Þriðjudagur 23. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Munda Pálín eina konan á Íslandi sem var tvöfaldur morðingi: „Ég var alltaf hrókur alls fagnaðar”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í febrúar 1991, stakk Munda Pálín Enoksdóttir sambýlismann sinn, Óskar Þórðarson, til bana á heimili sínu í Reykjavík. Hún hringdi í kjölfarið á Kleppsspítala og játaði á sig verknaðinn.

Þar með var Munda eina konan á Íslandi sem hefur framið tvö manndráp.

Saga Mundu er átakanleg saga fátæktar, geðraskana, ofbeldis, nauðgana, ógæfu og örvæntingar.

Fátækt, basl og barnadauði

Munda fæddist inn í bláfátæka sjómannsfjölskyldu árið 1939, ein níu barna en tvö dóu ung. Þegar hún og systir hennar fermdust saman var engin fermingarveislan. Það var ekki til peningur fyrir henni. Lífið var basl á basl ofan. Munda ólst upp í Reykjavík en fjölskyldan flutti til Grindavíkur þegar hún var 10 ára gömul. Síðar kom í ljós að Munda var bráðvel gefin, hafði greindarvísitölu upp á 122 stig, ljóðræn og vel lesin, en geðsjúkdómar og óregla komu í veg fyrir að hún rataði réttan veg í lífinu.

Þegar Munda var 16 ára gömul trúlofaðist hún pilti í plássinu en sambandið var stirt, erfitt og ofbeldisfullt. Þau eignuðust þrjú börn. Eitt andaðist tveggja daga gamalt og annað fékk heilahimnubólgu við eins árs aldurinn og varð drengurinn þroskahamlaður í kjölfarið.

- Auglýsing -

„Erfitt að vera geðveik í Þingeyjarsýslu“

Eftir skilnaðinn við Grindvíkinginn réð Munda sig sem ráðskonu norður í land þar sem tveir bræður réðu búi. Hún var 21 árs. Hún giftist öðrum þeirra og stóð það samband í 11 ár. Hún eignaðist önnur þrjú börn með honum. Árið 1965 fer Munda að finna fyrir sjúkdómi sínum og fer í kjölfarið til Reykjavíkur og á Klepp. Þar var hún í tvo mánuði og tók trú áður en hún var send aftur norður, lyfjalaus.  Í viðtali við Helgarpóstinn árið 1984 segir hún að trúin hafi smám saman verið barin út henni. „Mér var sagt að þetta væri bara geðveiki og rugl.” Hún náði aftur sambandi við guð sinn áratug síðar. Munda sagði það hafa verið erfitt að vera geðsjúkling í Þingeyjarsýslu, hún hafi verið litin hornauga af samsveitungum.

Árið 1968 þoldi Munda ekki lengur við og fór til Reykjavíkur.

- Auglýsing -

Nauðgunartilraun og sjálfræðissvipting

„Þá tók við sukk og svínarí, guðlaust líferni”. Munda var í mörgum samböndum en engum alvarlegum. Og sukkið jókst, jarðsambandið rofnaði og ógæfan magnaðist. „Ég var aldrei alkóhólisti, missti aldrei ráð og rænu. Ég var alltaf hrókur alls fagnaðar.”

Eftir mikla fylleríisskemmtun árið 1973 hélt Munda í partí í Árbæjarhverfi þar sem 16 ára piltur reyndi að nauðga henni í stigagangi. Hún tók upp vasahníf og lagði piltsins þegar hann nálgaðist kynfæri hennar. Málið vakti gríðarlega athygli í fjölmiðlum þar og var mikið um rætt að kona á fertugsaldri hefði ráðist á 16 ára dreng. Hún var handtekin síðar um nóttina og kærð fyrir líkamsárás en nauðgunartilraunin var aldrei kærð.

„Fimm lögregluþjónar báru mig inn í klefann. Ég var klædd út öllum fötunum.” Í kjölfarið var Munda svipt sjálfræði og send á Klepp. Aftur. Sagði hún lögregluna hafa veifað ögrandi sviptingarskjölunum framan í hana þegar hún lá í böndum aftan í lögreglubíl. „Kærði ég naugðunina? Nei, ég var geðveik og vitlaus og mátti ekki lyfta litla fingri mér til sjálfsbjargar. Það eru fleiri sem hafa nauðgað mér en ekki fengið nein ámæli fyrir það. Það er kannski annað mál að nauðga geðveikri konu en venjulegri konu á Hverfisgötunni. Ég var sökudólgurinn, hent í fangelsi og inn á Klepp. Nú finnst mér eins og þjóðfélagið hafi nauðgað mér.”

„Hrein og klár slagsmál“

Við útskrift nokkrum mánuðum var Mundu sleppt af Kleppi og fór hún fljótlega í hálfgildings sambúð að Suðurlandsbraut. „Hann var drykkfelldur og hafði af mér mikið fé. Sjálf hafði ég fasta vinnu, átti bíl og hafði húsnæði.”

Fimmtudaginn 24. október 1974 var ekkert sjónvarp í boði eins og þá var reglan. En það var til nóg af áfengi. „Þetta voru slagsmál, hrein og klár slagsmál.” Veitti hún sambýlismanni sínum, Jóhannesi Þorvaldssyni, áverka með hníf með því að skera hann á háls og stinga hann fyrir ofan viðbein og herðablað, og stuttu síðar réðst á hún á hann aftur með vasahníf og litlum skærum og stakk hann.

Í desember 1975 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að slagsmálin hefðu leitt til dauða Jóhannesar. Þetta var manndráp, ekki morð. Hún var sýknuð af völdum andlegra annmarka og talin ófær um að hafa stjórn á gjörðum sínum. Var Mundu gert að sæta öryggisgæslu. Eftir atburðina á Suðurlandsbraut var Munda send í varðhald í Síðumúlafangelsi þar sem hún dvaldi í eitt og hálft ár.

„Klefinn: Steinbekkur, gluggi sem sést út um. Glugginn svo hátt að það þarf að standa á bekknum. En það þýðir ekkert að horfa út um hann, það sést ekkert. Ég man eftir sólskinsdögum í fangelsisgarðinum. En ég var búin að vera inni í heilt ár áður en ég fékk að fara þangað.”

Beygð og buguð

Munda var einmana og vansæl og þjökuð af andlegum sjúkdómum. Hún tók trúna aftur. Hún var síðar send á geðsjúkrahús í Svíþjóð þar sem hún dvaldi í þrjú ár áður en hún kom aftur heim. Munda losnaði úr haldi árið 1984. Við tók mikið basl og sjálfræðissviptingin hindraði hana í mörgu. Hún sagði kerfið hafa hana í hendi sér og gæti gert við hana hvað það sem því sýndist.

Munda var beygð og buguð. „Maður uppgötvar að ættingjar manns elska mig ekki, móðir manns elskar mann ekki, kærastarnir elskar mann ekki, nágrannarnir elska mann ekki, maðurinn manns elskar mann ekki, ekki tengdafólkið og það sem verst – að hata sjálfan sig. Hvar er þá ást að finna? Er það á Kleppsspítala?”

Seinna manndrápið

Sex árum síðar var Munda komin komin í sambúð með Óskari Þórðarsyni. Í febrúar 1991 stakk hún hann til bana á heimili sínu eftir ofbeldisfullt rifrildi.  Hún var aftur talin ósakhæf vegna geðröskunar og var dæmd til að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

Hún eyddi ævinni meira og minna inni á stofnunum og síðustu árunum á réttargeðdeildinni að Sogni.

Munda tjáði tilfinngar sína í eftirfarandi ljóði:

„Hví eru hjörtu svo köld.

Hóta járnum á mig.

Hin gráu syndagjöld

gína söm við sig –

Er svo með þig?”

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -