Miðvikudagur 29. nóvember, 2023
4.1 C
Reykjavik

Neytandi vikunnar: Geirdís býr í hjólhýsi í Laugardalnum og dreymir um að rækta sitt eigið grænmeti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

 

Neytandi vikunnar heitir Geirdís Hanna Kristjánsdóttir og er 48 ára öryrki móðir dásamlegra drengja og eigandi Tinnu sem er tæplega fjagra ára blanda af Border Collie og Íslenskum fjárhundi.  Hún sinnir hinum ýmsu félagastörfum auk þess að vera í námi til viðurkennds bókara.  Hefur félagsstarfið sem hún sinnir haft gríðarlega jákvæð áhrif á líðan hennar þrátt fyrir bága fjárhagsstöðu.  Því félagsleg einangrun er fylgifiskur þess að búa við fátækt.

 

Hvernig ferðu að ná endum saman?

Það er frekar erfitt og yfirleitt í lok mánaðar eru allir reikningar tómir og búið að selja þær flöskur sem safnast hafa saman yfir mánuðinn til að geta keypt nauðsynjar.

Hvað gerir þú þegar neyðin er stærst?

- Auglýsing -

Það sem hefur hjálpað mér mest er að hafa Pepp í Arnarbakka, þar get ég komið
og fengið frítt brauð og kaffi, eins er boðið upp á heitan mat í hádeginu á
miðvikudögum. Ég er líka einstaklega heppin með fólkið í kringum mig sem er
boðið og búið til að rétta mér hjálparhönd þegar sem mest þrengir að.

Telur þú álagningu verslana sanngjarna og gerir þú verðsamanburð á vörum
og þjónustu?

Mér finnst álagning hafa hækkað langt umfram það sem eðlilegt getur talist
undanfarið og ég geri reglulega verðsamanburð á þeim vörum sem ég nota hvað mest.

- Auglýsing -

Hvað með sparnað í matarinnkaupum og hverju vilt þú breyta sem neytandi?

Ég sker allt við nögl þegar kemur að matarinnkaupum, sem þýðir að ég fæ alls ekki eins næringaríkan mat og ég helst þyrfti.
Það mætti oftar bjóða uppá hærri afslætti á nauðsynjavörum, það sem Krónan
hefur verið að gera er mjög flott framtak en betur má ef duga skal, sérstaklega
fyrir þá sem þurfa að skrapa saman klinki eftir aðra viku mánaðarins.

Leggur þú fyrir, og hvaða leiðir notar þú ef svo er?

Ég er með sameiginlegan sparnaðarreikning með vinkonu minni og legg fyrir 5 þúsund krónur á mánuði. En ef mig langar í ferðalög erlendis þá dugar það frekar skammt og tekur langan tíma að safna fyrir því. Seinasta ferð sem ég fór í tók mig tvö ár að safna fyrir og dugði þó ekki til að dekka allan kostnað. Ef ekki hefði verið fyrir góða vini hefði ég ekki komist í þessa ferð.

Hve miklu eyðir fjölskyldan í mat og aðrar rekstrarvörur heimilisins á mánuði?

Ég er ein í heimili með hund og eyði að meðaltali 50 þúsund krónur í mat og rekstrarvörur á mánuði. Sem myndi teljast frekar lág upphæð?

Umhverfisvernd, skiptir hún þig máli ?

Já hún gerir það. Minn draumur er að geta verið sjálfbær að mestu leiti, að geta ræktað mitt eigið grænmeti án mikils aukakostnaðar, en þeir reitir sem boðið er uppá eru fáir og yfirleitt þó nokkur spotti að ferðast þangað, sem getur reynst þeim sem ekki hafa bíl til umráða frekar erfitt.

Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað, gjafir?

Ég reyni að versla alltaf sem ódýrast inn þar sem ekki er mikið úr að moða af 270 þúsund króna  ráðstöfunartekjum. Gjafir eru ævinlega eitthvað sem situr á hakanum og skorið við nögl. Fatnað fæ ég yfirleitt notaðan eða kaupi erlendis þegar ég hef haft tök á að ferðast.

Endurnýtir þú?

Ég endurnýti allt sem hægt er, notaðan fatnað sem enn er heill kem ég áfram til annarra sem gætu nýtt hann.

Hvaða ráð hefur þú til annarra?

Það er mjög erfitt að gefa öðrum ráð í svona aðstæðum, flestir eru orðnir langþreyttir og uppgjöfin algjör. En mér finnst mjög mikilvægt að fólk í fátækt skili skömminni því þetta er ekki sjálfskaparvíti, heldur afleiðing af pólitískum ákvörðunum. Til dæmis hefur örorkulífeyrir dregist verulega aftur úr lágmarkslaunum og er bilið núna að minnsta kosti 100 þúsund krónur á mánuði. Eins hafa frítekjumörk ekki hækkað í 14 ár sem gerir það að verkum að þeir sem reyna að bæta kjör sín með vinnu verða fyrir gríðarlegum skerðingum og nánast enginn ávinningur er af því að fara út á vinnumarkaðinn.
Þetta þarf að laga!

Annað sem þú vilt taka fram?

Ég bý í hjólhýsi í Laugardalnum og höfum við sem kjósum að búa á þennan hátt verið að reyna fá borgina til að útvega okkur svæði til langtíma uppbyggingar. Við erum venjulegt fólk sem kjósum að búa á óhefðbundinn hátt í okkar eigin heimilum. En þar sem við erum núna getum við ekki skráð heimilsfang heima hjá okkur og ég sem öryrki fæ þar af leiðandi ekki heimilisuppbót, en það eitt og sér myndi auka ráðstöfunartekjur mínar töluvert í hverjum mánuði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -