Þriðjudagur 23. apríl, 2024
11.1 C
Reykjavik

Natasha S. fann fyrir skömm að vera Rússi: „Ég grét eftir hvert einasta símtal“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mér finnst þetta vera yfirþyrmandi; að fá verðlaun á þessum tíma er líka yfirþyrmandi og að vera fyrsti rithöfundur af erlendum uppruna sem fær íslensk bókmenntaverðlaun,“ segir Natasha S. sem nýlega fékk bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir handritið Máltaka á stríðstímum. Þetta er ljóðabók og eru ljóðin um manneskju sem fylgist úr fjarlægð með stríðsrekstri Rússa í Úkraínu. Natasha er rússnesk.

„Það gleður mig í rauninni að það séu ennþá jákvæðar fréttir og að ég sé partur af því. Það var sjokk þegar ég frétti að ég fengi þessi verðlaun. Ég er glöð en samt er svolítið skrýtið að fá þau miðað við það sem er að gerast.“

 

 

 

 

- Auglýsing -

 

 

 

- Auglýsing -

 

 

RÚSSNESKA FYRIR FJÖLSKYLDUR

föðurland snýr frá

móðurmál þagnar

bræðrastríð hefst

systurborg springur

Ég fékk áfall þegar Rússar réðust inn í Úkraínu.

Nathasha byrjaði að skrifa ljóð um ástandið um tveimur vikum eftir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar.

„Ég fékk áfall þegar Rússar réðust inn í Úkraínu. Veruleikinn breyttist. Mér var síðan boðið að lesa upp ljóð í mars á viðburði á vegum Reykjavíkur bókmenntaborgar og PEN á Íslandi en á alþjóðadegi ljóðsins stóðu Bókmenntaborgin og Pen að ljóðaupplestri skálda sem lásu fyrir Úkraínu.“

Um var að ræða ljóð eftir úkraínsk skáld þýdd á íslensku og önnur að eigin vali. Skáldin gáfu laun sín til hjálparstarfs í Úkraínu í samstarfi við PEN. Boltinn var byrjaður að rúlla og var Natasha ráðlagt að skrifa ljóðabók.

„Ég notaði bókmenntir, orð og tungumál til að vinna mig úr áfalli og einn af þráðunum í bókinni er sjálfshjálp.“

Natasha er með háskólapróf í blaðamennsku frá Rússlandi og er með BA-próf í íslensku sem annað mál og sænsku sem aukagrein frá Háskóla Íslands.

Hún hefur þýtt íslenskar bækur á rússnesku auk þess að hafa ritstýrt safnriti, Pólifónía af erlendum uppruna, sem í eru ljóð skálda af erlendum uppruna.

„Ég er að vinna núna í annarri bók en ég og Ewa Marcinek ritstýrum henni og vinnum við þetta með Reykjavík bókmenntaborg en þetta verður ritgerðarsafn höfunda af erlendum uppruna á Íslandi.“

Ofbeldi og óréttlæti

Natasha fæddist og ólst upp í Moskvu. Í miðborginni. Hún hafði snemma mikinn áhuga á tungumálum og lærði svo blaðamennsku í fimm ár í háskóla þar í borg.

„BA-nám tekur fimm ár í Rússlandi.“

Hún útskrifaðist árið 2010.

Þá sér maður að hlutirnir geta verið öðruvísi og að samfélagið getur virkað á annan hátt.

„Ég bjó í samfélagi þar sem hlutirnir virka ekki og þar sem oft þarf að borga; kerfið virkar bara þannig. Það snýst ekki bara til dæmis um að komast í góða skóla eða góða háskóla heldur líka til að fá góða læknisþjónustu. Svo getur fólk verið handtekið fyrir hvað sem er. Það er mikið ofbeldi og óréttlæti. Þetta var eðlilegt í mínum huga en þegar maður flytur annað og fjarlægist þessar aðstæður þá sér maður að hlutirnir geta verið öðruvísi og að samfélagið getur virkað á annan hátt. Það er dálítið erfitt að lesa reglulega fréttir um ofbeldi og óréttlæti. Svo mega Rússar ekki fara til hvaða lands sem er. Við þurfum alltaf að fá vegabréfsáritarnir og við þurfum að sýna fram á að við séum með nægar tekjur og séum í vinnu og að við munum koma til baka.“

Natasha tók stundum þátt í mótmælum vegna falskra kosningaúrslita.

Síðustu mánuði hefur hún séð um félagsstarf fyrir hælisleitendur og flóttafólk hjá Rauða krossi Íslands.

Natasha hlustaði oft á lög með íslensku hljómsveitinni Sigur Rós og þannig kynntist hún í rauninni Íslandi og skráði hún sig í íslenskunám í tungumálaskóla í Moskvu samhliða háskólanáminu í blaðamennsku.

Hún kom fyrst til Íslands sumarið 2009 til að fara á íslenskunámskeið. Hún kláraði síðan háskólanámið í Rússlandi 2010 og vann eftir það hjá kanadíska sendiráðinu og flutti síðan til Íslands 2012.

Á árurnum 2014-2018 bjó hún í Svíþjóð þar sem hún vann við umönnun. Natasha flutti aftur til Íslands eftir Svíþjóðardvölina og hefur búið hér síðan. Hún hefur meðal annars unnið á frístundaheimili fyrir fötluð börn og í bókabúð. Síðustu mánuði hefur hún séð um félagsstarf fyrir hælisleitendur og flóttafólk hjá Rauða krossi Íslands.

Natasha S.

Óttinn erfiðastur

Svo skall stríðið á í febrúar. Rússar réðust inn í Úkraínu.

Hún fann fyrir skömm.

„Ég fann fyrir ofboðslega mikilli skömm. Ég man að þetta var mjög skrýtinn dagur. Ég hafði samband við vini mína í Rússlandi og allir skömmuðust sín ofboðslega mikið. Það er erfitt að útskýra þessa tilfinningu. Maður tilheyrir einhverri svona mikilli illsku sem maður getur ekki losnað við og þetta mun alltaf fylgja manni en með tímanum verður þessi tilfinning minni. Ég var í fyrstu svolítið máttlaus.“

Stríðið varð stór þáttur í lífi Natasha en fyrir utan að skrifa ljóð um stríðið fór hún að vinna sem sjálfboðaliði til að aðstoða úkraínskt flóttafólk á Íslandi og umgekkst mest rússneska og úkraínska vini sína á Íslandi.

„Það snerist allt um stríðið en það var gott að uppgötva hversu mikil hjálp er í því að hjálpa öðrum og vera saman. Okkur leið illa og við áttum það sameiginlegt og það var þess vegna gott að vera saman í þessu og hjálpa hvert öðru.“

Þau heyra aðra hlið á málinu í rússneskum fjölmiðlum.

Natasha talar um fjölskyldu sína í Rússlandi sem hún segir að hafi ekki sömu skoðun og hún á innrásinni.

„Það er þess vegna erfitt að eiga í samskiptum við þau; þau heyra aðra hlið á málinu í rússneskum fjölmiðlum. Við öskruðum mikið á hvert annað þegar við töluðum saman og ég grét næstum því eftir hvert einasta símtal. Svo tók ég þá ákvörðun að ég ætlaði ekki að leyfa stríðinu og Pútín að eyðileggja fjölskyldu mína; það er líka partur af baráttunni að leyfa ekki hatri og ótta að vinna. Það sem við getum gert er að vera góð, hlý og elska hvert annað,“ segir Natasha og ákvað fjölskyldan að hætta að tala um stríðið.

Natasha segir að óttinn sé erfiðastur. Hún fór til Rússlands fyrir nokkrum vikum og var þar þegar herkvaðning var tilkynnt.

„Þetta var ofboðslega erfiður dagur því ég upplifði eins og stríðið væri að byrja aftur. Ég vissi ekki hvort ég kæmist úr landi. Ég upplifði mikinn ótta þennan dag en sem betur fer er ég komin til baka. Tilfinningalegur ótti er erfiður; hann er lamandi og manni finnst maður ekki geta gert neitt.“

Natasha segir frá rússneskum vini sínum sem flúði til Kirgistan eftir herkvaðninguna.

„Hann skildi fjölskyldu sína eftir og fyrirtæki og hann er í Kirgistan þar sem er hvorki hiti né internet. Það er svo skrýtið að þetta sé veruleikinn.“

Samloka en ekki pólitík

Natasha sagðist finna fyrir skömm og hún afneitar þjóðerni sínu á vissan hátt.

Ég vildi bara fá samloku en ekki ræða um pólitík.

„Ég var í Svíþjóð fyrir nokkrum vikum og gisti hjá vinkonu minni sem fæddist í Eistlandi en ólst upp í Rússlandi. Við vorum að spjalla um þetta allt og hún sagðist vera farin að segja fólki að hún sé frá Eistlandi. Hún vill ekki fara að tala um stríðið í hvert einasta skipti sem hún kynnist fólki. Ég keypti samloku þegar ég var í Svíþjóð og var þá spurð hvaðan ég væri. Ég sagðist vera frá Íslandi. Ég gerði þetta ósjálfrátt; ég vildi bara fá samloku en ekki ræða um pólitík. Það er orðið neikvætt að segjast vera frá Rússlandi.“

Talið berast að nafninu hennar. Natasha S. Hún notar ekki eftirnafnið sitt sem rithöfundur.

„Mig langar ekki til að lenda í vandræðum af því að það á ekki að tala opinberlega í Rússlandi um það sem ljóðin eru um.“

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -