Fimmtudagur 25. apríl, 2024
10.1 C
Reykjavik

Óli Stef svarar Viðari og ver Brynjar: „Sporð­drek­arnir enda á því að drepa hver ann­an“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Í ljósi heitfenginnar umræðu um myndina Hækkum Rána langaði mig að deila minni sýn.“

Þannig hefst pistill eftir Ólaf Stefánsson, fyrrverandi landsliðsmann í handknattleik. Miklar umræður hafa skap­ast vegna heim­ilda­mynd­inni Hækkum Rána, þar sem fjallað er um þjálf­un­ar­að­ferðir ungra körfuknatt­leiks­stúlkna. Sitt sýnis hverjum. Viðar Halldórsson pró­fessor í félags­fræði við Háskóla Íslands gagnrýnir þjálfarunaraðferðir Brynjars Karls Sigurðssonar í pistli á Kjarnanum en hann þjálfaði stúlkur á aldrinum 8 til 13 og var markmið hans að þær yrðu leiðtogar utan vallar og afrekskonur innan vallar. Þjálfunaraðferðir hans eru umdeildar og hefur mörgum þótt hann of harður við stúlkurnar. Viðar líkir honum við rúmneskan fimmleikaraþjálfara, Béla Károlyi að nafni en hann lýkti stúlkunum sem hann þjálfaði við sporð­dreka.

„Hug­mynda­fræði Karolyi var á þá leið að það að þjálfa korn­ungar fim­leika­stúlkur væri eins og að vera með 50 sporð­dreka sem hann setti í flösku og setti svo tapp­ann í flösk­una. Hvað ger­ist, jú sporð­drek­arnir enda á því að drepa hver ann­an, þangað til einn er eftir sem skríður að lokum uppúr flösk­unni, og það verður Ólymp­íu­meist­ar­inn minn, sagði Károlyi stolt­ur,“ segir Viðar og bætir við:

„Það sem felst í þess­ari sam­lík­ingu er að afreks­stefna í íþróttum barna verður oft hörku­leg og ómann­úð­leg þar sem ein­göngu þeir hæf­ustu lifa af, og nán­ast öllum er sama um þá sem ekki ná í gegn. Sagan verður þannig skráð af sig­ur­veg­ur­unum sem gerir slíkar aðferðir oft eft­ir­sókn­ar­verðar í augum almenn­ings, án þess þó að almenn­ingur geri sér grein fyrir öllum fórn­ar­kostn­að­inum sem varð til við upp­bygg­ingu meist­ar­ans í slíku afreksum­hverfi. Og þar stendur hníf­ur­inn í kúnn­i.“

Ólafur Stefánsson svarar Viðari  og segist hafa þekkt Brynjar í fjöldamörg ár. Við gefum Ólafi Stefánssyni orðið:

„Hann þjálfaði mig og börnin mín í skorpum þegar ég var í ‘fríi’ á Íslandi yfir sumarið. Æfðum líka oft saman. Þegar ég flutti heim til Íslands kíkti ég á æfingar stelpnanna í Aþenu og var að pæla í að leyfa yngstu stelpunni minni, sem þá var í körfubolta, að æfa hjá honum. Hún kíkti á eina æfingu með mér hjá Binna. Henni fannst ráin frekar há þarna á æfingunum og við ákváðum síðan í framhaldi að hún yrði áfram í Val. Þar spilaði hún áfram fersk í eitt ár. Núna er hún með önnur áhugamál en körfubolta. Hennar val og allir glaðir.

- Auglýsing -

Við Binni eigum það sameiginlegt að trúa því að hægt sé að kenna börnum og unglingum að veita athygli athygli sinni, að það sé hægt að fá börn til að hafa áhuga á tilfinningum sínum með það að markmiði að ná færni í að taka ábyrgð og velja sjálfur eigin viðbrögð þegar tilfinningar manns koma upp. Íþróttir eru frábær leið til í þessari viðleitni, að kanna mörk sín, bæði líkamleg sem og viðbragðsleg því að hver einasta æfing er samansafn fjölmargra atvika sem birta persónuleika manns þá stundina.

Og varðandi viðbragðsþjálfun óendanlegra fjölbreyttra áreita íþróttarinnar sem og lífsins. Að mínu viti er hinn besti þjálfari sá sem bæði skipuleggur æfinguna vel, fýsískt og taktísk OG er næmur fyrir viðbrögðum leikmanna sinna þegar þeim finnst að sér vegið (þegar áreitið er óþægilegt). Hæfni þjálfarans liggur í að segja réttu hlutina á réttu augnablikunum, fyrir leikmanninn að hugsa um, skoða, endurtaka (ef jákvætt) eða hætta (ef talið neikvætt). Aðalmálið er þó að gefa leikmanni skilaboðin um að hún/hann sé ábyrg fyrir sínum viðbrögðum. Fókusinn er ekki einungis á áreitið heldur á viðbrögð leikmannsins gagnvart því sem poppar upp.

Það kom mér á óvart að vinur minn og fræðimaður Viðar Halldórsson skuli grípa til þeirrar mjög svo vafasamrar einföldunar og líkingar að Brynjar sé eins og rúmenski fimleikaþjálfarinn Bela Karolyi og fleiri kollegar sem tilheyra réttilega úr sér genginni austur-evrópskri niðurrifs-‘uppyggingar’-þjálffræði.

- Auglýsing -

Þjálfun Brynjars er allt önnur, skýrari og margslungnari sem greina má ef lagt er vel við hlustir í umræddri mynd. Kennsla Brynjars snýst minna um körfubolta eða það að vinna úrslitaleik 22-4 (sem er reyndar umhugsunarefni einnig) heldur miklu fremur um að færa leikmönnum sínum tungumál og tilfinningameðvitund til þess fallin að láta engan – hvort sem er Brynjar sjálfur, annar þjálfari eða kennari, foreldri, mótherji – ræna sig útgeislun sinni og leikgleði. Með þá hæfni í farteskinu mun enginn Bela Karolyi þessa heims (í sínum fjölmörgu myndum) geta rænt lífsgleði þannig leikmanns.

Og á almennari nótum. Lýðheilsa og afreksstefna eiga ekki að þurfa að fara á móti hverri annarri heldur að styrkja hver aðra. Vellíðun íþróttamannsins eykur líkur á afrekum, hvort sem er í víðum eða þröngum skilningi. Þetta samtal þarf að eiga sér stað, af hugrekki og án sleggjudóma.

Aftur, íþróttaþjálfun á, fyrir utan skipulag, tækni og styrk, í grunninn að snúast um fjölbreytt val íþrótta (og þjálfara), að barn geti æft valda íþrótt af ástríðu OG þroskað meðvitund um stjórn eigin viðbragða sem aftur munu endurspegla leik-/lífsgleði þess sama einstaklings. Þessi meðvitund þroskast einungis með athygli á hvert athygli manns beinist. Þess konar þjálfun er að mínu viti það sem 21. öldin er meir og meir að byrja að fókusa á. Fyrsti vísirinn að því hér á landi er Aþena, viskugyðjan.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -