Óli Hilmar Briem Jónsson varð fyrir því áfalli á dögunum að hans besti vinur, hundurinn Seppi, fór frá honum. Óli hefur leyft Hundasamfélaginu á Facebook að fylgjast með sorgarferlinu og er óhætt að segja skrif hans um Seppa hafi snert hjartastrengi margra. Minningarorð Óla um Seppa hafa vakið gífurlega athygli og ljóst að margir tengja við orð hans.

Óli segir í samtali við Mannlíf að Seppi hafi látist af völdum krabbameins. „Fyrir um 8 mánuðum fór Seppi að hósta og það smá ágerðist – hann varð líka móður og andstuttur. Dýralæknar greindu hann með krabbamein í lungum og hálsi sem röntgenmyndir staðfestu. Og þar var hann svæfður 11/ 9 síðastliðinn,“ segir Óli.
Fór í Voffalandið
Líkt og fyrr segir þá hefur Óli skrifar fjölda færslna sem hver er annarri hugljúfari. Sama dag og Seppi var svæfður skrifar Óli þessa færslu fyrir hönd hundsins:
„Kæru vinir . Þið hafið fylgst með mér og hughreyst okkur pabba í veikindum mínum . Ég átti að fara í „Voffalandið“ fyrir mánuði , en pabbi fékk stera fyrir mig og þá leið mér betur og „ferðinni stóru“ var frestað. En nú eru sterarnir hættir að virka. Ég átti erfiða nótt og kastaði upp og átti erfitt með að anda. Og ég get ekkert étið Svo nú er ég að búa mig undir „hinstu ferðina“ . Við förum á Rauðalæk á eftir og þar sofna ég svefninum langa kl. 12. í dag, föstudaginn 11/9 Þá finn ég ekkert til lengur.
Þakka ykkur hlýjuna og vináttuna við mig .. Vóff , vóff ! / Ykkar Seppi“
Síðar sama dag birtir Óli mynd af leiði Seppa, sem sjá má hér fyrir ofan, og skrifar: „Seppi kvaddi þennan heim klukkan 12:20 í dag og stóð sig eins og hetja. Ég var hjá honum þar til yfir lauk.“ Hann bætir við það: „Ljúflingurinn hann Seppi er nú kominn í „Voffalandið“ . Það er ósköp tómlegt í kotinu núna.“
Vængbrotin
Óli minnist svo síðustu stundar þeirra félaga saman. „Ég verð að játa það, að þegar ég lá við hlið Seppa míns á gólfinu á teppi hjá dýralækninum og hélt með annarri hönd í framfótinn hans og utan um hálsinn með hinni, – þá láku tárin …….. Mér þótti svo undur vænt um Seppa minn,“ skrifar Óli.
Hann segist enn vera ná sér eftir fráfall Seppa. „Seppi var tryggðartröll og fylgdi mér hvert sem ég fór, – jafnt á sumri sem á vetri. Það er engin furða að maður sé vængbrotinn, að hafa hann ekki lengur hjá sér.“
Að lokum birtir Óli eftirfarandi ljóð:
„Senn fer sól í Sökkvabekk
Seppi minn er dáinn
Ljótan gerði lýðum hrekk
maðurinn með ljáinn.