Frönsk 48 ára móðir lést af slysförum þegar sæþota hennar og 16 ára tvíburadætra hennar rákust saman. Móðirin var með eiginmanni sínum á þotunni en dæturnar á annarri en atvikið átti sér stað þann 4. ágúst í Gironde í suðvesturhluta Frakklands. Hún fékk alvarlegt höfuðhögg og lést nokkrum klukkustundum eftir komu á sjúkrahús. Bæði maðurinn og dæturnar sluppu með minniháttar meiðsli en voru lögð inn vegna mikils áfalls. Fjölskyldan var undir handleiðslu kennara á sæþotunum en í frönskum lögum segir að einungis 16 ára og eldri megi nota sæþotur, og einungis ef kennari er viðstaddur. Fjölskyldan kastaðist af þotunum við áreksturinn.
Málið er nú rannsakað en hvorki er vitað hvort notaðir voru hjálmar né hversu miklum hraða þoturnar voru á. Enginn verður þó ákærður fyrir dauða móðurinnar og enginn grunaður um nokkuð saknæmt
Aukning hefur verið á sæþotu slysum í Frakklandi en í fyrra voru 55 slys skráð, samanborið við 34 árið 2022.