Föstudagur 29. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Ógleymanleg útganga Sigmundar Davíðs: „Sannað að þetta var tilefnislaus og gróf árás“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Snemma á vormánuðum árið 2016 var ellefu milljón skjölum lekið frá lögfræðiskrifstofunni Mossack Fonseca í Panama. Er talið að um stærsta gagnaleka sökunnar sé að ræða. Um var að ræða skjöl, tölvupósta og stofnskjöl ríflega 214 þúsund aflandsfélaga í 200 löndum og skattaskjólum víða um heim. Meðal þeirra nafna sem fram komu í gögnunum voru 72 núverandi og fyrrverandi þjóðarleiðtogar sem stofan hafi aðstoðað við skattaundanskot og peningaþvætti.

Það voru þýsk stjórnvöld sem keyptu gagnagrunn Mossack Fonseca af tölvuhökkurum og það var ekki síst vegna krafna almennings að íslensk stjórnvöld báðu um aðgengi að honum sem þeir og fengu. Má gera að því skóna að einhverjir hafi átt við verri nætursvefn að stríða í kjölfarið.

Pútín, Messi, Dorrit og Sigmundur

Í gögnunum var að finna upplýsingar um 800 aflandsfélög sem tengdust 600 Íslendingum. Íslendingarnar voru í „góðum“ félagsskap einstaklinga á borði við Vladimir Putin, forseta Rússlands, Lionel Messi, knattspyrnugoðs, Muammar Gaddafi sáluga, forseta Líbíu, og Michel Platini, fyrrum forseta UEFA. Alls var í skjölunum af finna nöfn 72 fyrrverandi og þáverandi þjóðarleiðtoga.

Nöfnin sem um ræddi voru landsmönnum vel kunnug en meðal þeirra voru viðskiptamógullinn Jón Ásgeir Jóhannesson og eiginkona hans Ingibjörg Pálmadóttir, bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir í Bakkavör svo og Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú. Það kom ef til vill ekki mörgum á óvart að einstaklingar umsvifamiklir í viðskiptalífinu ættu miklar eignir erlendis og voru það ef til vill nöfn stjórnmálamannana og kvenna sem vöktu enn meiri athygli, nöfn einstaklinga sem höfðu það að starfi að gæta hagsmuna almennings.

Meðal nafna sem fram komu voru Júlíus Vífill Ingvarsson, Bjarni Benediktsson, Ólöf Nordal og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Stærsti skellurinn var þó ef til uppljóstranir um fjárhagsgjörninga Sigmunds Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra. Þeir urðu betur þekktir undir nafninu Wintris málið.

- Auglýsing -

Blaðamaður þýska dagblaðsins SZ sagði að sér og kollegum sínum hefði brugðið við að sjá umfang Íslendinga í gögnunum. „Ísland er nú ekki stórt land en við fundum hundruð aflandsfyrirtækja sem voru í eigu Íslendinga eða höfðu sterk tengsl við landið.“

Enn og aftur hafði Íslands sannað sig sem „stórasta land í heimi.“

Útgangan og framhaldið

- Auglýsing -

Þann 3. apríl 2016 tók fréttaskýringarþátturinn Kastljós þátt Íslendinga í Panamaskjölunum sérstaklega fyrir í samstarfi við fjölmiðlafyrirtækið Reykjavik Media, Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna og þýska dagblaðið SZ. Sænski blaðamaðurinn Sven Bergman tók viðtal við Sigmund Davíð í ráðherrabústaðnum og spurði hvort hann hefði haft tengsl við aflandsfélög. Sigmundur Davíð kvað svo ekki vera, hann hefði jú starfað hjá íslenskum fyrirtækjum sem hefðu haft slík tengsl en sagði af og frá að hann hefði nokkurn tíma leynt persónulegum eigum í erlendu skattaskjóli. Sven ítrekaði spurningu sína á kurteisislegan hátt og spurði sérstaklega út í félagið Wintris, sem skrá var á eiginkonu Sigmundar. Sigmundi Davíð var sýnilega afar brugðið og átti bágt um svör. Bauðst Sven þá til að íslenskur spyrill, Jóhannes Kr. Kristinsson, tæki við keflinu.

Í kjölfarið kom ógleymanlegt augnablik í sjónvarpssögu Íslands þegar Sigmundur stóð á fætur og rauk út með þeim orðum að hann gæfi Jóhannesi viðtal síðar. Sven sagði síðar að starfsfólk forsætisráðuneytis hefði haft samband og farið fram á að útganga ráðherra yrði klippt burt. Það var ekki orðið við því.

Útganga Sigmundar Davíð þegar hann var krafinn svara um aflandsfélagið Wintris. Mynd: Skjáskot RÚV.

Sigmundur Davíð var fljótur að snúa vörn í sókn og bar á RÚV að um pólitískar ofsóknir væri að ræða. Hann sagði fréttastofu ekki birta jákvæðar fréttir af sér eða ríkissstjórn sinni auk þess sem fréttir væru teknar úr samhengi í þeim tilgangi að setja neikvætt yfirbragð á þær. „Það er ekkert launungarmál að mér hefur þótt undarlegt að fylgjast með því með hvaða hætti RÚV hefur nálgast þetta mál. Umfjöllunin öll hefur haft meira yfirbragð þess að segja sögu eða hanna atburðarás fremur en að greina frá staðreyndum,“ birti Sigmundur í bloggfærslu.

Mótmælin og afsögnin

Daginn eftir sýningu þáttarins var efnt til mótmæla við Alþingishúsið þar sem talið var að 22 þúsund manns hefðu mætt. Þau héld áfram í minna mæli næstu dagana þar til Sigmundur Davíð gekk á fund forseta og óskaði eftir þingrofi sem forseti hafnaði. Svo fór þó að Sigmundur Davíð sagði af sér og Sigurður Ingi Jóhannsson  tók við keflinu. Þingkosningum var flýtt til haustins 2016.

Sigmundur sagði síðar í kosningaþætti á RÚV að þingkosningarnar hefðu ekki verið haldnar snemma vegna Wintris-málsins. „[…] en það er ekki hægt að biðjast afsökunar á að hafa orðið fyrir einhverju, sem ekki er hægt að kalla annað en ótrúlega árás, sem síðar hefur sýnt sig og verið sannað að var tilefnislaus og ótrúlega gróf.“

Jóhannes Kr. fékk aldrei viðtalið sem honum hafði verið heitið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -