• Orðrómur

Neytandi vikunnar – „Sumar fast-fashion keðjur á hreinlega að sniðganga“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Neytandi vikunnar er Dagbjört Hákonardóttir. Hún er 36 ára og starfar sem lögfræðingur og er persónuverndarfulltrúi Reykjavíkurborgar. Dagbjört er gift Þórhalli Gísla Samúelssyni flugumferðarstjóra, þau búa í 105 Reykjavík ásamt börnunum sínum þeim Katrínu 7 ára og Torfa 4 ára. Dagbjört gefur kost á sér í 3. sæti í Reykjavík norður fyrir Samfylkinguna.

 

 

- Auglýsing -

Hve miklu eyðir fjölskyldan í mat og aðrar rekstrarvörur heimilisins á mánuði og hvar verslar hún helst ?

„Það er mjög mismunandi eftir mánuðum, en við verjum á bilinu 150-200.000 kr. í mat og aðrar rekstrarvörur á mánuði að öllu meðtöldu. Yfirleitt verslum við í Bónus í Skipholti sem er rétt hjá okkur, en við sækjum líka oft föstudagspizzuna á nærliggjandi stöðum. Þá höfum við vanið okkur á sl. tvö ár að panta matarpakka frá Eldum Rétt eða Matseðli. Það er ekki gert til að spara, heldur auðveldar það heimilislífið til muna að þurfa ekki að taka ákvörðun um það hvað á að vera í matinn. Þá eru réttirnir yfirleitt sæmilega hollir og vel útilátnir. Svo kemur meira að segja fyrir að börnin fást til að borða þetta án þess að styrjöld brjótist út“.

 

- Auglýsing -

Hvað með sparnað í matarinnkaupum og hverju vilt þú breyta sem neytandi ?

„Það er alltaf hægt að vera skynsamari í langtímainnkaupum, en í því felst samt gífurleg vinna sem ég er ekki tilbúin að leggja á mig miðað við mikið vinnuálag í leik og starfi. Við hjónin lítum á okkur sem forréttindafólk þar sem við getum lagt fyrir og notið að ganga að þeim hversdagslúxus vísum að kaupa þann mat inn sem okkur langar í hverju sinni og er í senn hollur og barnvænn. Bestu innkaupin eru að mínu mati þau sem miðast við eina matseld sem á að duga í margar máltíðir, hvort sem það er hægeldaður lambabógur, risastórt lasagna eða saðsöm súpa. Sem neytandi vil ég gera breytingar á innkaupum í próteingjöfum, en ég hef það sem markmið að bjóða æ oftar upp á kjötlausar máltíðir og læra í meiri mæli að elda úr baunum og tofu. Ég væri til í að sjá verslanir gera slíkum vörum hærra undir höfði“.

 

- Auglýsing -

Leggur þú fyrir, og hvaða leiðir notar þú ef svo er ?

„Varasjóður heimilisins er á aðskildum reikningi. Við eigum líka gjaldeyrisreikning og erum að leggja drög að skynsamlegum ráðstöfunum í lágvaxtaumhverfinu sem nú ríkir“.

 

Telur þú álagningu verslana sanngjarna og gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu ?

„Það ríkir sæmileg samkeppni á smávörumarkaði en það er erfitt að benda á verslanir og kenna þeim einum um okur og óeðlilega hátt verðlag hér á landi. Aðflutningsgjöld og svimandi óvissa sem tengist því að halda úti viðskiptalífi í skugga íslensku krónunnar gera út af við þá umræðu. Ég geri reglulega samanburð á kostnaði á vörum og þjónustu en of oft gríp ég eitthvað í búðinni og gleymi að athuga verðið á hillunni. Stundum endar það með ósköpum, t.d. þegar ég keypti í covid-panikki einnota grímur fyrir börn í pakka á fleiri þúsundir króna í Hagkaup í upphafi seinni grímuskyldunnar. Þær eru samt mjög sætar með risaeðlumynstri“.

 

Verðtryggð lán, óverðtryggð lán eða engin lán ?

„Við hjónin ákváðum við skuldbreytingu á síðasta ári að halda húsnæðisláninu á verðtryggðum, föstum vöxtum. Þá er ekki þar með sagt að ég sé sérstakur aðdáandi verðtryggingarinnar en kjör á óverðtryggðum lánum sæta reglulega endurskoðun hjá lánastofnunum og er ég ekki sannfærð um að niðurgreiðsla á höfuðstól fari endilega hraðar fram þegar á hólminn er komið“.

 

Umhverfisvernd, skiptir hún þig máli ?

„Sem frambjóðandi Samfylkingarinnar ætla ég að henda fram rándýrri fullyrðingu: Það á ekki nokkur einstaklingur erindi í þingframboð sem telur ekki að umhverfismál sé forgangsmál ákomandi kjörtímabili. Sem neytandi er ég þó ekki jafn róttæk og ég myndi vilja vera, en ég tek framförum. Ég kaupi til dæmis allt of mikið af fötum á sjálfa mig og heimilisfólk og mætti vera duglegri við að leita í deilihagkerfið þegar það vantar ný stígvél eða kuldagalla. Það er auðveldara að ganga inn í kunnuglegar búðir og kaupa þar ódýrar bómullarvörur þegar buxur vantar í næstu stærð á börnin. Sumar fast-fashion keðjur á hreinlega að sniðganga og ég nota appið Good on you til að leggja mat á sjálfbærni og umhverfisáhrif merkja og verslana“.

 

Annað sem þú vilt taka fram ?

„Mig dreymir um nána framtíð þar sem heimilin þurfa ekki öll að eiga bíl – jafnvel marga – og deilibílar gætu sprottið upp víða með sama hætti og við höfum séð með rafhlaupahjólin. Það kostar meðalfjölskylduna um 80.000 krónur að eiga og reka einn bíl á mánuði, sem er tæp milljón á ári. Það þyrfti að leigja sér deilibíl ansi oft fyrir þá fjárhæð, og hugsið ykkur bara öll grænu svæðin sem við gætum búið til í staðinn fyrir bílastæðin“.

 

Hvaða mál og málaflokka telur þú að þurfi að leggja meiri áherslu á ?

„Ég hef minnst á umhverfis- og gjaldeyrismál sem stærstu kosningamálin þegar  kemur aðneytendum, en við þurfum að breyta heimilisbókhaldinu hjá venjulegri fjölskyldu. Matarkarfan hefur alltaf verið of dýr á Íslandi og það er ekki hægt að skrifa það á há lífsgæði hér á landi. Venjuleg fjölskylda þarf til að mynda að fá barnabætur til að stemma stigu við þeirri fátæktargildru sem núverandi kerfi býr til“.

 

 

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -