Bjarni Helgason, blaðamaður Morgunblaðsins skrifaði nýlega pistil um þá ákvörðun KSÍ að taka Kolbein Sigþórsson úr landsliðinu fyrir síðustu þrjá leik liðsins. Telur hann KSÍ hafa gert mikil mistök.
Næstkomandi fimmtudag mun Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, tilkynna hóp fyrir heimaleiki gegn Armeníu og Liectenstein í undankeppni HM en leikirnir fara fram í október. Stjórn KSÍ tók Kolbein út úr liðinu eftir að fjölmiðlar byrjuðu að fjalla um kynferðislegt ofbeldi sem Kolbeinn beitti tvær konur á skemmtistað í miðborginni árið 2017.
Bjarni spyr í pistlinum hvað Kolbeinn hefði gert, væri hann ekki meiddur. „Kolbeinn er ekki til taks fyrir næsta verkefni vegna meiðsla en hefði hann gefið kost á sér núna yfir höfuð ef hann væri heill heilsu?“
„Sátt náðist í hans mál árið 2018 og því spyr maður sig eðlilega hvort þetta hafi ekki bara verið einn stór leikþáttur og hrein og klár mistök hjá stjórn KSÍ að banna honum að mæta í leikina gegn Rúmeníu, Norður Makedóníu og Þýskalandi enda stjórnin meira en meðvituð um meint brot hans fyrir fjórum árum,“ skrifar Bjarni í pistlinum og heldur áfram,
„Maðurinn baðst afsökunar og greiddi himinháar bætur. Var nauðsynlegt að refsa honum enn frekar og þá hversu lengi? Dómstöll götunnar Twitter er vægðarlaus, svo mikið er víst, en eins og nýliðnar alþingiskosningar sýndu fram á endurspeglar bergmálshellirinn á Twitter ekki alltaf vilja þjóðarinnar.“
Endar Bjarni pistilinn á heilræði til KSÍ. „Ég óska þess að ný stjórn KSÍ taki á öllum kynferðis- og ofbeldismálum af mikilli festu en það þarf líka að anda inn, og svo út, þegar svona mál eru til umræðu.“