• Orðrómur

Neytandi vikunnar: „Ég kaupi ekki hluti á afborgunum heldur legg fyrir og staðgreiði“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Neytandi vikunnar er Álfheiður Eymarsdóttir oddviti Pírata í Suðurkjördæmi. Hún er búsett á Selfossi ásamt börnunum sínum tveimur sem eru 15 og 18 ára og kisu. Yfirleitt eru þau því þrjú á matmálstímum en það kemur fyrir að tengdasonur Álfheiðar bætist í hópinn. Álfheiður er stjórnmálafræðingur að mennt og hefur starfað nær eingöngu í tengslum við stjórnmál og störfum tengdum þeim frá árinu 2017. Fyrir þann tíma starfaði hún mestmegnis innan tölvugeirans, við stjórnunarstörf og verið sjálfstætt starfandi.

 

Hve miklu eyðir fjölskyldan í mat og aðrar rekstrarvörur heimilisins á mánuði og hvar verslar hún helst?

- Auglýsing -

„Ég myndi gróflega áætla að við eyðum að meðaltali um 120 þúsund krónum á mánuði í mat og rekstrarvörur. Þetta rokkar þó á milli mánaða, fer eftir því hvað mikið er að gera og hversu margir eru í húsi. Ef mjög mikið er að gera þá nýti ég þjónustu “Eldum rétt” og fæ sent heim nákvæmt magn í kvöldverði vikunnar. Þetta er aðeins dýrara en að versla en tímasparnaður og minni matarsóun vegur sterkt upp á móti. Við eyðum um 30 þúsund í nettengingar, farsíma og áskriftir að efnisveitum því tengdu. Hiti og rafmagn eru um 18 þúsund á mánuði. Ég er leigjandi þannig að ég greiði bara innbústryggingu til viðbótar leigu. Við verslum helst í Krónunni og Bónus, notum Nettó og Krambúðina fyrir smotterí sem þarf, sérstaklega á ókristilegum tímum“.

 

Hvað með sparnað í matarinnkaupum og hverju vilt þú breyta sem neytandi?

- Auglýsing -

„Ég reyni að velja ódýrasta kostinn fyrir alla matvöru ef ég tel gæðin ekki skipta öllu máli. En það eru ákveðnir hlutir sem ég spara ekki í, svo sem kaffibaunir og klósettpappír. Einnig vel ég vörur frá minni framleiðendum til að efla nýsköpun og fjölbreytta framleiðslu. Ég myndi vilja geta keypt matvöruna á netinu og fá heimsent. Þessu vandist ég í Bretlandi og það er afskaplega þægilegt. Það væri líka óskandi að okkur sem neytendum væri gert kleift að meta gildi lífrænna kosta sem boðið er upp á, án þess að leggjast í tímafreka rannsóknarvinnu. Sumir auglýsa ranglega að varan sé lífræn, vistvæn o.s.frv. og ég sem neytandi hef takmarkaðar forsendur til að meta mismunandi gæðavottanir og stimpla og læt því oft blekkjast. Þá vildi ég að verð á hollri matvöru, lífrænum kostum, grænmeti og ávöxtum væri lægra. Það er hálffúlt að það sé alltaf ódýrast að kaupa óhollari kostina“.

Leggur þú fyrir, og hvaða leiðir notar þú ef svo er?

 „Ég legg fyrir þegar ég get. Ég nota sparnaðarreikning og séreignarsparnað, nota helst ekki greiðslukort. Mér leiðist að vera eftir á í bókhaldinu. Ég vandist því í Bretlandi að eyða í rauntíma og áætla fram í tímann. Ég kaupi ekki hluti á afborgunum heldur legg fyrir og staðgreiði. Þetta er stresslausara heimilisbókhald fyrir mig. Ég var föst í vítahring greiðslukorta og yfirdráttarheimilda en sá tími er löngu liðinn og kemur vonandi aldrei aftur! “.

- Auglýsing -

 

 Telur þú álagningu verslana sanngjarna og gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu?

 „Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort álagningin sé sanngjörn svo ég er hikandi við að dæma. Ég sakna þess að hafa ekki yfirsýn yfir gjöld frá hinu opinbera á vörurnar. Á verðmiðanum sé ég vaskinn en ég sé ekki tolla og innflutningsgjald o.fl. sem ég veit að er oft til staðar. Ég geri verðsamanburð og versla kaffið þar sem það er ódýrast o.þ.h. Þetta er þó ekki kerfisbundinn samanburður og örar verðbreytingar gera mér oft erfitt fyrir“.

 

Verðtryggð lán, óverðtryggð lán eða engin lán?

 „Engin lán. Ég er leigjandi. Ég var húseigandi með verðtryggð 40 ára lán og sá þau hækka frá ári til árs. Ég sé ekki fram á að verða húseigandi aftur í bráð. Mér líður vel eigna- og skuldlaus. En ef ég fjárfesti aftur í fasteign þá myndi ég velja óverðtryggt lán. Verðtryggingin leggst ofan á höfuðstól láns. Vextir leggjast svo ofan á verðtrygginguna sem er komin á höfuðstólinn, þannig að verðtrygging eru vaxtavextir. Þetta er okurlánastarfsemi að mínu mati“.

 

Umhverfisvernd, skiptir hún þig máli?

„Umhverfisvernd skiptir mig miklu máli. Við reynum að minnka matarsóun og erum með afganga- bixí-mat á föstudögum. Við veljum umhverfisvæna kosti ef við erum örugg með að þeir séu í raun umhverfisvænni og ekki of dýrir fyrir budduna. Ég hætti alveg að kaupa ný föt fyrir tveimur árum og kaupi núna bara föt af fatamörkuðum. Ég kynntist þessu í Bretlandi og hef alltaf notað Rauða Krossinn og fleiri staði sem selja notuð föt en er farin að gefa meira í núna. Mér finnst meðvitundin mikilvægust þegar kemur að umhverfisvernd. Við erum t.d. löngu hætt að kaupa óþarfa dót. Einfaldari lífsstíll þar sem við kaupum aðeins það sem við þurfum og það sem veitir okkur ómælda gleði. Við mæðgur neitum einnig að taka þátt í snyrtivörusamsærinu gagnvart óöryggi kvenna. Við kaupum lítið af snyrtivörum. Erum nægjusamar. Svo finnst okkur mál að linni með pakkningafarganið. Stundum erum vörur í þreföldum umbúðum: Pappír, ál og plast. Umhverfisvænar pakkningar, framleiðsluaðferðir og flutninga mætti bæta. Mig langar oft að sniðganga fyrirtæki og vörur sem ég tel vera í ruglinu en stundum neyðist ég til að kaupa óumhverfisvænar vörur þar sem ekkert annað er í boði. Það væri óskandi að neytendur gætu sett meiri þrýsting á framleiðendur neysluvarnings að taka sig á í umhverfisvernd. En það er hægara sagt en gert þegar úrvalið er fábrotið og fákeppni á mörgum mörkuðum“.

 

Annað sem þú vilt taka fram ?

„Það er erfitt að vera fullupplýstur neytandi á Íslandi. Upplýsingar og gagnsæi er ekki nóg. Hvað þýða hinar og þessar vottanir ? Hvaða vottunaraðilum er hægt að treysta? Hvaða gjöld eru hirt af hinu opinbera af hvaða vörum (þetta mætti tiltaka á umbúðum eða á verðmiða úr verslunum). Samanburður á verði í rauntíma væri einnig mjög góður“.

 

Hvaða mál og málaflokka telur þú að þurfi að leggja meiri áherslu á ?

„Það þarf vel valdar grundvallarbreytingar til að kippa okkur inn í 21. öldina. Við erum enn föst í fyrirgreiðslusamfélagi 20. aldarinnar. Það er ekki vænlegt til árangurs inn í framtíðina. Við þurfum að fá nýja stjórnarskrá. Við þurfum að tryggja velsæld og heilbrigði allra, barna, ungmenna, námsmanna, barnafjölskyldna, öryrkja og eldra fólks. Það þarf kerfisbreytingar á Almannatryggingakerfinu, í sjávarútveginum, í heilbrigðisþjónustu í víðum skilningi (geðheilbrigði, fíknisjúklingar, heilsugæsla o.fl.), og í menntakerfinu. Við þurfum að tryggja öllum framfærslu og húsnæði. Og svarið við þessu öllu er baráttan gegn spillingu. Til að geta útrýmt fátækt og tryggt velsæld allra, þá þurfum við að sjá til þess að allir spili eftir sömu leikreglum. Það er nóg til. Úrelt fyrirgreiðslukerfi, sérstaklega þegar kemur að skattkerfi og auðlindanýtingu, aukin samþjöppun og fákeppni gera það að verkum að auðsöfnun fárra nýtist ekki þjóðinni. Þessu ætla Píratar að breyta“.

 

 

 

 

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -