2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Myndlistarsköpun er góð við athyglisbresti

Verkið uppi á vegg.

Kolbeinn segir að unnastan kunni greinilega að meta verkið því hún hafi sett það á besta stað í íbúðinni.

„Verkið er nafnlaust og unnið með olíu en ég málaði það fyrir Kötlu Rut, unnustuna mína, þegar við byrjuðum að búa árið 2012. Það varð til á nokkrum vikum þar sem ég bograði yfir striganum á miðju stofugólfi og á sama tíma púslaðist stofan saman, bæði undir áhrifum hvort frá öðru,“ segir Kolbeinn Arinbjörnsson leikari þegar hann er spurður út í málverk sem hangir uppi á stofuvegg heima hjá þeim og bætir brosandi við að unnastan kunni greinilega að meta það því hún hafi sett það á besta stað í íbúðinni.

Umrætt verk er í abstrakt stíl en Kolbeinn segist hafa orðið alveg heillaður af abstrakt forminu þegar hann lærði myndlist við Verkmenntaskólann á Akureyri á sínum tima. „Það þróaðist síðan út í hálfgert blæti fyrir litum og jafnvægi, formum og áferð og hvernig hægt er að kalla fram tilfinningar í gegnum þessi form og öfugt. Það er, hvernig tilfinningar geta framkallað form, liti og áferð,“ lýsir hann og getur þess að Guðmundur Ármann Sigurjónsson, þáverandi kennari hans við skólann, sé ein af hans helstu fyrirmyndum í listinni og ekki síður í lífinu því hann sé bæði stórkostlegur listamaður og manneskja.

„Það má eiginlega segja að ég fari í hálfgerðan trans á meðan ég mála en fyrir mann eins og mig sem er með töluverðan athyglisbrest eða víðhygli, eins og sumir kalla það, þá líður mér sjaldan betur en einmitt í því ástandi.“

Af hverju abstrakt? „Ja, abstrakt expressionismi hentar mér bara afskaplega vel. Það má eiginlega segja að ég fari í hálfgerðan trans á meðan ég mála en fyrir mann eins og mig sem er með töluverðan athyglisbrest eða víðhygli, eins og sumir kalla það, þá líður mér sjaldan betur en einmitt í því ástandi.“

AUGLÝSING


Kolbeinn hefur teiknað og búið til sögur alveg frá því að hann man eftir sér en er leikari að mennt og hefur starfað sem slíkur frá útskrift árið 2012. Samhliða því hefur hann unnið við sjómennsku, hvalskurð, á geðdeild og ýmislegt fleira og segir þessi ólíku störf oft hafa veitt sér óvæntan innblástur. „Innblástur í málverkin mín sæki ég víða en þau eru nú samt sjaldnast úthugsuð áður en ég byrja. Til að mynda hangir verk hérna á ganginum sem ég málaði í pásum í kassakompu á Hvalstöðinni og nýtti bara það sem var hendi næst; hvalsblóð og blek úr stimplunum sem voru notaðir til að merkja kassana undir hvalkjötið.”

Á heimili fjölskyldunnar gefur einnig að líta verk eftir aðra listamenn. Þar á meðal olíuverk eftir Margeir Dire. „Katla Rut, sem er lærð leikkona, gaf mér það í afmælisgjöf þegar ég varð þrítugur og mér þykir mjög vænt um það. Hún er algjör listamaður þegar kemur að því að innrétta heimilið en þessi verk, það má segja að þau geymi okkar sögu saman og eigi þátt í því að gera íbúðina að okkar heimili,“ segir hann.

Mynd að ofan: Kolbeinn Arinbjörnsson og Katla Rut Pétursdóttir ásamt dótturinni Módísi. Myndin á veggnum er abstrakt verk eftir Kolbein.

Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Íris Dögg Einarsdóttir

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is