Nú geta hundar pantað eigin leikföng á netinu að því gefnu að eigendurnir borgi

Deila

- Auglýsing -

Brasilíska dýraverslunin Petz hefur opnað vefsíðu sem gerir hundum kleift að versla á netinu. Gervigreind skynjar viðbrögð hundsins í gegnum vefmyndavél við tilteknum vörum. Ef viðbrögðin eru jákvæð er varan sett í innkaupakerruna á síðunni.

 

Þegar farið er inn á Petz e-commerce koma upp þrír valmöguleikar; Boltar, leikföng og nagbein. Þegar búið er að velja flokk birtast stutt myndbönd þar sem tiltekin vara er sýnd meðan vefmyndavél tekur upp viðbrögð hundsins sem gervigreindin les úr. Eins og áður segir er varan sett í innkaupakerru ef hundurinn sýnir jákvæð viðbrögð. Hundaeigandinn verður þó að ganga frá kaupunum.

Mannlíf setti sig í samband við Heiðrúnu Klöru Johansen, hundaþjálfara og hundaatferlisfræðing, til að fá betri skilning á atferli hunda. „Það sem vekur áhuga hunda er lykt,” segir Heiðrún og bætir við að áferð skipti líka máli. „Segjum að það sé mynd af tveimur hlutum, grænn froskur og bleikur fíll. Ef hann heyrir tíst úr öðru þeirra þá vekur það upp veiðikvöt.” Hún bendir á að hundurinn gæti ekki vitað hvort honum myndi líka við fyrr en hann fengi að snerta og þefa af leikfanginu. „Það vantar lyktina og áferðina.”

Ef að hljóð og lykt eru ekki til staðar gæti formið mögulega haft áhrif. „Til dæmis hundur sem er boltasjúkur,” segir Heiðrún. Þannig gæti hundurinn sýnt boltum aukinn áhuga. „Það er þá lærð hegðun.”

Heiðrún segir gervigreind alveg geta lesið í svipbrigði hunds. „Hún ætti að geta gripið það ef hundurinn sperrir upp augun eða verði almennt spenntari.” Eyrnastaða og höfuðhreyfing er þá einnig sterk vísbending um aukna athygli. „Það eru ekkert allir hundar sem gera það,” segir hún og bætir við að oftast séu höfuðhreyfingar tengdar hljóði. „Þegar þeir reyna til dæmis að skilja mann.”

Tækni sem hægt er að nýta í gróðarskyni

Heiðrún segir hunda hafa ólíkar tilhneigingar og mismunandi smekk. Sumir fýla mjúk og loðin leikföng meðan aðrir vilja gúmmí. „Það myndi þurfa eitthvað á skjánum sem grípur athyglina. Eitthvað sem fer hratt eða gefur hljóð frá sér.”

Þá segir hún hljóð geta verið notuð til að selja dýrari varning. „Hann getur sýnt meiri viðbrögð gagnvart tísti. Það þýðir ekkert að hann hafi meiri áhuga.” Þannig gætu fyrirtæki mögulega notað hljóð til að selja ákveðnar vörur. „Svo kemur bara í ljós hvort að hundurinn vill þetta þegar það kemur heim. Þau þurfa að máta það, svo að segja. Ekki nóg að sjá það.” Þá segir hún áhugavert að sjá hvort tengsl séu á milli dýrari varnings og áhuga hundsins.

„Ef varan framkallar þetta hljóð þegar þau fá vöruna þá er ekkert að þessu. En ef þau setja inn önnur hljóð til að fegra eða blekkja þá er þetta bara vörusvik eins og hvað annað. Það þyrfti bara að koma í ljós. Eins og þegar maður kaupir sjálfur á netinu.” Hún kemur aftur inn á veiðihvöt hundsins og hvernig fyrirtækið getur notað hátíðnihljóð til að vekja sérstakan áhuga. „Veit ekki hvort það sé hægt að gera það í gegnum skjá. en það eru til hátíðniflautur sem við heyrum ekki í.”

Pet-Commerce forritið bara fyrir hunda eins og er

Framkvæmdastjóri Petz, Sergio Zimerman, sagði í yfirlýsingu að hugmyndin „passi vel við það sem fyrirtækið stendur fyrir. Þessi tengsl milli hunds og eiganda geta komið í hvaða formi sem er.” Þá sagði hann að „dýraást eigi sér engin takmörk og Pet-Commerce sé sönnun þess.”

Því miður er geta forritsins einskorðuð við hunda og því geta kattaeigendur ekki nýtt sér þessa þjónustu, að minnsta kosti eins og er. Zimerman hefur lýst yfir vilja fyrirtækisins að laða forritið að hegðunarmynstri katta í framtíðinni. Hvort það muni takast verður að koma í ljós. Þeir sem þekkja til vita hversu áhugalausir kettir geta virkað í samanburði við hunda.

- Advertisement -

Athugasemdir