2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Oft verið hundfúll með flokkinn

„Ég styð Sjálfstæðisflokkinn með ráðum og dáð og vinn fyrir hann á meðan ég hef þá trú að þetta sé það stjórnmálaafl sem er líklegast til að vinna hugsjónum mínum framgang. Að þessu sögðu, þá er ég tilbúinn til að vinna áfram með Sjálfstæðisflokknum eins og ég hef gert síðustu 20 árin og ekki séð eftir einni mínútu sem hefur farið í það. En oft hef ég orðið hundósáttur við flokkinn og finnst hann í sumum þáttum þurfa að fara að hugsa sinn gang,“

segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, í ítarlegu viðtali við Mannlíf sem kom út á föstudag.

Þar horfir Elliði til hinna klassísku frelsismála þar sem honum finnst flokkurinn ekki ganga nægilega vasklega fram. „Það er lykilatriði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í dag, að láta af forræðishyggju og ganga fastar fram í innleiðingu á hvers konar frelsi. Og frelsismálin þurfa ekki alltaf að vera stærstu efnahagslegu mál þjóðarinnar.

Eitt grundvallarmál er t.d. að ríkið dragi sig í hlé í af neytendamarkaði. Að það hætti afskiptum á sölu á vörum svo sem ilmvatni, Tobleron og saltpillum í nafni ISAVIA. Svo ekki sé nú minnst á hið sjálfsagða frelsi til að kaupa bjór og vín eins og hverja aðra neytendavöru. Af hverju er frelsi í rekstri fjölmiðla ekki meira? Af hverju þurfa einkareknir fjölmiðlar að glíma á hverjum einasta degi við ríkisbákn? Af hverju hagar ríkið málum sínum þannig að þeir eru búnir að taka sér leyfi að byrja að prenta dagblað og rukka alla sem eru með bréfalúgu, rétt eins og þeir senda út útvarp og rukka alla sem mögulega geta haft viðtæki í gegnum nefskatt. Það er ekkert frelsi í þessu. Ég vil geta valið hvort ég versla við fjölmiðil eða ekki. Á sama hátt þarf ríkið líka að láta sem mest af inngripum í atvinnulífið.  Í hvert skipti sem umræða sem þessi kemur upp þá hljómar alltaf eitthvert bergmál í samfélaginu: „Er þetta nú stærsta málið? Væri ekki nær að ræða fátækt?“ Hugtakið frelsi er svo mikilvægt fyrir okkur öll í okkar daglega lífi og þess vegna eigum við ekki að láta hrekja okkur út í horn í þessari umræðu.“

AUGLÝSING


Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is