Þriðjudagur 23. apríl, 2024
10.1 C
Reykjavik

Neytandi vikunnar – Þrúður Vilhjálmsdóttir – „Stundum eru vörur hlægilega dýrar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

 

Neytandi vikunnar að þessu sinni er Þrúður Vilhjálmsdóttir leikkona og flugfreyja. Hún er gift Halldóri Erni Óskarssyni og þau eiga einn son.  Þrúður útskrifaðist sem leikkona 1997 og er án efa ein flottasta og færasta leikkona okkar Íslendinga. Hún á einnig glæsilegan feril sem flugfreyja en hún hefur starfað sem slík í 17 ár. Þrúður var að ljúka tökum á Ófærð 3 þar fer hún með hlutverk lögreglu. Mannlíf fékk að spyrja Þrúði, nokkurra spurninga um neysluvenjur fjölskyldunar og fleira. Hér að neðan eru hennar svör.

 

Hve miklu eyðir fjölskyldan í mat á mánuði og hvar verslar hún helst ?

„Ég reyni nú yfirleitt að halda útgjöldum í ekki mikið meira en 100 þúsund kr á mánuði en það gengur því miður ekki alltaf. Í matarinnkaupum reyni ég að versla þar sem er gott vöruúrval svo það þurfi ekki að fara í aðra búð til að ljúka við matarinnkaup. Og að sjálfsögðu horfi ég á matarverðið.“

 

- Auglýsing -

Hvað með sparnað í matarinnkaupum og hverju vilt þú breyta sem neytandi ?

 „Ég reyni að nýta afganga til þess að elda upp úr að minnsta kosti einu sinni í viku svo það þurfi ekki að versla fyrir hvern einasta dag. Það gengur nokkuð vel. Reyni líka að gera stórar uppskriftir stundum, t.d af lasagna sem dugar kannski í tvo daga þar sem við erum einungis þrjú í heimili. Auðvitað myndi mig langa eins og alla aðra að lækka matarkostnað á einhvern máta þar sem matarverð er svo hrikalega hátt hérlendis. En ég get þó ekki bent sjálf á leiðir til þess…jú minnka álagningu á vörum.“

 

- Auglýsing -

Telur þú álagningu verslana sanngjarna og gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu ?

 „Nei ekki alltaf. Stundum eru vörur hlægilega dýrar og þá getur álagningin ekki verið sanngjörn.  Kannski er ég ekki nógu dugleg að gera verðsamanburð. Held ég sé samt með ágætis samninga við þessi hefðbundnu fyrirtæki sem maður þarf að skipta við. Maðurinn minn hefur þó kynnt sér þetta mun betur en ég. Ég afþakka þó strax símtöl frá fyrirtækjum sem vilja bjóða mér betri kjör, leiðist ekkert meira en það.“

 

Verðtryggð lán, óverðtryggð lán eða engin lán ?

„Ég er með bæði. Er með gamalt verðtryggt lán sem á þeim tíma stóð einungis til boða.“

 

Leggur þú fyrir og ef svo er, hvaða leiðir notar þú ?

„Já, ég legg fyrir í hverjum mánuði, bankinn minn sér alfarið um það.“

 

Umhverfisvernd, skiptir hún þig máli ?

 „Umhverfisvernd skiptir máli fyrir okkur og komandi kynslóðir. Ég hugsa það þó oft líka út frá fátækt í heiminum. Ég á erfitt með að henda mat þó það gerist stundum. Sem barn var ég alltaf skyldug að klára matinn minn, þó að það væri ekki gert með áminningu um að ekki fengju öll börn mat á diskinn, heldur var ég beðin um að ímynda mér að ég  væri í mat hjá kónginum þar sem dónaskapur er að klára ekki matinn sinn. Ég  skrúfa alltaf fyrir vatnskranann þegar ég bursta tennurnar, get nefnilega aldrei látið vatn renna of lengi til einskis enda fá ekki allri jarðarbúar nóg af hreinu vatni. Ég mætti þó vera duglegri að flokka plast, en pappinn fer rétta leið og ferðir eru tíðar í endurvinnsluna. Ég get ekki hent fatnaði, fer með hann í Rauða krossinn þar sem hægt er að endurnýta. Ég átti Nespresso kaffivél um tíma og gat engan veginn hent hylkjunum í ruslið. Þau fóru alltaf í endurvinnsluna enda var kaffivélin keypt með því skilyrði að það yrði gert. Kannski er þversögn í þessu öllusaman þar sem við keyrum um á bílum og fljúgum um hálfoftin í flugvélum. En einhvers staðar verður maður að reyna að beita sér í þessum málum til þess að passa upp á jörðina okkar.“

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -