Föstudagur 19. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Neytandi vikunnar – „Ég myndi vilja meira gagnsæi um verðþróun“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Neytandi vikunnar að þessu sinni er Björn Leví Gunnarsson frambjóðandi Pírata í Reykjavíkurkjördæmi suður. Björn Leví býr í Reykjavík ásamt eiginkonu og tveimur börnum sem verða bæði komin í grunnskóla í haust. Björn er upprunalega úr Þorlákshöfn en hefur búið á Grundarfirði, Sauðárkróki, Kópavogi, og í Providence í Bandaríkjunum. Hann er með mastersgráðu í tölvunarfræði með áherslu á gervigreind og menntatölvutækni. Björn hefur unnið ýmis störf um ævina, unnið sem unglingur í sveit, fiskvinnslu, byggingarvinnu, leiðbeinandi á leikskóla og grunnskóla, kerfisstjórn og umsjón tölvumála í opinberum stofnunum og sinnt gæðaeftirliti og tölvuþjónustu.

 

Hve miklu eyðir fjölskyldan í mat og aðrar rekstrarvörur heimilisins á mánuði og hvar verslar hún helst ?

„Versla aðallega í Krónunni og Bónus. Sökum þess að starfsumhverfið er mjög óskipulagt er þessi kostnaður mjög breytilegur og ég get ekki svarað því hversu miklu ég eyði í mat og rekstrarvörur alla jafna. Heimilisbókhaldið í netbankaforritinu sýnir mér enga gáfulega sundurliðun á þessum kostnaði“.

 Hverju vilt þú breyta sem neytandi ?

 

- Auglýsing -

„Ég myndi vilja meira gagnsæi um verðþróun. Ég myndi vilja að verðskrár verslana væru aðgengilegar á tölvulesanlegu formi. Þannig væri hægt að fylgjast með því að afslættir væru í alvörunni afslættir en ekki að vara hafi verið hækkuð í verði áður en hún var sett á afslátt“.

Leggur þú fyrir, og hvaða leiðir notar þú ef svo er  ?

„Já, ég legg reglulega til hliðar á lokaðan reikning. Ég passa að hafa svigrúm til þess að geta greitt stóra óvænta reikninga en set afganginn á lokaðan reikning“.

- Auglýsing -

Telur þú álagningu verslana sanngjarna og gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu ?

„Ég hef ekki tíma til þess að gera verðsamanburð. Álagningin er gríðarlega misjöfn og missanngjörn eftir því. Pakki af súkkulaðirúsínum getur kostað allt frá tæplega 500 kr. til tæplega 1.000 kr“.

Verðtryggð lán, óverðtryggð lán eða engin lán ?

 

„Ég er með verðtryggt lán hjá lífeyrissjóði. Þar er ekki í boði óverðtryggt lán. Valmöguleikarnir núna um óverðtryggt lán með breytilegum vöxtum og verðtryggt lán eru í raun engir valmöguleikar. Óverðtryggt lán með breytilegum vöxtum er ekkert annað en verðtryggt lán með geðþóttaákvörðun um breytingar á vöxtum. Verðtryggt lán er þó með rökstudda tilvísun í eitthvað staðlað. Vissulega er hægt að fastbinda vexti í einhvern tíma en það er alltaf veðmál hvenær rétti tíminn er til þess að fastbinda vexti “.

Það þarf að laga margt í þessu. Það er ekki boðlegt að það séu alltaf neytendur sem taki á sig sveiflurnar, að neytendur taki alla áhættuna. Það verður að koma í veg fyrir að hægt sé að nota mælitæki sem viðmið til hækkana, eins og vísitala neysluverðs er, því það eyðileggur mælitækið“.

Umhverfisvernd, skiptir hún þig máli ?

„Já. Ég hugsa umhverfisvernd mjög mikið út frá sjálfbærni. Það er augljóslega ekki gott að vera ósjálfbær á neinn hátt. Það gengur ekki til lengdar. Umhverfisvernd er í rauninni sjálfbærni í öllu sem viðkemur framtíðarmöguleikum. Ég sé ekki hvernig er hægt að vera á móti því“.

Annað sem þú vilt taka fram ?

„Það vantar gagnsæi á svo mörgum sviðum, og ekki síst í neytendamálum. Gagnsæi brýtur upp einokun og býr til sanngjarnt samkeppnisumhverfi sem kemur neytendum alltaf vel“.

Hvaða mál og málaflokkar telur þú að þurfi að leggja meiri áherslu á ?

„Augljósu málin sem þarf að leggja mikla áherslu á eru heilbrigðismálin (í stóru samhengi, heilsugæslu, sjúkrahúsa, öldrunar, örorku og geðheilbrigðis), atvinnumál, húsnæðismál og umhverfismál. Hagkerfi fyrir alla er hagkerfi þar sem fólk er með þak yfir höfuðið og á góðan afgang eftir nauðsynjar og býr við heilbrigði í sjálfbæru samfélagi. Mér finnst ekki nægilega vel hugsað um þennan grundvöll heilbrigðs samfélags. Það sem þarf svo að leggja meiri áherslu á í dag eru nýsköpunarmál. Í síbreytilegum heimi þurfum við að vera stöðugt á vaktinni svo við getum aðlagast breyttum aðstæðum. Það gerum við best með því að hafa mjög virkt nýsköpunarumhverfi til þess að takast á við áskoranir framtíðarinnar“.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -