Miðvikudagur 27. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

Neytandi vikunnar-Bryndís gerir sjálf við raftækin sín: „Vil ekki meina að ég sé týpískur nirfill“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bryndís Jóhanna Jóhannesdóttir grunnskólakennari er neytandi vikunnar. Í sumar hlaut hún mikið lof á samfélagsmiðlum fyrir að gera við sín eigin raftæki. Þegar bæði sjónvarpið og fartölvan gáfu sig tók Bryndís sig til, bretti upp ermar og gerði við tækin sjálf í stað þess að kosta miklu í viðgerðir.

Sjónvarpið gaf sig fyrst. „Í sumar bilaði 10 ára gamla sjónvarpið á heimilinu. Ekkert hljóð og engin mynd. Maðurinn minn var þá lengi búinn að hafa augastað á nýju sjónvarpi, en það var þó sameiginleg ákvörðun okkar beggja (alveg satt) að bíða með kaupin þangað til við tækjum niður vegg í stofunni og þar með væri hægt að skipuleggja nýtt sjónvarpsrými. Þetta var á 2ja ára plani. Það var því frekar glatað að koma heim einn daginn að sjónvarpinu biluðu,“ segir Bryndís og bætir við:

„Ég vildi þá kanna möguleika á viðgerð, en minn heittelskaði ætlaði með tækið beint á Sorpu. Kostnaður við viðgerð myndi ekki borga sig að hans mati, þetta sjónvarp væri komið á tíma og það væri einfaldlega ekki hægt að laga það. En það hefði hann auðvitað ekki átt að segja, því þetta “ekki hægt” viðkvæði er að mínu mati ekkert annað en spennandi áskorun. Ég fór því fram á það við hann að ég fengi tækifæri til að laga tækið. Ef ég gæti það ekki þá væri málið og sjónvarpið dautt, en ég myndi hins vegar taka 50 þúsund fyrir og þá aðeins ef viðgerðin heppnaðist.“

Hér borar Bryndís í fartölvuna.

Bryndís segir að sér hafi fundist þetta tilboð ansi sanngjarnt. Það væri örugglega undir viðgerðarkostnaði og alveg pottþétt mun ódýrara en nýtt sjónvarp. „Hann glotti nú bara, eins og oft áður, en tók tilboðinu. Það tók mig smá yfirlegu á netinu að greina vandann, að því er virtist, og svo bara rauk ég í gang. Það er skemmst frá því að segja að viðgerðin svínvirkaði og þó tímakaupið hafi kannski ekki verið hátt þá voru launin ansi sæt og það besta var að myndin á skjánum varð miklu skýrari.“

En hátt hreykir Adam sér í paradís, því í október síðastliðinn bilaði svo fartölva Bryndísar. „Sjálfsánægða ég ætlaði þá að leika sama leikinn og gúgglaði fram og til baka þar til ég þóttist viss um hvað væri að. En þá vildi ekki betur til en svo að ég gat ekki náð tölvuskrattanum í sundur. Þar sem ég þóttist nokkuð viss um hvað væri að, þá fannst mér meira en lítið niðurlægjandi að fara með tölvu í viðgerð hugsanlega til þess eins að fá aðstoð við að taka hana í sundur,“ segir Bryndís og heldur áfram:

„Eftir ótal tilraunir sem gengu út á að að fara varlega að þessum viðkvæma hlut sem tölva er, þá gaf ég skít í allt, náði í borvélina mína og boraði beint inn í miðju tölvunnar með það að markmiði að losa um þessa vesenis skrúfu. Ég krosslagði bara fingur að ég færi ekki alveg í gegn og að innihald hulsturins nálægt bornum væri ekki mikilvægt ef ske kynni að borvélin rynni til í höndunum á mér. Þetta heppnaðist prýðilega og eins og mig grunaði þá var eftirleikurinn auðveldur og blessuð tölvan fór í gang eftir smá hnoð.“

- Auglýsing -

Nafn: Bryndís Jóhanna Jóhannesdóttir

Starf: Grunnskólakennari

- Auglýsing -

Hvernig lýsir þú þér sem neytenda? Ég hef rekið heimili síðan ég var 17 ára og var því fljót að komast að því að gott væri að fara vel með hluti og peninga ef endar áttu að ná saman. Ikea og álíka verslanir voru ekki í boði lengi vel, en ég nýtti mér mikið t.d. auglýsingasíður DV til að koma mér upp húsgögnum og alls konar nytjahlutum. Ég var líka snemma farin að kaupa ódýra hluti, gera upp og selja aftur.

Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað, gjafir? Að ég fái það sem ég óska eftir og á sanngjörnu verði. Er þó alveg til í að borga hátt verð ef ég tel vöruna þess virði en reyni að kaupa ekki hluti sem ég held að ég geti annaðhvort búið til sjálf eða keypt notaða. Vil semsagt ekki meina að ég sé týpískur nirfill.

Hvað er besta ráðið sem þú hefur fengið varðandi neyslu/sparnað? Að nýta það sem ég á fyrir.

Endurnýtir þú? Sannarlega! Það verða fáar jólagjafir þetta árið í nýjum pappír t.d. – tek það þó fram að jólagjafirnar eru ónotaðar! Mér finnst samt allt í lagi að gefa notaðar gjafir ef þær eru vel með farnar t.d. leikföng. Ég versla reglulega í Barnaloppunni fyrir ömmustrákinn minn og ég elska þá búð. Ef ég hefði vald til þess þá myndi ég veita eigendunum Fálkaorðuna því þessi búð er hrein snilld og viðhorfið þeirra og þjónustulund starfsfólks til fyrirmyndar. Ég hvet alla til að kíkja þangað og skoða og þá sem hafa fordóma fyrir notuðum hlutum ekki síst. Þetta snýst hjá mér bara að hluta til um að borga minna. Það sem skiptir mig mestu máli er að taka ekki þátt í og hvetja til óhóflegrar framleiðslu á vörum sem eru nú þegar til út um allt! Ég vildi að þessi búð hefði verið til þegar mín börn voru lítil. Ég hef líka verslað og selt vörur í Extraloppunni sem er sama hugmyndafræði en fyrir fullorðna.

Kaupir þú notað? Eins oft og ég get. Fyrir nokkrum dögum keypti ég notaðar hillur í vinnuherbergið mitt sem kosta nýjar 60 þús og borgaði 15 þús fyrir.

 

Hér til gamans lætur Bryndís fylgja með „uppskrift“ af sjónvarpsviðgerðinni.

Móðurborð og Margarita

Þú þarft: Bilað sjónvarp, Margaritu pizzu úr búð (og jafnvel aðra í glasi), skrúfjárn og sjálfstraust.

Gangi þér vel!

  1. Hitið ofninn í 195°
  2. Fjarlægið plastumbúðirnar af pizzunni og stingið henni inn í ofninn. EKKI henda pappaspjaldinu!
  3. Skrúfið sjónvarpið í sundur á meðan pizzan hitnar í ofninum. Best er að gera það á borði með skjáinn niður. Lyftið því næst bakinu af sjónvarpinu og reynið að átta ykkur á því hvað af þessu drasli er móðurborðið (mjög líklega stærsta græna stykkið með öllum tengjunum). Gúgglið ef þið finnið ekki út úr því og munið, netið er vinur ykkar.
  4. Nú eru ca 20 mínútur liðnar og pizzan líklega tilbúin. Takið hana úr ofninum, fáið ykkur smávegis að borða og haldið svo áfram að vinna. EKKI slökkva á ofninum.
  5. Næst þarf að losa móðurborðið og fjarlægja. Farið varlega því það er fullt af litlum plasttengjum þarna og þau eru viðkvæm. Þið gúgglið þetta ef illa gengur að losa. Þegar móðurborðið er laust þarf að opna alla glugga og hurðar þannig að lofti vel um íbúðina. Þetta er mjög mikilvægt! Ef þið eruð ekki búin með pizzuna nú þegar þá mæli ég með að þið klárið hana á þessum tímapunkti. Þið skiljið ástæðuna síðar.
  6. Takið nú móðurborðið, leggið á pappaspjaldið sem fylgdi pizzunni og stingið inn í ofninn.
  7. Leyfið móðurborðinu að bakast í ca 15 mínútur. Markmiðið er að leyfa öllu lóðaða dótinu að bráðna vel saman og skerpa þannig á tengingunni. Fylgist samt með af og til því það eru plasthlutir þarna sem mega ekki bráðna. VARÚÐ: Það kemur ógeðsleg lykt og þetta er ekki heilsusamlegt til innöndundar. Ég tók mitt móðurborð út þegar ég sá að smá plast var byrjað að bráðna og platan örlítið að verpast. Ykkar þarf kannski styttri tíma, fer eftir ofnum.
  8. Leyfið móðurborðinu að kólna í a.m.k. klukkustund áður en því er komið aftur fyrir í sjónvarpinu. Rekjið ferlið til baka og setjið saman.
  9. Einstaklingsbundið: Stillið öllu upp á sinn stað og hóið í kallinn sem er annars staðar í húsinu að skoða Elko blaðið af því hann var korteri frá því að kaupa nýtt sjónvarp. Kveikið á tækinu, skálið í Margarita og montið ykkur alveg til jóla!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -