Ódýrast í sund á Akranesi – dýrast í Húsafelli

Deila

- Auglýsing -

Ódýrast er fyrir fullorðna að fara í Jaðarsbakkalaug á Akranesi, þar sem kostar 635 krónur að fara í sund en dýrast á Húsafelli þar sem það kostar 1300 krónur. Munar heilum 665 krónum á milli ódýrustu sundferðarinnar og þeirrar dýrustu. Tæplega 51 prósents verðmunur er þar á milli.

Víða er ókeypis fyrir börn í sund en þar sem þau greiða að­­­gangseyri er hann lægstur í laugum Reykjanesbæjar, eða 150 krónur. Dýrast er fyrir börn að fara í sund á Hvolsvelli þar sem það kostar 500 krónur. Verð­­­mun­­urinn er því 350 krónur á milli lægsta og hæsta gjalds, eða 70 prósent.

Á höfuðborgarsvæðinu er ódýr­­ast að fara í sund í Hafnar­­firði en þar kostar 700 krónur fyrir fullorðna og ókeypis er fyrir börn. Dýrast er í laugarnar í Reykjavík þar sem sundferðin kostar nú 1030 fyrir fullorðna og 160 krónur fyrir börn á aldr­­inum 6 til 17 ára.

Áhugavert er að börn eru ekki sett undir sama aldurshatt á land­­inu öllu. Sums staðar þurfa þau að greiða fullorðinsgjald þegar þau hafa náð 16 ára aldri, annars staðar 17 ára og á enn öðrum stöðum 18 ára. Þá er líka misjafnt við hvaða aldur þau byrja að greiða aðgangseyri. Það er ýmist við 5, 6, 10, 12 eða 14 ára aldurinn. Skilgreiningin að barn sé einstaklingur undir 18 ára aldri á því greinilega ekki við í öllum sundlaugum.

Hagstæðast að greiða fyrir 10 skipti í einu

Nánast allar sundlaugar hér á landi bjóða upp á 10 miða kort og þá lækkar nú upphæðin heldur betur sem sundferðin kostar. Nokkrar laugar á lands­­byggðinni bjóða einungis upp á 30 miða kort en lækkar þá sömuleiðis umtalsvert hver sundferð í verði. Í Reykjavík og á Kjalarnesi má lækka kostnað við hverja ferð um 555 krónur með því að greiða fyrir 10 skipti í einu. Þá kostar sundferðin 475 krónur í stað 1030 krónur. Í Mosfellsbæ fer upphæðin með þessu móti úr 820 krónum í 379 og í dýrustu laug landsins, að Húsafelli, má lækka kostnað við hverja sundferð úr 1300 krón­­um niður í 960 krónur með því að greiða fyrir 10 skipti í einu.

Ódýrasta laug landsins, Jaðar­­s­bakkalaug á Akranesi, býður upp á 30 miða kort. Það kostar 8.650 krónur og lækkar sund­­ferðin með því úr 635 krón­­um í um 288 krónur.

Sérkjör fyrir íbúa 
en ekki hina

Nokkrar sundlaugar bjóða sér­-
kjör fyrir íbúa staðarins og þurfa aldraðir og öryrkjar þar ekki að greiða fyrir sundferðina. Til dæmis fá aldraðir með lög­­heim­ili í Fjarðabyggð ókeypis í sund þar en aðrir aldraðir greiða 950 krónur. Aldraðir sem búa í Árborg fá ókeypis í sundlaugar þar en aðrir greiða 200 krónur. Í Strandabyggð fá aldraðir, ör­­yrkjar og börn, 17 ára og yngri, ókeyp­is í sund hafi þeir lög­­­­­heimili þar.

Aldraðir og öryrkjar njóta ekki sömu kjara

Aldraðir og öryrkjar fara endurgjaldslaust í sund á höfuðborgarsvæðinu og sums staðar úti á landsbyggðinni.

Á sumum stöðum þurfa aldraðir að greiða en öryrkjar ekki. Til dæmis í Glerárlaug, sundlaug Akureyrar, Hrísey og Grímsey þar sem aldraðir eru rukkaðir um 250 krónur fyrir sundferðina. Sundlaugin á Húsavík krefur aldraða um 360 krónur fyrir aðgang að lauginni.

Oftast er það þó sama upphæð sem aldraðir og öryrkjar greiða. Algengast er að hún sé 300 krónur en vissulega eru undantekningar þar á. Lægsta upphæðin sem aldraðir og öryrkjar greiða er í sundlaugum Reykjanesbæjar en hún nemur 160 krónum. Hæst greiða þeir á Höfn, Hellu og Hvolsvelli eða 500 krónur. Munar þar 340 krónum á hæsta og lægsta verði.

Gleymdirðu sundfötunum?

Ef maður er svo ólánssamur að vera ekki með sundföt þá bjóða nánast allar laugar upp á leigu sundfata. Handklæði fæst einnig leigt þar sem sundföt fást leigð.

Athygli vekur að einungis sárafáar laugar bjóða sérkjör á sundfötum, handklæði og sundferð í einum pakka. Í Glerárlaug, sundlaug Akureyrar, laugunum í Hrísey og í Grímsey býðst þetta allt saman á 2000 krónur fyrir fullorðna, á Húsavík 1550 krónur, að Laugum 1100 krónur, á Selfossi, Stokkseyri og Hveragerði 1650 krónur og í Þorlákshöfn fyrir 1700 krónur.

Algengt verð fyrir leigu á sundfötum er um 600 krónur og sama upphæð fyrir handklæði. Það ætti kannski ekki að koma á óvart að á höfuðborgarsvæðinu er dýrast að leigja útbúnað í laugum Reykjavíkurborgar þar sem rukkaðar eru 920 krónur fyrir sundfötin og 620 krónur fyrir handklæðið. Samtals 1.540 krónur og bætum sundferðinni ofan á og útkoman er 2.570 krónur. Í Hafnarfirði, til samanburðar, kostar þetta þrennt 1.700 krónur.

Á landsbyggðinni hefur Húsafell vinninginn hvað dýrustu leiguna snertir en þar kostar þúsund krónur að leigja handklæði, aðrar þúsund að leigja sundföt og við bætast 1.300 krónur í aðgangseyri. Samtals 3300 krónur.

Ódýrast er að leigja útbúnað í sundlauginni á Flúðum, eða 350 krónur fyrir handklæði og 350 fyrir sundföt. Ofan í laugina kostar 900 krónur og endar sundferðin því í 1.600 krónum.

Það er því að ýmsu að huga þegar farið er í sund á Íslandi og vissara að gleyma hvorki handklæði né sundfötum. Verð­­­­­munurinn getur hlaupið á þúsundum króna þegar með­­alstór fjölskylda hyggst bregða sér í sund.

- Advertisement -

Athugasemdir