Fimmtudagur 28. mars, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Missti allt tímaskyn á djamminu í Reykjavík

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hin heimsþekkta hljómsveit Duran Duran heldur tónleika í Laugardalshöll 25. júní næstkomandi. Mannlíf sló á þráðinn til hljómborðsleikarans, Nick Rhodes, sem segir meðlimi sveitarinnar ekki getað beðið eftir að koma til landsins og troða upp. Enda sé orðið allt of langt liðið frá því síðustu tónleikum.

Að sögn Nicks hefur Duran Duran engin plön um að halda aðra tónleika í Evrópu á þessu ári fyrir utan þátttöku á tónlistarhátíð í Danmörku í lok mánaðarins. Auk þess sem sveitin er með nokkra fyrirhugaða tónleika í Bandaríkjunum í september. Tónleikarnir á Íslandi eru með öðrum orðum einu tónleikarnir í fullri lengd í Evrópu það sem eftir lifir árs. Eina tækifæri aðdáenda til að upplifa heilt prógramm með goðunum í þessum heimshluta. En hvernig kom eiginlega til að Ísland varð fyrir valinu? „Ja, það er nú bara þannig að á síðasta tónleikaferðalaginu okkar náðum við ekki að koma til Íslands, landið var aðeins úr leið fyrir okkur. Þannig að þegar þetta tækifæri gafst, að halda þessa tónleika í Reykjavík, þá stukkum við á það. Hvað annað er hægt, Ísland er alveg geggjað,“ svarar hann og eftirvæntingin leynir sér ekki.

Duran Duran er ein frægasta poppsveit sögunnar. Sveitin skaust upp á stjörnuhimininn snemma á níunda áratug síðustu aldar og spannar ferill hennar því fjóra áratugi. Á þeim tíma hefur hún unnið til tvennra Grammy-verðlauna, tvennra Brit-verðlauna, hlotið sjö sinnum Lifetime Achievement-verðlaunin auk fjölmargra annarra viðurkenninga og selt yfir 100 milljónir platna um heim allan.

Sömu stráklingarnir inn við beinið
Nick segir að tónleikagestir verði ekki sviknir af tónleikunum í Höllinni. Meðlimir sveitarinnar ætli að leggja sig alla fram við að skemmta fólki með góðri blöndu af eldra og nýrra efni, meðal annars með lögum af síðustu plötu sveitarinnar, Paper Gods sem hefur hlotið góðar viðtökur og fína dóma. „Hún er kannski svolítið tilraunakenndari en fyrri plötur. Til dæmis eru sum lögin ívið lengri en áður og svo gætir áhrifa frá hip hopi. Við erum reyndar alltaf að prófa nýja hluti í tónlistinni, að máta okkur við alls konar tónlistarstefnur en pössum okkur þó á því að halda í tóninn sem einkennir Duran Duran. Platan er ein af okkar sterkari í seinni tíð, þótt ég segi sjálfur frá, og það var ferlega gaman að gera hana,“ lýsir hann en flýtir sér að bæta við að aðdáendurnir þurfi þó engar áhyggjur að hafa af helstu smellunum, þeir verði á sínum stað. „Eftir 40 ár höfum við úr ágætlega miklu efni að moða,“ segir hann og kímir.

„Þegar við fjórir bröllum eitthvað saman þá er eins og einhverjir töfrar losni úr læðingi. Ég bara veit að eitthvað skemmtilegt kemur út úr því.“

Talandi um það, er alltaf jafngaman að taka upp nýtt efni eftir öll þessi ár sem sveitin hefur starfað? „Já, veistu, það er það,“ svarar Nick hiklaust. „Ég hef unnið með slatta af fólki í þessum bransa og eitt af því sem ég hef lært er að maður getur annaðhvort orðið leiður á tilteknu samstarfi eftir ákveðinn tíma og hreinlega misst áhugann eða samstarfið styrkist. Það síðarnefnda gerðist í okkar tilviki. Þegar við fjórir bröllum eitthvað saman þá er eins og einhverjir töfrar losni úr læðingi. Ég bara veit að eitthvað skemmtilegt kemur út úr því. Jú, jú, auðvitað kemur fyrir að maður verður þreyttur inn á milli en það er þá einhverju öðru um að kenna en samstarfinu, til dæmis álaginu sem getur fylgt því að túra mikið. Okkur finnst einfaldlega enn jafngaman að vinna saman eftir allan þennan tíma, enda má segja að þegar öllu er á botninn hvolft séum við innst inni sömu strákarnir og við vorum í byrjun, fullir af ástríðu og ævintýraþrá.“

Hljómborðsleikari Duran Duran, Nick Rhodes, hlakkar mikið til að koma aftur Íslands. „Svo sagði einhver: „Gerum eitthvað spennandi!“ Og niðurstaðan var að heimsækja Ísland.“

Spurður hvort þetta téða álag sem fylgir tónleikaferðalögum setji fjölskyldulífið ekki alveg úr skorðum játar Nick að vissulega geti stundum verið strembið að sameina þetta tvennt. „Jú, auðvitað getur það verið það. En við gerum okkar allra besta til að passa upp á fjölskyldurnar okkar. Fáum þær regulega í heimsókn þegar við erum að túra og flökkum sjálfir mikið á milli fjölskyldnanna og tónleikastaða. Síðasti túr varði til dæmis í 18 mánuði og reyndi á, enda tókum við okkur gott frí frá öllu tónleikastússi eftir það. Þegar við fórum svo aftur af stað byrjuðum við að taka þátt í viðburðum hér og þar og hófum í leiðinni vinnslu á nýrri plötu. Svo sagði einhver: „Gerum eitthvað spennandi!“ Og niðurstaðan var að heimsækja Ísland.“

Missti allt tímaskyn á djamminu í Reykjavík
Duran Duran spilaði síðast á Íslandi fyrir fjórtán árum síðan við góðar undirtektir tónleikagesta og segist Nick muna vel eftir þeirri ferð; hún hafi verið ævintýraleg og hann minnist Íslendinga með hlýhug. „Fólkið var indælt og mjög skemmtilegt. Meira að segja blaðamannafundurinn sem við héldum var fyndinn, sem kom ánægjulega á óvart. Svo var umhverfið ótrúlega spes. Ég varð til dæmis hugfanginn af öllum marglita húsunum og náttúrunni, hún er alveg einstök. Birtan var líka klikkuð, þessi dagsbirta sem varir allan sólarhringin á sumrin. Hún varð til þess að við Simon [Le Bon, innskot blm.] misstum allt tímaskyn. Ætluðum rétt að kíkja út á lífið og áður en við vissum af var klukkan orðin sex – sex um morguninn.“ Hann hlær við tilhugsunina og segist hlakka til að koma aftur til landsins og upplifa fleiri ævintýri.

Duran Duran spilaði síðast á Íslandi fyrir fjórtán árum síðan og Nick man vel eftir þeirri ferð. „Fólkið var indælt og mjög skemmtilegt. Meira að segja blaðamannafundurinn sem við héldum var fyndinn.“

„Svo verður bara hrikalega gaman og gefandi að fá að koma fram og spila fyrir áhorfendur. Það er allt of langt síðan við spiluðum á Íslandi og ég get sko sagt þér að við ætlum að gefa okkar alla í þetta; skapa virkilega gott og flott „show“ fyrir tónleikagesti, sem ég vona, nei, ég veit að þeir munu hafa gaman af.“

- Auglýsing -

En verður einhver tími aflögu til að gera eitthvað annað? „Vá, það sem ég væri nú til í að fara í smá ferðalag og sjá meira af landinu ykkar, skoða þessa náttúrufegurð. En nei, því miður reikna ég ekki með að það gefist tími í neitt annað núna. Þetta verður ekki nema nokkra daga stopp á Íslandi og svo er það Danmörk. En, það er kannski bara góð afsökun fyrir því að koma aftur síðar og vera þá lengur,“ segir hann dreyminn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -