- Auglýsing -
Helgin nálgast og afþreyingarmöguleikar af skornum skammti vegna samkomutakmarkana. Söfnin eru lokuð og meira að segja bókasöfnin líka! Til þess að létta lesendum lífið viljum við benda á nokkrar ódýrar hugmyndir til að nýta tímann í eitthvað uppbyggilegt.
- Yoga. Náðu þér í Down Dog appið og fáðu jógakennarann heim í stofu. Öll fjölskyldan getur spriklað með.
- Farðu á tónlistarhátíð. Á youtube rás tónlistartímaritsins Pitchfork er Best of Pitchfork Music Festival þar sem þú getur horft á listamenn á borð við Angel Olsen, Beach House, Big Thief, Grimes, LCD Soundsystem, Rico Nasty, Kamasi Washington, Run the Jewels, og Wilco í geggjuðum gæðum. Tónlistarhátíðir geta svo sannarlega opnað eyru manns fyrir nýrri og spennandi tónlist.
- Lærðu að ljósmynda. Á youtube rás Adorama er hellingur af ókeypis kennslumyndböndum í ljósmyndun. Við mælum sérstaklega með Exploring Photography with Mark Wallace.
- Farðu í frisbígolf. Það þýðir ekkert að hanga bara inni alla helgina. Veðurspáin er þokkaleg og um að gera að fara út að hjóla, labba eða hlaupa. En ef þú ert þegar búin/n að fá leið á því öllu og hefur ekki enn prófað frisbígolf þá hefurðu enga afsökun. Farðu á folf.is og finndu völl í þínu nágrenni. Þeir eru tæplega 70!
- Verslaðu jólagjafirnar. Ef þú ert komin/n inn aftur og hefur fengið nóg af útiveru þá er lítið annað að gera en að byrja að versla jólagjafirnar á Netinu. Einhvernvegin þarf að halda hjólum atvinnulífsins gangandi!
Neytendavaktin býður góða helgi!