„Njála er sú bók sem ég hef lesið oftast“

Deila

- Auglýsing -

Ásmundur Helgason, bókaútgefandi og eigandi Drápu, les sér til ánægju bæði í vinnu og frítíma. Hann les jöfnum höndum skáldsögur og fræðibækur, sérstaklega um veiði, enda mikill áhugamaður um þær. En hvaða bækur skyldu hafa haft mest áhrif á Ásmund?

Jón Miðskipsmaður

„Jón Miðskipsmaður eftir Frederick Marryat er bók sem ég las margoft sem barn og unglingur. Bókin kom fyrst út 1836 og sló strax í gegn á Englandi. Einhverra hluta vegna var hún til á mínu heimili og á sjónvarpslausum kvöldum var gott að fara suður í Miðjarðarhaf með Jóni og lesa um skyrbjúg, slagsmál og sjóorrustur.“

Íslandsklukkan

„Íslandsklukkuna eftir Halldór Laxness las ég í menntaskóla og varð alveg standandi hissa. Bæði yfir því hve ótrúlega skemmtileg hún er (hélt að Nóbelskáld hlyti að vera alvarlegur) og yfir því að það mætti bara fara eftir eigin dyntum í málfræði og réttritun.“

Veldu flugu

„Veldu flugu, eftir Pétur Steingrímsson í Laxárnesi í Aðaldal, er ein besta bók um fluguveiðar og sérstaklega fluguhnýtingar sem hefur komið út. Þau eru ófá kvöldin sem ég hef eytt með Pétri og flugunum hans. Þessi er sú langlífasta á náttborðinu hjá mér.“

Aðventa

„Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson las ég fyrir örfáum árum þegar Bjartur gaf hana út. Þessi stutta bók er algerlega kynngimögnuð og enn verður mér hugsað til Fjalla-Bensa þar sem hann sat grafinn í fönn með smalahundinum og forystusauðnum. Þetta er eitthvað svo íslenskt. Kjarninn er þarna.“

 Njála

„Njála er svo sú bók sem ég hef lesið oftast. Enda besta skáldsaga byggð á raunverulegum atburðum sem skrifuð hefur verið.“

„Ef ég má nefna nokkrar í viðbót þá voru bækurnar um Prins Valíant í gríðarlegu uppáhaldi. Áfram Hæðargerði og framhaldsbækurnar í þeim flokki voru stórkostlega góðar finnskar fótboltabækur og bækurnar um Alex hugdjarfa tóku öðrum myndasögubókum fram. Að lokum langar mig að nefna bækur Einars Kárasonar um Djöflaeyjuna og Sturlungaöldina. Frábærar bækur.“

 

- Advertisement -

Athugasemdir