Mánudagur 28. nóvember, 2022
1.1 C
Reykjavik

Neyðarkall til yfirvalda frá aðstandendum: „krefjumst þess að leikskólanum Sælukoti verði lokað“ 

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Við, fyrrum starfsmenn leikskólans Sælukots, Þorragötu 1 í Reykjavík og aðstandendur barna sem dvalið hafa þar, krefjumst þess að leikskólanum Sælukoti verði lokað eða róttækar breytingar gerðar á starfsháttum hans.“
Eru þetta upphafsorðin í neyðarkalli til yfirvalda frá foreldrum barna og fyrrverandi starfsfólki leikskólans.
Hafa þau nú sent frá sér bréf sem stílað er á yfirvöld þar sem þau rökstyðja kröfu sína vel.
Í bréfinu eru fjölmargar frásagnir foreldra og starfsfólks sem eru þyngri en tárum taki. Ljóst er að bæði vanræksla á börnum og brot á kjarasamningum starfsfólks hafi verið látin viðgangast árum saman við leikskólann.
Bréfið má lesa í heild sinni hér að neðan. Vert er að taka fram að innihald bréfsins getur reynst átakanlegt að lesa.
Hafa bæði foreldrar og kennarar sýnt gríðarlega samstöðu í málinu.

Blaðamaður Mannlífs hefur átt í reglulegum samskiptum við fyrrverandi starfsmenn leikskólans og foreldra sem hafa nú fengið nóg af aðgerðarleysi. Vert er að taka fram að blaðamaður hefur ítrekað leitað svara hjá yfirvöldum og gert athugasemdir við hvers vegna ekki sé gripið inn í. 


Í bréfinu eru einnig umsagnir en þær má lesa hér að neðan, athugið að xxx hefur verið sett í stað nafna einstaklinganna.
Hér að neðan eru umsagnir og ástæður starfsloka nokkurra fyrrverandi starfsmanna:

„Ég hóf störf í Sælukoti 1. ágúst 2020. Ég mætti til leiks með opnum huga þó svo að ég fyndi strax fyrir einkennilegum stjórnunarháttum á leikskólanum. Ég skrifaði það einfaldlega á menningarmun. Málin þróuðust hins vegar þannig að ég var orðin mjög aðþrengd í mínu starfi og gat ekki komið til skila einföldustu skilaboðum án árekstra. Þó svo að ég ætti að heita leikskólastjóri voru orð mín oftar en ekki hundsuð og lítið gert úr þeim. Auk þess var ýmsum málum haldið leyndum fyrir mér eða ég ekki sett inn í þau. Mér varð fljótlega ljóst að tilgangur með starfi mínu var einungis sá að svara bréfum og tilmælum frá íslenskum stjórnvöldum án þess þó að það hefði mikil áhrif á starf leikskólans. Fjörtíu prósenta starfshlutfall mitt endurspeglar og styður þá skoðun mína. Á meðan ég starfaði í Sælukoti var faglegt starf í lágmarki. Málstefna, sérkennsla og námskrá voru í skötulíki enda hélst leikskólanum mjög illa á starfsfólki. Enginn leikskólakennari starfaði á leikskólanum á þeim tíma sem ég var þar. Að auki var mér tilkynnt að ef ég ætlaði að sækja fundi með leikskólastjórum eða þá sem stofnanir Ríkisins eða Reykjavíkurborgar boðuðu til, yrði ég að gera það í mínum frítíma. Ég sagði upp störfum 1. maí 2021 en var rekin 3. júní eftir að hafa sent rekstraraðila leikskólans bréf sem var undirritað af mér og fleira starfsfólki leikskólans þar sem við lögðum til úrbætur vegna lágmarks mönnunar og aðbúnaðar barna og starfsfólks við leikskólann. Ég mætti til vinnu þann 3. júní en komst ekki inn í tölvupóstinn minn lengur og gat því ekki látið foreldra barnanna vita að mér hefði verið sagt upp. Þau voru ekki látin vita af því og enginn leikskólastjóri starfaði á Sælukoti frá 3. júní til 1. ágúst. Eftir uppsögnina leitaði ég til Reykjavíkurborgar og fundaði með fulltrúum Skóla- og frístundasviðs þann 9. júní síðastliðinn. Þegar mér var tjáð að skýrsla fundarins yrði send í Sælukot þar sem hana átti að bera undir rekstraraðila leikskólans ákvað ég að skrifa ekki undir hana þar sem ég taldi og tel enn að það hafi því miður ekkert upp á sig. Í kjölfarið skrifaði ég Skóla- og frístundasviði fjölmarga tölvupósta þar sem ég benti á að enginn leikskólastjóri starfaði á Sælkukoti. Ég bað ítekað um að eitthvað yrði gert í málefni Sælukots en fékk lítil viðbrögð.“ – xxx

„Ég starfaði á Sælukoti frá byrjun ágúst- lok nóvember 2016. Ég byrjaði full eftirvæntingar, nýbúin að ljúka B.ed. gráðu í leikskólakennarafræðum og heillaðist að hugmyndafræðinni sem leikskólinn kennir sig við. Það leið þó ekki langur tími þar til það kom í ljós að starfsfólkið, sem allt byrjaði á sama tíma og ég fyrir utan þrjá, var allt mjög óupplýst um stefnuna og hvernig eigi að vinna eftir henni (sex starfsmenn höfðu sagt upp störfum vorið áður). Þegar starfsfólk leitaði ráða til yfirmanns og vildu leiðsögn benti yfirmaður á handbók sem hægt væri að fá í láni og lesa í pásunni eða heima hjá sér. Sú handók tók ekki mið af Aðalnámskrá né var Aðalnámskránna að finna í leikskólanum.

Á því tímabili sem ég vann komu aðilar frá leikskólasviði Reykjavíkurborgar í eftirlit til að vinna að ytra mati leikskólans. Þar var aðalnámskráin nefnd og enginn af leiðbeinendunum nema ég kannaðist við hvað það var. Skráður leikskólastjóri á þessum tíma kom örsjaldan. Hún og forstöðukonan voru beðnar um að skila inn skýrslu í lok eftirlits-tímabilsins. Leikskólastjóri ræddi þá við mig í einrúmi og rétti mér USB lykil sem innihélt skýrsluna og bað mig um að lesa hana yfir þar sem ég kynni örugglega meira um svona „faglega hluti“ þar sem ég hafi farið í háskólanám. Þegar ég skilaði lyklinum aftur daginn eftir, eftir að hafa farið yfir og lagfært, rétti hún mér svo 5000 kr og blikkaði mig… Þetta þykir mér virkilega ófagleg vinnubrögð hjá leikskólastjóra og fann það á mér þarna að stjórnendur skólans höfðu eitthvað að fela og gátu ekki sinnt faglegu starfi leikskólans sjálfir!

- Auglýsing -

Á mínum tíma sem starfsmaður á þessum leikskóla var ég stanslaust kvíðin, leið eins og ég væri að gera eitthvað af mér við að vinna við aðstæður þar sem erfiðlega reyndist að komast til móts við börnin, starfsfólk alltaf úrvinda og í pásum lágu starfsmenn sofandi. Forstöðukonan beitti miklu andlegu ofbeldi í garð starfsmanna, ef fólk var veikt trúði hún því aldrei og sagði það vera fólkinu sjálfu að kenna, sem dæmi um það kenndi hún starfsmanni um að vera veik því hún hafði farið út að borða kvöldinu áður og hafi þá viljandi orðið veik. Hún var með miklar öfgaskoðanir og vildi stjórna starfsfólki sínu á alla vegu, bannaði samstarfskonu minni að  borða nestið sitt því það var kjúklingur í því, skammaðist í starfsfólki ef það var reykingafólk, hringdi ítrekað í starfsfólk sem var í fæðingarorlofi til að ýta eftir því að byrja aftur að vinna áður en orlofið var búið ofl. Stjórnun leikskólans var alls ekki í anda húmanisma heldur þvert á móti, námsgögn og leikföng voru af skornum skammti vægast sagt og vanlíðan barnanna mjög mikil og mikil ringulreið ríkti í skipulagi leikskólans.

Að lokum hafði ég ekki samvisku til að halda starfi mínu áfram í slíkum leikskóla og hugsa enn þann dag í dag 5 árum síðar með hnút í maganum til þeirra barna sem voru á leikskólanum og vildi óska að ég hefði getað gert betur fyrir þau á þessum tíma. Rekstraraðilar leikskólans eru með öllu óhæfir til að sinna þörfum og menntun barnanna sem þar eru og ég legg til að honum verði tafarlaust svipt rekstrarleyfi þar sem greinilegt er að ástandið hefur ekki lagast síðan þá heldur þvert á móti!“ – xxx

„Ég vann í Sælukoti frá mánaðarmótum nóvember/desember 2019 til 1. október 2021. Þá var ég rekin – og beðin um að mæta ekki framar – vegna gagnrýni minnar m.a. á það hve fáir starfsmenn voru, mannaskipti svo tíð að ég vissi ekki frá degi til dags hver yrði á vakt daginn eftir. Leikföng voru af mjög skornum skammti og öryggi barnanna í sífelldri hættu. Ég mætti t.d. eitt sinn að morgni dags (of snemma) og kom að systkinum, þriggja og tæplega árs gömlu, að leik með smæstu legokubbana. Yngra barnið var með kubba í munninum – en hvergi nokkur starfsmaður sjáanlegur. Þegar forstöðumanneskjan kom byrjaði hún á því að ávíta eldra barnið fyrir að taka kubbana og síðan starfsmann eldhússins fyrir að hafa ekki gætur á þeim. Annað hlið skólans var þannig að elstu börnin gátu auðveldlega opnað það og farið út á götu. Til að kóróna allt var ég ekki látin vita af kynferðisofbeldi samstarfsmanns míns, heldur las um það í blöðum.“ – xxx

- Auglýsing -

„Trabajé en Sælukot desde el mes de febrero de 2020 y decidí renunciar en junio de este año en curso. La razón principal de mi renuncia ha sido el trato hacia los empleados por parte del Director de la escuela al recibir alguna queja con respecto a la falta de personal en cada departamento y así poder garantizar la seguridad de los niños. Al anunciar mi renuncia me ofrecí a trabajar el tiempo estipulado por la ley; es decir, regresar a trabajar en agosto y la respuesta que recibí fue: „No, you don´t have to come in August, that’s better“.“

„Ég byrjaði að vinna í Sælukoti í febrúar 2020 en ákvað að segja upp í júní s.l.

Ástæða fyrir uppsögn minni er fyrst og fremst sú hvernig rekstraraðili kom fram við starfsfólk. Það vantaði starfsfólk á hverja einustu deild til að tryggja öryggi barnanna. Ég bauðst til að vinna uppsagnarfrestinn og mæta aftur eftir sumarfrí í ágúst en fékk svarið: „No, you don’t have to come in August, that’s better“.“ – Starfsmaður sem ekki vill láta nafns síns getið.

„Pracowałam w Sælukot od 1 grudnia 2020 do 7 października 2021. Głównym powodem było złe traktowanie mnie przez długi czas przez osoby zarządzające jak i pracowników. Akceptowano krzyczenie na mnie w miejscu pracy i przy słyszących wszystko dzieciach w przedszkolu. Wiecznym problemem było za mało pracowników. W klasie niekiedy 20 dzieci i tylko 2 pracowników. Dzieci śpią na dworze w wózkach i nie ma żadnego pracownika, który sprawdza, czy któreś się obudziło lub płacze. Zasłanianie wózków folia przeciwdeszczową w lato, słoneczne dni, kiedy dzieci śpią, nie mają czym oddychać. Wychodząc z pokoju przeznaczonego do spania usłyszałam krzyczące dziecko z wózka, dziewczynka cała spocona, zapłakana, z kupą w pieluszce i na spodniach. Wózek zakryty folia przeciwdeszczową w gorący letni dzień, nikt poza mna nie słyszał krzyczącego w niebogłosy dziecka.  Inna kwestia, nie mogłam wziąć dnia wolnego kiedy byłam chora lub moje dziecko. Kiedy dzwoniłam, że jestem chora Didi krzyczała na mnie przez telefon, że nie powinnam pracować w przedszkolu, jeśli choruje. (typowa wirusówka, wymioty). Pracowałam z anginą ropną i gorączką. Gdy musiałam odebrać swoje dziecko z przedszkola bo był chory, kazała mi z nim przyjechać i pracować. Nie mogłam wziąć dnia wolnego, kiedy u dziecka w przedszkolu był starfsdagur. Jestem samotną matką, nie mam tutaj rodziny, która mogłaby mi pomóc w opiece nad dzieckiem. Gdy syn miał gorączkę w domu, musiałam go zostawić z moim chłopakiem, który nie jest jego ojcem i przyjechać do pracy na godzinę o 8 rano, ponieważ Didi mi kazała. Kiedy mój syn wymiotował w przedszkolu kazała mi iść na godzinę do domu, dać mu syrop i wrócić do pracy. Na zebraniu z rodzicami, po tym jak wyszło na jaw do mediów, że oskarżają jednego z pracowników o molestowanie seksualne, powiedziała, że pracownicy wiedzieli o tym, co jest kłamstwem. W czerwcu powiedziała nam, że pracownik tym poszedł na wolne a ona o tym zapomniała. Jakbym o tej całej sprawie wiedziała, to bym w życiu nie zdecydowała się na umieszczenie w tym przedszkolu mojego syna. Uczęszczał on do tego przedszkola od sierpnia 2021 do października 2021. Przeniosłam go do innego przedszkola, ponieważ w Sælukot umieścili ośmioro dzieci pięcioletnich w grupie, gdzie nauczycielem był chłopiec 19 letni bez wykształcenia pedagogicznego. Przerwa  dla pracownika w ośmiogodzinnym dniu pracy trwa 24 minuty. W przedszkolu chodzące myszy, w łazience w szafce odchody mysie. Praca w tym przedszkolu narusza wszystkie prawa pracownika na Islandii. Pracowałam tam długo, nie zgłaszając uchybień, bojąc się o swoją przyszłość i mojego dziecka. Nie znając dostatecznie dobrze swoich praw na rynku pracy w Islandii.“ – xxx

„Ég vann í Sælukoti frá desember 2020 til 7. október s.l. Ég sagði upp vegna ógnarstjórnar og þess hve starfsmenn voru fáir og álagið gífurlegt. Ef ég varð veik mætti mér öskur og hótanir og mér sagt að ég væri ekki hæf til að vinna á leikskóla ef ég væri alltaf veik. Sonur minn byrjaði í Sælukoti í ágúst, en ég hefði aldrei beðið um pláss fyrir hann hefði ég vitað af því að samstarfsmaður minn væri ásakaður um kynferðisofbeldi.“ – xxx

„Ég vann á leikskólanum Sælukoti frá nóvember 2020 til júlí 2021. Í starfi mínu bar ég ábyrgð á daglegri umsjón hóps barna á aldrinum eins til tveggja ára. Sem er sérstaklega vert að nefna þar sem þessi hópur taldi sex börn þar sem öll nema eitt vou innan við tveggja ára þegar ég byrjaði með þau. Ég var ein með þau. Þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir þá fékk ég ekki þá aðstoð eða hjálp sem þurfti sem þýddi meðal annars að það var daglegt brauð að komast ekki á salerni tímunum saman og jafnvel ekki fyrr en í lok vinnudags þar sem annars hefði ég þurft að skilja börnin eftir eftirlitslaus á meðan. Það reyndist einnig reglulegur viðburður að vera skilin ein eftir úti með 15 eða fleiri börn í umsjá minni, þrátt fyrir athugasemdir mínar og annarra starfsmanna sem lentu í sömu stöðu. Þar að auki var leiksvæði barnanna hættulegt á margan hátt. Á meðan framkvæmdum á húsinu stóð hirtu hvorki verkamenn né stjórnendur leikskólans mikið um umhirðu efnis eða tóla og tækja sem notuð voru. Við starfsmennirnir vorum að tína upp nagla, skrúfur og verkfæri og það í kapp við börnin. Einnig var ég beðin af rekstrarstjóranum að hringja í foreldra varðandi allskonar málefni, meðal annars til þess að ‘skamma’ foreldra fyrir að sækja börnin sín of seint en mér þóttu þessar beiðnir virkilega óþægilegar, enn fremur þar sem börnin voru í flestum tilvikum frá öðrum deildum.

Vert er að nefna að rekstrarstjórinn taldi ekki mikilvægt að fylgja eftir máli þar sem að fullorðinn maður beraði sig við starfsmann fyrir utan aðalinngang leikskólans.

Þetta og fleira gekk áfram án úrbóta yfir þann tíma sem ég vann á leikskólanum þrátt fyrir margar og endurteknar athugasemdir úr hópi starfsmanna.

Öryggi barnanna á leikskólanum var og er að mínu mati ógnað og þar urðu óþarfa slys sem má rekja til ofangreindra aðstæðna. Þrátt fyrir ítrekuð samtöl, fundi og ábendingar um vankanta og mögulegar úrbætur þá voru engar aðgerðir gerðar af höndum stjórnenda. Alvarlegast þykir mér þó, hvar er eftirlitið? Hvernig stendur á því að svona sé leyft að viðgangast á Íslandi? Á endanum gat ég ekki séð mér fært að starfa áfram á stað þar sem hagur barnanna, og starfsmanna var ekki í fyrirrúmi og því sagði ég upp störfum. Öryggi og ánægja barnanna eru mér afar kær og því skrifa ég undir þetta bréf og lýsi yfir alvarlegum áhyggjum af þeim aðstæðum sem þau eru í á leikskólanum Sælukoti.“ – xxx

 

„I’m surprised that there are still any issues in this kindergarten. It’s been 5 years. I started working during the ongoing war between the workers and Didi. I remember that I did not know what was happening. Didi was difficult sometimes but generally I tried to adapt. Probably the biggest problem was lack of trust in employees. Whenever I called I was sick, I always had the impression that she did not believe me. I was under constant pressure to be healthy. In the long run I got pneumonia and I had to stop breastfeeding because I had to take antibiotics. Once when I said I had a sick child, she called the kindergarten where my child attended to check it out. As a foreigner, I thought such things were nothing unusual… but after 5 years in the Icelandic job market, I know trust is important. For me, it is all the past now but if you want to tell about it anonymously, I don’t mind.“ – Fyrrverandi starfsmaður sem ekki vill láta nafns síns getið, vann á Sælukoti 2015–2016

 

„Ég vann á leikskólanum frá janúar 2021 – júlí 2021 á deildinni Space/Geimur. Reynslan mín á leikskólanum var undarleg og óvenju krefjandi. Þar sem ég er ekki einu sinni orðin tvítug þá er reynsla mín af uppeldi barna ekki mikil. Ég var mjög spennt að fá að læra starfið og vinna í skapandi umhverfi. Þegar ég byrjaði fékk ég litla sem enga þjálfun. Vinnufélaginn minn þurfti að kenna mér allt og við vorum einungis tvær á deildinni. Eftir að hafa unnið þar í mánuð var ég sett í það verkefni að taka foreldraviðtöl við helming foreldra barnanna á deildinni. Ég var engan vegin undirbúin í það og hafði ekki einu sinni hitta foreldrana vegna covids. Þar sem ég var að vinna á leikskóla í fyrsta skipti tók ég þetta að mér, vissi ekki betur. Mér þótti það samt mjög óvenjulegt þar sem ég gat ekki gefið foreldrunum þær upplýsingar sem þau áttu skilið.

Á meðan bleyjuskiptum stóð var einn starfsmaður skilin eftir með 10 börnum þar sem við vorum mjög undirmönnuð. Gerði það okkur mjög erfitt með að fylgjast með öllum börnunum á almennilegan hátt og skapaði mikla slysahættu.

Eftir að hafa unnið á leikskólanum í 3-4 mánuði var samstarfsfélagi minn færður á aðra deild. Þá var öll ábyrgðin sett á mig þó að ég sé ekki hæf í það. Tvær nýjar stelpur voru ráðnar og voru báðar settar á deildina hjá mér. Stelpurnar unnu mjög vel og var ég alltaf mjög ánægð með þær. En það var mjög krefjandi að þjálfa tvær nýjar stúlkur og einnig bera ábyrgð á öryggi barnanna. Var ég alltaf mjög kvíðin þar sem ég er of ung og óhæf til að bera þessa ábyrgð. Mér fannst þó jákvætt að heyra að það yrðu þrír starfsmenn á deildinni í staðinn fyrir tvo. Þá yrðum við ekki jafn undirmönnuð. En svo fékk ég að heyra að í staðinn yrði tveimur börnum bætt við af yngri deildinni og að tveir krakkar kæmu af eldri deildinni. Þannig vorum við aftur orðin undirmönnuð. Einnig var rýmið of lítið fyrir svona marga krakka. Börnin fundu strax fyrir því hvað þrengslin voru mikil og áreitið jókst rosalega. Gerði það okkur enn erfiðara með að fylgjast með krökkunum og meiðsli innan deildar urðu meiri en áður. Ég var daglega að upplýsa foreldra um meiðsl og áverka hjá börnunum.

Mér fannst mjög erfitt að skipuleggja daginn og koma hlutum í verk þar sem ég kunni það ekki. Ef ég bað um hjálp frá ónefndum yfirmönnum var mér sagt að finna út úr þessu sjálf. Skipulagið var ómögulegt þar sem börnin voru of mörg og starfsmennirnir of fáir. Þetta leiddi til þess að ég þurfti oft að vera ein með stóran hóp sem mjög erfitt var að hafa gott eftirlit með.

Ég sá mér ekki fært um að vinna þarna lengur þar sem ég var alveg uppgefin og mjög kvíðin mest allan tímann.

Svo barst mér fréttin um kynferðislega ofbeldið. Ég hafði engan grun um málið þar sem upplýsingum var haldið leyndum. Maðurinn var oft settur inn á deildina hjá mér og þar sem ég vissi ekki af málinu þá skyldi ég hann stundum eftir þegar ég þurfti að tala við foreldra, hlaupa í önnur verkefni eða einfaldlega kíkja á klósettið. Inni á deildinni hjá mér var lítið herbergi þar sem við höfðum morgunstundina okkar. Í þessu herbergi sváfu einnig nokkrir krakkar í hvíldarstund sinni. Þá var ofbeldismaðurinn settur í að svæfa börnin. Hann var þar einn með börnunum í margar mínútur. Þetta átti sér stað þegar búið var að lofa að hafa hann ekki einan með börnunum.“ – Fyrrverandi leiðbeinandi sem ekki vill láta nafns síns getið.

 

„Ég var leiðbeinandi á Sælukoti frá janúar 2015 til júní 2016. Ég tók eftir mikilli starfsmannaveltu og skort á starfsþjálfun. Leikskólinn var að stækka við sig og fleiri börn mættu, oft án vitundar leiðbeinanda enda upplýsingaflæði ábótavant.

Ekki einn einasti starfsmaður var með menntun leikskólakennara og ekki var farið eftir aðalnámskrá.

Við kvörtuðum ítrekað til yfirmanns og báðum um starfsmannafund í þrjá mánuði vegna fjölda vandamála. Yfirmanni fannst ekki þörf á fundi heldur ræddu hún við okkur eitt og eitt. Reykjavíkurborg upplýsti okkur um leikskólastjórann okkar sem við höfðum aldrei hitt eða heyrt af, enda bara leikskólastjóri á pappír.

Vinnuframlag mitt síðasta mánaðar uppsagnarfrests var afþakkað af stjórn Sælutraðar sama dag og við greindum foreldrum frá ástandinu í mikilli manneklu.“ – xxx

„Ég hóf störf í Sælukoti í mars 2020. Ég upplifði strax mikinn kvíða í þessu starfsumhverfi. Fékk litla sem enga þjálfun, fékk ekki að vita hvenær ég mætti fara í pásu og margt fleira var ég ekki upplýst um sem ég átti þó að vita. Hins vegar var mikið sett út á mig og ég hreinlega skömmuð ef ég gerði eitthvað sem að Didi þótti rangt. Það án þess að ég fengi nokkra tilsögn, kennslu eða þjálfun. Það var oft hringt í mig á kvöldin og ég skömmuð ef ég hafði gert eitthvað vitlaust í vinnunni. Og ef ég svaraði ekki símanum var hringt mörgum sinnum til viðbótar og jafnvel um helgar líka.

Í eitt skipti hringdi Didi 7 sinnum í röð í mig eftir vinnu og ég svaraði ekki. Svo hringdi annar starfsmaður í mig (sem hafði aldrei hringt í mig áður) og vildi allt í einu bara spjalla við mig um lífið og tilveruna. Ég spurði hvort að Didi hefði beðið hann um að hringja, hún svaraði því neitandi. Hins vegar hringdi Didi aftur um leið og ég lagði tólið á og spurði mig af hverju ég hefði ekki svarað sér. “Þú svaraðir hinum starfsmanninum. ‘’ Greinilega fékk hún aðra starfsmenn til að taka þátt í þessari óviðeigandi framkomu – að þröngva sér upp á starfsmenn og vanvirða frítíma þeirra.

Annað atvik. Ég fékk hálsbólgu og var veik í þriðju vikunni minni og hringdi í Didi.  Þetta var á þeim tíma þegar Covid faraldurinn var að skella á af fullum þunga í samfélaginu, og mikið talað um að maður ætti ekki að fara út úr húsi með einkenni. Ég hring því í Didi til að segja henni frá og til að athuga hvað gera skyldi. Didi svaraði mér í reiðum tóni „Þú ert nýbyrjuð og það er ekki í boði að taka veikindadag, þú ættir nú að hugsa betur um heilsuna heldur en þetta.“ Sagði að ég væri að skemma fyrir börnunum og hinu starfsfólkinu með því að vera veik.

Fyrsta daginn var mér sagt að lesa fyrir börnin, (þau voru 2-3 ára) ég tók bók úr hillunni og byrjaði að lesa. Didi  stóð yfir mér og horfði gagnrýnisaugum á mig „Nei ekki lesa þetta svona, þetta er allt of þurrt og leiðinlegt hjá þér.“ Ég fattaði að bókin sem ég tók var ekki fyrir þennan aldurshóp svo ég greip í aðra bók og las og reyndi að gera þetta meira lifandi „Nei þú þarft ekki að lesa beint úr bókinni. Gerðu þetta meira lifandi, vertu skapandi“ Þetta var minn fyrsti dagur í vinnunni. Ég upplifði niðurlægingu og mikla vanvirðingu.

Á Covid tímanum funduðum við þar sem Didi gerði lítið annað en að skamma hópinn og segja okkur hvað við værum að standa okkur illa í vinnunni. Dagarnir mínir í Sælukoti einkenndist af kvíða og hræðslu. Þrátt fyrir að mér líkaði vel við margt af starfsfólkinu og fannst maturinn góður var viðmót hennar hræðilegt við starfsmenn og ekki hægt að tengja þetta við neinn húmanisma hvernig hún kom fram við okkur.

Dót á deildunum var illa þrifið, starfsmenn fengu ekki pásurnar sem þeir áttu að fá, mikil starfsmannavelta, mikil vanvirðing við starfsmenn og ógnarstjórnun. Þarf að segja meira? Þegar sumarfríið hófst í júlí flaug ég burt. “ – xxx

 

„Ég hóf störf sem leiðbeinandi á Sælukoti sumarið 2015, einnig fékk dóttir mín þá rúmlega 1,5 árs pláss á yngstu deildinni.

Fyrsta daginn minn fékk ég engin fyrirmæli eða leiðbeiningar um hvernig leikskólastarfið færi fram. Ég var tvítug og algjörlega reynslulaus þegar kom að leikskólastarfi. Ég fékk minn hóp af sex börnum 2-3 ára, þar af var barn með fötlun / sérþarfir, ég fékk engar upplýsingar frá stjórnanda leikskólans. Ég var seinna látin taka foreldraviðtöl, sem leiðbeinandi.

Fljótt varð ég vör um að ekki var allt með felldu. Enginn starfsmaður leikskólans hafði leikskólakennaramenntun, það voru engir deildarstjórar, engin úrræði fyrir börn með þroskaskerðingar, engin deildarstjóri, þroskaþjálfi eða leikskólastjóri.

Einnig var öryggi ábótavant, vegghillur illa festar upp svo þær hrundu niður, háir og þungir skápar voru ekki veggfestir og mörg húsgögn illa farin og hreinlega hættuleg. Engin áætlun um viðbrögð við slysum né áföllum.

Við leituðum til Reykjavíkurborgar eftir ótal kvartanir til Didi (Stjórnanda Sælukots) án nokkurs árangurs. Síðan segi ég upp störfum í júní 2016.“ – xxx

„Ég var tvítug og glænýr starfsmaður og hafði aldrei starfað með börnum áður. Það var mikið álag á 1 árs deildinni, við vorum bara tvær eða þrjár og börnin voru öll grátandi, og það voru mikil læti. Við áttum að skipta á bleyjum á börnunum. Hin stelpan, segir við mig: “Skiptu á þessum!” á meðan hún heldur á grátandi barni og er að flýta sér að sinna hinum börnunum. Ég, glænýr starfsmaður sem er að gera mitt besta í þessum aðstæðum, hafði aldrei skipt á kúkableyju áður, og segi við hana að ég kunni það ekki. Hún gaf mér þá mjög leiðinlegt augnaráð og varð bara pirruð í staðin fyrir að finna lausn. Miðað við að ég var glæný, tvítug og hafði aldrei fengið neina kennslu, enginn hafði kennt mér skref fyrir skref hvernig á að skipta á kúkableyju, þá var þetta mjög leiðinlegt. Við vorum a sama aldri og báðar náttúrulega undir miklu álagi og í raun undirmannaðar, en mér finnst lágmark að starfsmenn fái einhverskonar kennslu, áður en þeim er hent út í djúpu laugina.“

– Starfsmaður sem ekki vill láta nafns síns getið. Vann á Sælukoti í ca tvo mánuði haustið 2016.

„Ég starfaði sem leiðbeinandi í Sælukoti frá nóvember 2020 til júlí 2021.

Ég hafði aldrei unnið á leikskóla áður og vissi því ekki við hverju ég átti að búast en fannst stefnan hljóma vel og var mjög bjartsýn á framhaldið.

Mér var strax á degi eitt hent í djúpu laugina án mikilla fyrirmæla um það hverju var ætlast af mér. Ég var sett á deild með 18-24 mánaða börnum en við vorum þá tveir starfsmenn með 11 börn öll undir tveggja ára aldri, ég sem hafði enga reynslu af leikskólastarfi gerði mér ekki grein fyrir því að það væri engan veginn í lagi og gerði mitt besta til þess að sinna starfinu mínu vel. Þar sem við vorum tvö með allt of mörg börn þá voru bleyjuskipti og klósettferðir starfsmanna erfið þar sem annar starfsmaðurinn neyddist til þess að vera einn í herberginu með 10 börn á meðan og slysatíðnin því há og mér fannst eins og við höfðum ekki undan því að tilkynna foreldrum í lok dags.

Áramótin 2020-2021 hætti samstarfsmaður minn og fenginn var inn nýr starfsmaður sem ég fékk það verkefni að þjálfa eftir að hafa starfað á leikskólanum í tvo mánuði. Þá vorum við tveir nýir starfsmenn, annar ennþá í þjálfun með 11 börn í okkar umsjá.

Við vorum báðar óreyndar og vissum ekki hvernig við ættum að skipuleggja daginn með börnunum og fengum lítinn sem engan tíma í undirbúning vegna manneklu og afleysinga í öðrum verkefnum.

Þegar við tjáðum okkur við yfirmenn þá fengum við þau svör að við ættum að geta fundið út úr þessu sjálfar.

Ég var svo beðin um að leysa af samstarfsfélaga minn á elstu deild leikskólans síðasta mánuðinn fyrir sumarfrí (júní 2020), þegar ég sagði að ég væri ekki nógu örugg með það verkefni þá upplifði ég að þeim áhyggjum væri vísað frá og var fullvissuð um að ég gæti þetta nú alveg. Samstarfsmaður minn gaf mér allar þær upplýsingar sem hún gat á mjög stuttum tíma áður en hún fór í frí og svo þurfti ég að redda mér ein með 8 börn á aldrinum 4-6 ára með lítilli leiðsögn frá yfirmönnum. Ég sagði upp eftir þetta vegna mikillar streitu og álags og mætti ekki aftur eftir sumarfríið í ágúst.

Ég sá svo í fréttum að tilkynnt hafði verið um kynferðisofbeldi af hálfu starfsmanns sem hafði átt sér stað á meðan ég starfaði á leikskólanum. Ég hafði engann grun um málið og finnst mér ofboðslega sárt að frétta að þetta sé eitthvað sem hafi fengið að viðgangast í svona langann tíma og engum starfsmönnum gert grein fyrir málinu sem lætur mig bara hugsa hvað fleira sé í gangi þarna sem við vitum ekki af.“ – Fyrrverandi leiðbeinandi sem ekki vill láta nafns síns getið.

„Ég byrjaði að vinna á Sælukoti í byrjun júní 2021. Þegar ég kom virtist þetta vera mjög fínn leikskóli og maturinn var mjög góður en það var oft mikill skortur á honum og tímaskortur að borða. Inni er ekki mikið pláss fyrir börnin og það er frekar troðið. Ég fékk strax hóp af fimm krökkum og engar leiðbeiningar um hvað ég ætti að gera og hvenær. Ég hafði unnið á leikskóla áður en ekki allir starfa nákvæmlega eins. Á öðrum deginum mínum tók Didi mig til hliðar og sagði að vinnufélagar mínir höfðu sagt að ég gerði ekkert. Þessu var ég ósammála og sagðist vera að gera fullt. Einnig var ég skömmuð fyrir að spyrja hvað ég ætti að gera. Ég ákvað að reyna meira á mig þó ég vissi að ég væri að gera mjög mikið á meðan sumir hinna kennarana gerðu ekkert. Í hópnum mínum var mjög erfiður strákur sem ég réði ekki við. Ég sagði Didi það að ég væri mjög fíngerð, að strákurinn væri mjög stór fyrir sinn aldur, og ég bað um að einhver annar myndi skipta á þessum eina strák. Það var hunsað. En þegar ég fór heim með klórför eftir hann og ítrekaði það sem ég hafði sagt áður sagði hún að ég ætti að hætta við leikskólakennara námið mitt því ég gæti ekki ráðið við einn strák, og að ég væri ekki eðlileg fyrir að segja þetta. Við vorum venjulega 3 með 15 eins til tveggja ára krakka. Þetta var á fimmta deginum mínum og þá hætti ég.“ – xxx

 

Ummæli foreldra:

„Drengurinn okkar byrjaði á Sælukoti haustið 2018. Margt af starfsfólkinu var framúrskarandi og vann gott starf en við skiptum um leikskóla haustið 2021 eftir ásakanir barns á hendur starfsmanns vegna ofbeldis. Einnig þótti okkur óviðunandi hvernig málin voru afgreidd og hvernig upplýsingum var haldið leyndum.

Virðingarfyllst,“ – xxx og xxx

 

„Dóttir mín var í 16 mánuði á Sælukoti. Fyrsta 8 mánuðirnir gengu vel, hún var yfir höfuð ánægð, við vorum ekki alveg eins ánægð enda kom hún oft heim brennd á rassinum, með bit eða kúlur og mar en enginn vissi hvað hafði gerst en við ákváðum að líta framhjá því þar sem henni leið vel. Það var þó seinustu mánuðina fyrir sumarfrí sem hún fór að haga sér undarlega og gera undarlega hluti (líkamlega hluti þar sem orðaforðinn var enn takmarkaður – aðrir í okkar nærumhverfi tóku eftir þessu og sumir höfðu meiri segja orð á því að fyrra bragði) sem við höfðum ekki haft fyrir henni. Á þeim tíma var hún á deild með þeim leiðbeinandi sem í dag er ásakaður um áreiti gagnvart öðru barni. Didi vildi ekki kannast við að þetta væri frá þeim þegar ég ræddi við hana og sagði að þetta hlyti að koma frá okkur og hvernig við værum að ala hana upp.

Eftir sumarfrí fór allt á hliðina og barnið mitt breyttist úr yndislegu ljúfu stelpunni minni í mjög dapra og leiða stelpu og hún var stöðugt í vörn. Hun var stöðugt reið, leið og átti almennt mjög erfitt. Ég óskaði ítrekað eftir fundi með leiðbeinanda og Didi en fékk ekki, en eftir mikið þras fékk ég hann en þá var leiðbeinandinn í fríi þann dag (eins og alla föstudaga – ég var ekki ein um að lenda í þessu) en í staðinn fékk ég hersveit annarra yfirmanna þar sem ég var tekin niður, þetta var allt mér að kenna og hvernig ég tók á hlutunum heima. Ég komst að því í gegnum aðra móður að það væri vandamál inni á deildinni og þar væri barn sem ætti erfitt (þyrfti því mikla athygli) en það var aldrei rætt við mig og þegar ég spurði beint út í það þá var mér sagt að það væri verið að vinna í þessu en ég fékk ekki að vita hvernig eða hvernig eg ætti að vinna með dóttir minni. Það var myndband sett á instagram síðu skólans þar sem sést greinilega hversu ömurlega dóttir minni (og fleiri börnum) leið þegar hitt barnið tók öll völd inni á deildinni en starfsmennirnir hlógu bara og léku með, þannig að það var greinilega ekki verið að tækla neitt á þeim tíma.

Ég sótti um flutning og fékk hann í desember 2020. Síðan þá hefur hún umbreyst og er aftur orðin káta og yndislega stelpan mín, hvað gerðist þarna inni það veit ég ekki en ég myndi aldrei senda barn þangað.“ – xxx

„Eldri dóttir mín byrjaði á Sælukoti í janúar 2019. Ég var fyrst mjög ánægð með leikskólann og fannst starfsfólkið frábært. Fljótlega fóru þó að renna á mig tvær grímur. Dóttir mín kom bleyju brunnin heim trekk í trekk og ég fór að halda henni heima þar til að hún kúkaði á morgnana því það var greinilega ekki skipt á henni á leikskólanum fyrr en eftir dúk og disk. Núna eftir á sé ég að það var væntanlega út af miklu álagi starfsfólks þar sem það var mjög mikil undirmönnun.

Þegar dóttir mín var tveggja ára var hún á deild þar sem aðeins ein sextán ára gömul stúlka vann og bar ábyrgð á deildinni.  Þegar ég mætti til að sækja dóttir mína, voru börnin stundum ein ef hún var að skipta á barni eða ef hún þurfti að skreppa fram.

Dóttir mín kom oft heim með áverka, kúlur á höfði eða bitför og þegar ég spurði út í það á leikskólanum mundi enginn eða sá enginn hvað hafði gerst. Einn daginn stóð dóttir mín ekki í lappirnar og gat ekki gengið nema meðfram húsgögnum ég fór með hana á Barnaspítalann og þar var ég spurð hvort hún hafði fengið höfuðhögg. Þá kom í ljós að hún hafði fengið höfuðhögg á leikskólanum en eins og áður hafði enginn látið okkur vita.

Þegar stelpan mín er ný orðin 3 ára eða í september 2020 greinir hún óljóst frá kynferðisofbeldi starfsmanns á leikskólanum. Þetta var tilkynnt til Barnaverndarnefndar Reykjavíkurborgar. Rekstraraðili leikskólans tekur það í sínar hendur að yfirheyra barnið mitt ásamt túlki og lætur mig ekki vita fyrr en eftir á og greinir mér frá því að niðurstaða hennar sé að dóttir mín hafi dreymt þetta allt saman. Við foreldrarnir förum á fund með henni þar sem við ákváðum að þessi starfsmaður ætti ekki að umgangast barnið okkar. Samt greinir dóttir mín mér frá því að rekstraraðili leikskólans hafi látið hana sættast við meintan geranda sinn og látið þau knúsast. Það fékk gríðarlega mikið á dóttur mína og var hún í miklu uppnámi eftir að hún sagði mér frá því. Seinna kemst ég að því að meintur gerandi er í afleysingum á deildinni hennar og með henni í útiveru.

Ári seinna kemur önnur frásögn um umræddan starfsmann frá dóttur minni og þá mun skýrari. Ég tilkynni málið til Barnaverndarnefndar og held henni heima í kjölfarið þangað til hann er loksins sendur í leyfi. Á meðan hann er í leyfi hringir rekstraraðili leikskólans reglulega í mig til að athuga hvenær hann megi mæta aftur í vinnu og segir mér frá því hvað hann sé þunglyndur yfir þessu. Hún sendir mér svo email á meðan hann er í leyfi til að biðja mig um að gefa samþykki fyrir því að hann fái að mæta á sumarhátið leikskólans þar sem við dóttir mín myndum verða.

Strax eftir sumarfríið er hann mættur til vinnu og ég fæ að heyra það frá nýjum leikskólastjóra að hann fái ekki að vera einn í kringum börnin. Samt er ég að heyra frá öðrum foreldrum að hann sé á sama tíma einn að taka á móti börnum á morgnana.

Ég ákveð að taka börnin mín alfarið úr leikskólanum og upplifði að dætur mínar væru engan veginn öruggar þarna lengur.

Í gegnum þetta ferli var tekið kolrangt á öllum málum. Meintur gerandi er ekki látinn fara fyrr en ég greini hinum foreldrunum frá því sem átti sér stað í ágúst mánuði síðastliðnum. Rekstraraðili sagðist einnig hafa talað við starfsfólkið sitt og enginn hafði tekið eftir neinu óvenjulegu í garð þessa starfsmanns, en núna löngu síðar er ég að heyra að starfsfólkið var ekki upplýst um þennan grun og frásagnir dóttur minnar. Það lítur því út fyrir að rekstraraðili leikskólans hafi hreinlega logið því að mér og Barnaverndarnefnd að rætt hafi verið við starfsfólkið.

Það síðasta sem fyllti algjörlega mælinn hjá mér var að rekstraraðilinn sýndi foreldrum barna á leikskólanum trúnaðarskjöl frá Barnaverndarnefnd sem innihéldu nákvæma lýsingu af annarri frásögn dóttur minnar sem er hennar einkamál. Þetta er algjört brot á persónuvernd og skýrt brot á rétti barnsins.“ – xxx

 

„Dóttir mín byrjaði á Sælukoti í mars 2020, þá 13 mánaða gömul. Við vorum því ein af þeim fyrstu til að byrja í nýstofnaðri ungbarnadeild við leikskólann.

Aðlögunin gekk hálf brösuglega. Leikskólakennarinn sem átti að stýra deildinni var fjarverandi vegna starfsnáms og þeir starfsmenn sem eftir voru virtust ansi óöruggir um hvernig aðlögunin ætti að fara fram. Sem betur fer kom eldri starfsmaður yfir af annarri deild og þá fór að ganga betur. Það sem vakti athygli mína var að inni í rýminu þar sem ungbarnadeildin var starfrækt voru leikföng og leiktæki sem hentuðu ekki svona ungum aldurshópi. Í ofanálag voru þau látin leika úti á leikvellinum sem ætlaður var fyrir eldri börn leikskólans. Vegna þessa komu oft upp óhöpp sem hefði vel mátt koma í veg fyrir ef viðeigandi leikvöllur væri til staðar. Eftir nánari eftirgrennslan komst í ljós að leikskólinn hafði ekki enn verið tekinn út af yfirvöldum fyrir rekstur ungbarnadeildar, en það kom þó ekki í veg fyrir að starfsemin hafi farið í gang -sem vekur upp þó nokkrar spurningar um eftirlit með starfsemi einkarekinna leikskóla.

Þess má þó geta að Sælukot hóf framkvæmdir einhverju eftir opnun ungbarna deildarinnar við að byggja nýjan lítinn ungbarnaleikvöll fyrir framan leikskólann sem hentar yngri aldurshóp. Um leið og búið var að leggja kork mottur á jörðina og á meðan leikvöllurinn var í uppbyggingu, voru yngri börnin flutt af stóra leikvellinum og látin taka útiveruna á þessum ungbarnaleikvelli þrátt fyrir að nánast engin leiktæki voru á staðnum. Þetta millibilsástand var því ansi sorglegt fyrir börnin.

Tíminn sem dóttir mín var á Sælukoti var mjög mikil rússíbanareið. Við áttum góð tímabil en líka krefjandi. Það tók hana langan tíma að aðlagast á leikskólanum og hún var lengi óörugg, en það gæti að sjálfsögðu verið persónubundið. Yfir allt fyrsta árið hennar á leikskólanum brenndist hún oft á bleyjusvæði og því fylgdi mikill sársauki. Á þessu tímabili var heldur ekki hirt mikið um að þrífa börnin í andliti þannig að oftar en ekki kom hún heim með matarslettur og storknað hor út um allt andlit. En nú eftir á, sér maður að ástæðan fyrir þessari slæmu umhirðu er líklega sú að mannekla er svo mikil að ekki gefst tími fyrir starfsfólk að hirða um hreinlæti barnanna né að skipta um bleyjur – sem er að mínu mati mjög alvarlegt ástand. Ég lagði inn kvörtun vegna þessa og rekstraraðili leikskólans var mér sammála um að þetta væri ekki boðlegt.

Á fyrsta árinu hennar fluttist hún þrisvar um deild, sem er ansi oft á stuttum tíma fyrir lítil börn sem þurfa stöðugleika. Á deild nr. tvö af þrjú var hún með kennara sem við tengdum aldrei við og ég varð vitni að því eitt sinn hversu hranalegur hann var við börnin. Annað skipti þegar ég sótti dóttur mína og var með hana í fanginu læsti hún fingrunum í axlirnar á mér við það eitt að hann gekk fram hjá okkur. Og þetta var einstaklingurinn sem var með barnið okkar í umsjón alla daga. Hún var daprari en við áttum að venjast á þessu tímabili sem hún var í umsjón þessa kennara, einnig fór hún að sofa illa og hún sýndi mikinn mótþróa við bleyjuskipti -sem hafði aldrei áður verið vandamál. Þessi kennari var síðar rekinn og höfum við ekki fengið útskýringar á af hverju.

Sem betur fer var dóttir mín að lokum flutt á deild hjá öðrum leikskólakennara, sem var yndisleg í alla staði og stóð sig svo vel gagnvart börnunum. Þessi leikskólakennari tók einmitt eftir mótþróa dóttur okkar við bleyjuskipti en eftir að hún var búin að vinna upp traust fór það að ganga betur. Eftir vægast sagt erfitt fyrsta ár var dóttir mín loksins komin í góðar hendur og ánægð að fara í leikskólann. Hún var ekki lengur að koma brennd heim á bleyjusvæði. Því miður gafst þessi frábæri leikskólakennari svo upp að lokum við að starfa hjá Sælukoti og sagði upp. Þess vegna fluttum við barnið okkar á annan leikskóla og gætum ekki verið ánægðari með þá ákvörðun.

Eftir að hafa fengið inn á öðrum leikskóla, komst þetta kynferðisbrotamál á yfirborðið er varðaði starfsmann Sælukots, einvörðungu vegna þess að foreldri þess barns vakti athygli á málinu við aðra foreldra. Annars hefði maður væntanlega aldrei vitað af þessu máli. Versta er að þessi starfsmaður sem um ræðir sá um dóttur okkar á fyrstu deildinni sem hún var á í nokkra mánuði.

Nauðsynlegt er fyrir foreldra barna á leikskóla þar sem svona mál koma upp að vera upplýst tafarlaust. Upp vakna svo miklar áhyggjur, sérstaklega varðandi fyrsta árið hennar á leikskólanum; þ.e. þegar hún var í umsjón þessa tiltekna starfsmanns sem sakaður er um kynferðisbrot gegn barni og síðan þessa starfsmanns sem við höfðum ekki góða upplifun af og varð síðar rekinn. Maður spyr sig hreinlega: Ef sá sem er grunaður um kynferðisbrot gegn barni er ekki rekinn, hvað gerði þá þessi starfsmaður sem var rekinn? Nauðsynlegt er að skoða starfsemi þessa leikskóla í þaula, halda foreldrum upplýstum um gang mála og þá loka leikskólanum ef svo ber undir.“ – Foreldri sem vill ekki láta nafns síns getið.

 

„Sonur okkar byrjaði á Sælukoti haustið 2019.

Ég mætti með honum í aðlögunina, ég fékk ekkert aðlögunarprógram til að fylgja eftir, enginn starfsmaður sem tók á móti okkur og reyndi að ná til hans eða kynnast honum. Fyrsta daginn sem hann átti að mæta einn leið mér hræðilega að skilja hann eftir því að aðlögunin hafði ekki gert neitt fyrir hann. Hann grét alla daga þegar ég skyldi hann eftir. Lítið sem ekkert samtal á milli foreldra og starfsmanna.

Eitt skipti þegar ég sótti hann á leikskólann var hann aleinn úti fyrir framan húsið, engir aðrir krakkar og enginn starfsmaður með honum. Hann var hágrátandi og var að reyna að ná athygli stærri krakka hinu megin við girðinguna inni á leiksvæðinu. Ef eitthvert foreldri hefði gleymt að loka hliðinu hefði hann getað verið horfinn eða farið út á götu. ENGINN TÓK EFTIR ÞVÍ AÐ HANN VAR HORFINN. Ég veit ekkert hvað hann var búinn að vera lengi einn úti en hann var allavega útgrátinn þegar ég mætti á svæðið.

Eftir þetta fengum við foreldrarnir fund með Didi þar sem hún baðst hálfvegis afsökunar og sagði að það yrði fylgst vel með því að hann hyrfi ekki  svo bað hún okkur um að ræða við drenginn að hann mætti ekki láta sig hverfa. Eins og þetta væri á ábyrgð tveggja ára barns.

Sonur minn þróaði með sér kúkavandamál á þessum leikskóla líka. Hann vildi aldrei kúka því að það væri “ojj” svo hann hélt í sér svo dögum skipti. Það var augljóst að einhver starfsmaður hefur greinilega “shame-að“ kúk það mikið að barnið ákvað að hætta að kúka. Hann var alltaf að drepast í maganum útaf þessu. Ég ræddi það mál við þau en þau vildu ekki kannast við neitt. Það lagaðist svo ekki fyrr en nokkrum mánuðum eftir að hann byrjaði á nýja leikskólanum. Eftir að hann skipti um leikskóla hefur hann bara verið allt annað barn. Miklu miklu hamingjusamari. Hann hætti í febrúar 2020.“ – xxx

 

„Við byrjuðum með barnið okkar 13 mánaða í aðlögun á Sælukoti í janúar 2020. Áður en við byrjuðum þótti okkur samskipti við stjórnanda leikskólans heldur snubbótt en skrifuðum það á menningarmun og tungumálaörðugleika. Við höfðum legið yfir heimasíðu skólans sem var afar óaðgengileg og komist að því að mikil áhersla væri lögð á virðingu gagnvart börnunum. Það, ásamt mataræði og staðsetningu leikskólans, var stór plús í okkar huga svo við vorum spennt að byrja með barnið okkar þarna. Þegar við komum inn á deildina mættu okkur 14 börn á aldrinum 12-18 mánaða og tveir starfsmenn, aðeins annar talaði íslensku og hvorugur var faglærður. Þrátt fyrir að starfsfólkið gerði augljóslega sitt besta sáum við að yfirlýsingar um húmanisma og virðingu voru aðeins á blaði og starfsmenn áttu fullt í fangi með að sinna grunnþörfum barnanna, hvað þá meira, það virtist lítil tenging vera við börnin. Við urðum endurtekið vitni að því að starfsmaður sem var að skipta á börnum var með 3-4 börn (1 árs) uppi á ca meters háu vinnuborði og skildi þau svo eftir þar á meðan hún fór fram. Einnig kom fyrir að börn meiddu sig eða álíka og sátu/lágu grátandi í einhverjar mínútur áður en starfsmaður gat sinnt þeim. Við urðum svo vitni að því að stjórnandinn hastaði á þessi litlu kríli fyrir að gráta og „bannaði“ þeim að gráta meira. Hún hastaði m.a. harkalega á son okkar fyrir að gráta í eitt af fyrstu skiptunum sem pabbi hans skildi hann eftir inni á deild (hún vissi ekki að pabbinn heyrði til). Of fáir starfsmenn, öryggismál, slæm framkoma og algjör skortur á fagmennsku urðu til þess að við ákváðum að taka barnið okkar af leikskólanum.“ – xxx og xxx

„Við byrjuðum með eldri stelpuna okkar a Sælukoti fyrir 3 arum. Hún var 18 mánaða og er nu 4.5 ars. Þegar stelpan byrjaði var leikskólinn æðislegur fannst mer. Ég hafði mikið traust til allra. Strákurinn okkar byrjaði þegar 12 mánaða prógrammið bættist við hjá þeim. Eftir að 12 mánaða prógrammið byrjaði virtist allt fara a hvolf, lítið starfsfólk, alltof mörg börn og almenn óanægja og óregla. Stelpan mín átti langt tímabil af að kúka á sig á leikskólanum 4 ára. Ég hugsaði oft hvort væri ástæða fyrir þessu, kannski liði henni ílla. Seinna frétti ég af afbrota málinu og sá aðili var með hóp dóttur minnar mikið á þessum tíma. Strákurinn minn neitaði að láta aðilan taka á móti sér á morgnana. Eg vissi aldrei hvers vegna. Einn daginn tók ég eftir miklu kyrkingar fari aftan á hálsi dóttur minnar. Það var undir hárinu hennar og virtist hafa verið orðið skorpið eins og eftir smá blóð. Mér brá mikið og skoðaði allan hringinn en línan lá frá hlið til hliðar aftan á hálsinum, dökk rauð. Ég tók myndir og málið var ekki tekið sem alvarlegum hlut af rekstarstjóra. Ég talaði við allt starfsfólkið en enginn þóttist vita hvað hefði gerst. Enda börnin mikið ein. Allt besta starfsfólkið virtist hverfa án slóðar og enginn látinn vita hver væri með börnunum hvenær. Ég var á miklu varðbergi eftir þetta og við skiptum um leikskóla í ágúst 2021.“ – xxx

„Barnið okkar var á Sælukoti frá 2020-2021. Deildin sem það var á var undirmönnuð og mannaskipti á henni voru mjög tíð sem hafði mikil áhrif á vellíðan barnsins. Það vildi ekki fara á leikskólann vegna þess að því leið ekki vel þar vegna mikils óstöðugleika. Foreldrar voru aldrei upplýstir um mannaskipti. Barnið brann oft, það var ekki lagað þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir. Barnið er með fæðuóþol, en fékk áfram matinn sem það var með óþol fyrir sem olli því að það var oft með niðurgang. Sumt af starfsfólkinu talaði ekki íslensku og talaði ensku við barnið, það hafði hugsanleg áhrif á málþroska barnsins sem virðist hafa tafist. Sá starfsmaður sem mat málþroska barnsins talaði ekki íslensku.“ – Foreldrar sem vilja ekki láta nafns síns getið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -