„Nú eiga allir að hypja sig af svæðinu“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Enginn má lengur nálgast svæðið þar sem líklegt er talið að gjósi á næstunni. Enn bólar ekkert á gosi en vísindamenn eru sammála um að það geti gerest æa næstu klukkustundu eða dögum. Óánægju gætir meðal fjölmiðlamanna sem fyrirskipað var að halda sig vegamótin við Reykjanesbraut og veginn að Keili. Tíðindamenn Mannlífs voru meðal þeirra sem komust langleiðina að Keili áður en að lögreglan greip til sinna ráða og fyrirskipaði rýmingu svæðisins. Öll viðbrögð yfirvalda hafa einkennst af taugaveiklun eins og sjá má af allsherjarlokun vegarins sem er utan hættusvæðis.

Gosóróinn sem mældist í dag er við Litla-Hrút sem er um 3,5 kílómetra frá Keili. Gossprungan sem um ræðir liggur sunnan við Keili og að Trölladyngju. Enginn veit fyrir víst hvort eða hvar muni gjósa á umræddu svæði. Jarðvísindamenn sem Mannlíf ræddi við á svæðinu voru sammála um að gosið yrði ekki stórt. Þó gæti það byrjað með vænum stróki en síðan yrði rólegt yfir öllu. Enginn hætta mun steðja að fólki vegna goss, ef til kemur og allt mun gerast hægt.

Lögregla á bláum ljósum.

Mannlíf fyldist með hugsanlegri framvindu um fjóra kílómetra frá Keili en ekkert bólaði á gosi. Framan af var dimmt yfir en síðan rofaði til og þá sást Litli-Hrútur sem kúrði sallarólegur í hrauninu. Eftir um klukkustundar bið kom lögreglubíll akandi og skellti á bláum ljósum. Lögreglumaður, sem virtist finna svolítið til sín, kom gangandi og tilkynnti okkur að við ættum að hypja okkur strax. Í sömu svifum kom SMS frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum með tilkynningu um að allir ættu að fara af umræddu svæði. Þeir fáu sem voru í grennd við Keili hlýddu með semingi. Lögregla á bláum ljósum fylgdi á eftir.

Nokkur fjöldi fjölmiðlamanna var við afleggjarann að Reykjanesbraut í gíslingu lögreglu. Sérsveitarbíll var skammt undan. Lögregluríkið myndgerðist. „Nú eiga allir að hypja sig af svæðinu. Enn einu sinni á að hindra fjölmiðlamenn í að vinna sína vinnu,“ sagði einn þeirra. Við rifjuðum upp snjóflóðið í Súðavík þegar Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður bannaði fjölmiðlum að fara inn á svæðið sem þýddi að lítið er um myndir eða frásagnir frá þeim ógnartíma. Nú eru yfirvöld enn komin á kreik og fjölmiðlum er haldið frá vettvangi. Hið augljósa er að mögulegt hefði verið að leyfa fjölmiðlum að fara inn veginn að Keili gegn ströngum skilyrðum.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -