sem við höfum gert saman. Mér finnst alltaf ótrúlega skemmtilegt að taka þátt í þessari hjólreiðakeppni.“

- Auglýsing -

Hún segist ekki alveg hafa kjarkinn til að keppa í götuhjólreiðum, „þér má ekki mikið fipast til vinstri eða hægri í slíkum troðningi.“ Hins vegar tekur hún þátt í götuhlaupum, sem fara fram allt árið. „Það er gaman að mæta í þær keppnir, til dæmis Powerade-mótaröðina sem fer fram annan hvern fimmtudag frá október til mars.“

Ragnheiður og dæturnar þrjár. „Ég hef verið hestastelpa alla tíð. Og hef náð að njóta hestanna með stelpunum mínum og svolítið með eiginmanninum.“ Mynd / Aðsend

Síðan 2016 hefur Ragnheiður einnig verið í spinning og hefur hjólað ýmist inni eða úti. „Ég er stolt af mér því síðasta vetur tókst mér að hjóla í vinnuna í 113 daga, 5 kílómetra úr Breiðholti í Grafarvog og síðan sömu vegalengd heim aftur. Ég stefni á 100 daga í vetur.“
Þótt Ragnheiður sé dugleg að hreyfa sig passar hún að taka minnst einn dag í viku í pásu. „Ég hef reynt það síðasta árið. Stundum er það föstudagur, af því oft tek ég svokallaða samlokuæfingu um helgar, það er langa æfingu á laugardegi og aðra á sunnudegi. Maður finnur bara hvaða dagur hentar til að vera kyrr.“

Hverju þakkar þú helst þennan frábæra árangur? „Ég hljóp löngu æfingarnar mínar með Náttúruhlaup hægar en ég hef gert áður og ég held að það hjálpi til við árangur.“
En mataræðið, hugsar þú mikið um það? „Það er eiginlega ekki hægt að skrifa neitt heilsutengt við mataræði mitt, ég borða mikið af hollum mat og stundum borða ég líka mikið af óhollum mat. En kannski er næsta skref að taka mataræðið í gegn ef ég vil verða enn hraðari.“

Ragnheiður kemur í mark í Hengil Ultra Trail. Mynd / Einar Bárðarson

Aðspurð um hvort að henni finnist hlaupaáhugi landsmanna hafi aukist svarar Ragnheiður játandi og segir mikla vakningu hvað utanvegahlaupið varðar. „Við hér á höfuðborgarsvæðinu erum mjög heppin með staði til að hlaupa og æfa okkur á. Öskjuhlíðin, þar er hægt að þræða stíga í marga kílómetra og þú hleypur aldrei sama stíginn. Sjálf hleyp ég mikið í Elliðaárdalnum. Heiðmörk er meiriháttar, svo alls staðar í kring, fellin í Mosfellsbæ, svæðið kringum Hvaleyrarvatn og Hafnarfjörð, Vífilsstaðavatn og svæðið þar, þó að við eigum heima á höfuðborgarsvæðinu búum við vel að æfingasvæði fyrir utanvegahlaup.

Mín aðaláhersla er að njóta og hafa gaman og mér hefur tekist að gera það í gegnum þetta allt saman og stundum stend ég mig ótrúlega vel og er framarlega en það er ekki aðalmarkmiðið því þetta er svo ótrúlega skemmtilegt. Ég kynnist svo frábæru fólki og manni líður líka svo vel með sjálfan sig.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -