Nýtt spil um íslensk stjórnmál: „Fyrir fólk sem þolir ekki spillingu nema það fái að spila með“

Deila

- Auglýsing -

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur hannað nýtt partýspil sem kemur á markað fyrir næstu jól. Spilið, sem kallast Þingspilið, hendir gaman að íslenskum stjórnmálum og er unnið í samvinnu við engan annan en Halldór Baldursson teiknara, sem hefur slegið rækilega í gegn með skopmyndum sínum.

Jón Þór Ólafsson og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna. Á myndinni sést Katrín með sitt spil.

„Ég er búinn að prufukeyra þetta víða, fyrst með krökkunum mínum, svo þingflokknum, stjórnmálanördum, spilanördum og fólki sem ekki tilheyrir þeim hópum og fólkinu í malbikinu og allir skemmta sér konunglega,“ segir þingmaðurinn Jón Þór Ólafsson, sem hefur hannað nýtt partýspil, Þingspilið, sem hann ætlar að setja á markað fyrir næstu jól.

Að sögn Jóns Þórs er um að ræða partýspil þar leikmenn stjórna formönnum flokka á þingi sem keppast við að koma sem flestum þingmönnum í eigin vasa. „Hver spilari dregur sinn formann úr formannabunkanum, svo dregur hann tvö spil á hendi í byrjun umferðar og er eitt málefni lagt á borðið. Svo byrja pólitísku átökin og spillingin. Markmiðið er að klára sem flestar umferðir með sem flesta þingmenn,“ útskýrir hann léttur í bragði, en slagorð spilsins er: „Fyrir fólk sem þolir ekki spillingu nema það fái að spila með“ .

„Ég er búinn að prufukeyra þetta víða og allir skemmta sér konunglega.“

Spurður hvernig hugmyndin hafi kviknað segist Jón Þór lengi hafa gengið með þá hugmynd í maganum að hanna einhvers konar stjórnmálaspil. „Hugmyndin kviknaði í hitakófi í desember á þarsíðasta ári. Mig hafði lengi langað til að gera spil sem fangar raunveruleikann á þingi og stuttu áður rakst ég á Gísla í Nexus sem sagði mér að svokölluð partýspil væru mjög vinsæl þar sem fólk kæmist yfirleitt fljótt upp á lagið með að spila þau, þau væru fljótspiluð og það skemmtileg að fólk vill spila þau aftur og aftur. Þingspilið er hugsað þannig og kostirnir eru þeir að maður dettur ekki út og getur hætt eða byrjað að spila hvenær sem er.“

Jón Þór bætir við að hönnun spilsins hafi verið unnin um þarsíðustu jól, en spilin eru skreytt með myndum eftir sjálfan Halldór Baldursson teiknara. „Skopmyndirnar hans Halldórs vekja alltaf kátínu. Enda endurspegla þær svo vel stjórnmálin; hegðun stjórnmálamanna, smjörklípurnar, innanflokksátökin, hneykslismálin og fleira. Halldór gaf grænt ljós á að myndirnar hans yrðu notaðar í spilinu og eftir það skrifaði spilið sig eiginlega sjálft. Ég þurfti bara að fara í gegnum myndirnar hans og finna þeim viðeigandi stað,“ segir Jón Þór.

Þingspilið er væntanlegt í vetur.

En hvernig hafa formenn flokkanana eiginlega tekið uppátækinu? „Ég kynnti hugmyndina fyrir þeim í janúar fyrir ári,“ svarar hann. „Síðan hitti ég þá alla og leyfði þeim að draga sín spil. Þeim var nú bara skemmt. Einn horfði vel og lengi á mig eftir að hafa dregið sitt spil og sagði: Þú ert nú ekki alslæmur,“ segir Jón Þór og hlær. „Annar var mjög ánægður með sitt spil eftir að hafa fengið að sjá hvaða stjórnmála kænsku hinir formennirnir hafa skrifuð á spilin sín og einn vildi fá „selfie“ með mér og spilinu sínu. Það tóku þessu allir bara mjög vel og höfðu gaman af.“

Jón Þór segist nú stefna á að setja spilið á markað í vetur. „Í allra síðasta lagi í desember svo það rati nú í jólapakkana,“ segir hann sposkur og tekur fram að spilið fari í hópfjármögnun hjá Karolina Fund bráðlega.

- Advertisement -

Athugasemdir