Eiríkur Sigurðsson er þaulreyndur skipstjóri til tæplega fjörutíu ára. Hann er aflakló, þykir slyngur við veiðar og leiðbeinir sínum sjógörpum frá brúnni í frystitogaranum Reval Viking.
Þegar lagt er úr höfn á veturna er stefnan sett djúpt inn í svartasta myrkrið sem er að finna á jarðarkringlunni. Og á meðan vetur konungur ræður ríkjum er myrkrið alltaf á sínum stað. Fiskimið þessara sæfara er nefnilega nærri Norðurpólnum, í ríki ís og kulda. Hér, á þessum slóðum eru öldurnar engin smásmíði. Margra metra háar æða þær hvítflissandi í átt að skipinu, en Eiríkur er öllu vanur og stýrir fleyinu upp úr djúpum öldudölum sem í ofsaveðrum virðist aldrei ætla að enda. Eiríkur var í ítarlegu helgarviðtali við vef Mannlífs þar sem hann sagði frá ótrúlegum ævintýrum á sjónum. Það viðtal má lesa hér.
Sjá einnig: „Nú er búið að hafa af manni jólin“
Í viðtalinu kom fram að þó kuldi, myrkur og ís séu allsráðandi á þessum slóðum, þá eiga sér þar einnig stað falleg og skemmtileg ævintýri. Eiríkur lýsir þeirri atburðarás á þessa leið:
„Eftir að hafa verið að veiðum norður í rassgati að undanförnu neyddumst við til að hörfa undan stormi og hafís vestur fyrir Svalbarða og inn á Isfjord á aðfangadag. Við Isfjord stendur höfuðstaðurinn Longyearbyen þar sem Kristján vinur minn Breiðfjörð, Svavars heitins Cesars– og Guðnýjarson býr ásamt fjölskyldu sinni.
Í gær, jóladag, vorum við að veiðum skammt frá landi við Longyearbyen þegar Kristján mætti í fjöruna og óskaði okkur gleðilegra jóla með ljósmerkjum á morsi. En fyrir þá sem ekki vita hvað „morse“ er, þá er það stafróf sem notað er til fjarskipta með ljós- eða hljóðmerkjum á sjó.
Kristján var að sjálfsögðu alvopnaður enda staddur á kunnum bjarndýraslóðum og skammt frá þeim stað þar sem ísbjörn varð manni að bana í haust.
Þetta er frumlegasta og skemmtilegasta jólakveðja sem ég hef fengið og munaði minnstu að við félagarnir, ég og Skröggur dyttum í jólagírinn.
Það má eiginlega segja að þetta hafi verið Covid–jólahittingur hjá okkur Kristjáni.
Ef vel er gáð sést skært ljós neðarlega til hægri á annarri myndinni en þar er Kristján í fjörunni að morsa.“
Er það mál manna að þetta sé frumlegasta kveðjan þessi jólin, í það minnsta ein af bestu og skemmtilegustu jólakveðjum ársins.