2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Nýárskvíði

„Nú árið er liðið í aldanna skaut“ eða því sem næst og þar með runninn upp tími endurskoðunar, sjálfsskoðunar og heitstrenginga. Hið síðastnefnda kallast reyndar markmiðasetning sem er ákaflega viðeigandi í lífsgæðakapphlaupi samtímans sem hefur íþróttir og líkamlegt atgervi í hávegum.

Undirritaður er að spá í að taka þátt í heitstengingunum, enda fullur sjálfsfyrirlitningar í ljósi endurlits ársins, og setja sér það markmið að losa sig við líkamsþyngd sem samsvarar að minnsta kosti einum fermingardreng með skólatösku. Það var reyndar líka markmið síðustu og þar síðustu og þar á undan áramóta og þannig má áfram telja, en þegar líður að jólum kemst ég þó alla jafna að þeirri niðurstöðu að auðvitað sé aldrei nóg af mér. Um þá niðurstöðu má eflaust deila eins og annað.

En magnið af mér er auðvitað aðeins brot af mínum áunnum ágöllum sem rekja má til veiklundaðs geðs og marghátta fíknar. Af því leiðir að niðurstaða sjálfsskoðunarinnar er að ég er ekkert annað en miðaldra vindbelgur, um það vitna vindgangur og hrotur á víxl, sem samanstendur af blöndu af sjálfsfyrirlitningu og kvíða. Hinu eina og sanna andlega malti og appelsíni nútímamannsins.

Því blæs ég nú þungan og hugsa sem svo að ég hefði betur látið þessa vegferð sjálfsskoðunar ófarna. Betur gefið skít í allt nýársuppgjör og allar vangaveltur um hvað hefði getað farið betur á árinu sem er að líða. Það skilar nefnilega sjaldnast í öðru en óumræðanlegum nýárskvíða yfir því hversu linnulaust ég á eftir að bregðast sjálfum mér og öðrum á árinu sem senn gengur í garð.

AUGLÝSING


Að vandlega athuguðu máli hef ég því komist að þeirri niðurstöðu að best fari á því að strengja engin heit. Treysta fremur á orð Valdimars Briem í sálminum um árið sem líður í aldanna skaut þar sem einnig segir svo fallega: „Allt breyttist í blessun um síðir“, eða með orðum undirritaðs einfeldnings: Jess, þetta reddaðist.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is