Miðvikudagur 27. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Missti báða eggjaleiðarana og bjó til ævintýrapersónu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Anna Bergljót Thorarensen semur nýjasta verk Leikhópsins Lottu. Þetta er áttunda verkið sem hún skrifar fyrir hópinn og segir sitt eigið líf farið að blandast inn í ævintýraheim leikhópsins. Í nýjasta verkin er persóna sem þráir að eignast börn en getur það ekki, en Anna Begga missti báða eggjaleiðarana á síðasta ári.

Aðalmynd: Hér er Anna Begga í miðjunni ásamt leikurunum sex sem skipta öllum hlutverkum í sýningunni á milli sín.

„Við grínuðumst með það að þegar yfir lyki væri sennilega hægt að lesa ævisögu mína út úr handritunum sem ég læt eftir mig. En það er nú bara þannig að mér finnst skemmtilegra að skrifa um það sem stendur mér nærri,“ segir Anna Bergljót Thorarensen, eða Anna Begga eins og hún er oft kölluð, heilinn á bak við leikhópinn Lottu og brosir.

Gosi og allir hinir í Ævintýraskóginum.

Leikhópurinn leggur land undir fót tólfta sumarið í röð með glænýja fjölskyldusýningu þar sem áhorfendur fá að kynnast spýtustráknum Gosa betur.

„Við erum að vinna eftir sömu uppskrift og við höfum oft gert áður, það er að blanda saman nokkrum ævintýrum og reglum úr ævintýrum og binda þær saman með einum rauðum þræði. Já, eða nokkrum þráðum sem síðan fléttast í eina fallega fléttu með þykktum endahnúti,“ segir Anna Begga og heldur áfram. „Innihaldsefnin eru hins vegar margbreytileg og þegar ég er búin að týna þau til þá finnst mér oft eins og þau taki yfir og ákveði svolítið sjálf hvert þau vilja fara með söguna.“

Garðabrúða með stórt hlutverk

Anna Begga segir að auk Gosa spili Garðabrúða stórt hlutverk í sýningu sumarsins, sem og ævintýrið Óskirnar þrjár.

- Auglýsing -

„Í sumar erum við að vinna með spýtustrákinn Gosa og hans sterkasta ævintýraminni sem er nefið sem stækkar þegar hann lýgur. Ég ákvað síðan að leyfa Garðabrúðu að fá stórt hlutverk í leikritinu í ár. Garðabrúða er stúlkan sem er föst uppi í turni og kastar niður hárinu sínu til að hægt sé að komast í og úr honum. Eina leiðin til að komast upp til hennar er sem sagt að klifra upp hárið hennar. Þessar tvær hindranir eða þessi tvær reglur sem höfundur þarf að vinna eftir setja mikinn svip á það hvert verkið fer og ákveða ekki síður en höfundurinn hvert verkið vill fara. Í sumar er líka aukasaga inni í verkinu okkar sem heitir Óskirnar þrjár,“ segir Anna Begga og verður dul þegar ég inni hana eftir frekari upplýsingar um framvindu verksins.

„Óskirnar þrjár þekkja ekki margir. Til dæmis voru ekki nema tvö úr sjö manna leikhóp sem þekktu hana áður en við hófum æfingar og því vil ég ekkert vera að rifja hana neitt upp fyrir fólki hér í þessu viðtali. Hún fær bara að koma skemmtilega á óvart.“

Veit hvað persónurnar ganga í gegnum

Anna Begga er leikstjóri og höfundur verksins. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að þetta er áttunda verkið sem hún skrifar fyrir leikhópinn.

Hress hópur.

„Ég var einmitt að tala um það við vinkonu mína um daginn að leikritin mín væru farin að litast í meira mæli af því hvað er að gerast í mínu lífi,“ segir Anna Begga. Hún sækir innblástur bæði í gleðistundirnar í lífinu, en einnig þær erfiðu og átakanlegu.

- Auglýsing -

„Fyrir tveimur sumrum settum við upp Litaland þar sem ein persónan var ófrísk og átti meira að segja barn á miðju sviðinu. Þessi ákveðna persóna var skrifuð beint þarna inn svo ég gæti tekið þátt það sumarið af því að ég var sjálf nýbúin að komast að því að ég væri ólétt. Á síðasta ári missti ég síðan báða eggjaleiðarana vegna utanlegsfósturs og stóð síðan sjálfa mig að því að vera komin með persónu inn í Gosa sem þráir það að eignast barn en getur ekki eignast barn,” segir Anna Begga og bætir við. „Þannig fléttast mitt líf stundum inn í ævintýrin líka en mikilvægast finnst mér þó að þeir sem horfi á hafi gaman að en ekki síður að verkið skilji eftir spurningar eða boðskap sem hægt er að nýta sér.“

En er ekkert erfitt að nýta eigin reynslu í svona léttleikandi verk? Hefur það kannski meðferðargildi?

„Ég held alla vega að ég nái extra miklu út úr leikurunum þegar ég veit hvað karakterarnir eru að ganga í gegnum.“

Nefið stækkar og stækkar.

Gosi í hnotskurn

Fjöldi sýning? Um 100.
Hvar? Út um allt land og leikið undir berum himni.
Síðasta sýning? 29. ágúst.
Hvar sé ég sýningarplan? leikhopurinnlotta.is
Leikarar? Bergdís Júlía Jóhannsdóttir, Björn Thorarensen, Huld Óskarsdóttir, Sigsteinn Sigurbergsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson og Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir.
Tónlist? 10 ný lög samin af Önnu Beggu, Stefáni Benedikt og Baldri Ragnarssyni.
Dansar? Ó, já. Danshöfundur er Berglind Rafnsdóttir.
Ég kannast við þetta nafn, hvað annað hefur Leikhópurinn Lotta sett upp? Til dæmis Ljóta andarungann, Hróa Hött, Stígvélaða köttinn og Mjallhvíti.

Myndir / Leikhópurinn Lotta

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -