Fimmtudagur 28. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

Ólöf Helga Adolfsdóttir býður sig fram sem forseta ASÍ: „Ég hef bara unnið láglaunastörf“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég hef mikinn áhuga á að taka þátt í hreyfingunni og er Alþýðusamband Íslands eitt það mikilvægasta sem við launafólk á Íslandi eigum. Mér finnst ekki vera hægt að setja það baráttulaust í hendur fólks sem hefur í rauninni ekki trúverðugleika til þess að leiða hreyfinguna, elur á sundrungu og setur í rauninni valdahagsmuni sína fram yfir hagsmuni almenns félagsfólks,“ segir Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, sem býður sig fram til forseta ASÍ en hún hefur sagt að mótframbjóðandi sinn og formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, taki eigin valdahagsmuni fram yfir hagsmuni almenns félagsfólks. Þing ASÍ hófst í morgun og verður nýr forseti kosinn á miðvikudaginn.

Ólöf Helga er spurð hverjar áherslur hennar yrðu ef hún settist í stól forseta ASÍ.

„Ég kem að sjálfsögðu með mínar áherslur að borðinu; ég brenn fyrir málefnum ungs fólks, fræðslumálum, húsnæðismálum og bara almennt jöfnuði. Ég er náttúrlega með mína rödd en það sem ég vil gera er að heyra í þingfulltrúunum á þingi ASÍ, ég vil fylgja þeirri stefnu sem þing ASÍ setur og þeim ákvörðunum sem teknar eru á miðstjórnarfundum.

Það er mikilvægt að við hugsum vel um hvernig manneskju við viljum hafa í þessari stöðu.

ASÍ er mjög dýrmætt og er mikilvægt að forseti ASÍ hafi trúverðugleika fyrir það fyrsta, hafi áhuga á að eiga samtal við öll aðildarfélögin og meti sjónarmið allra. Það er mikilvægt fyrir hreyfinguna að allir geti fengið að tjá skoðun sína; raddir allra þurfa að heyrast. Það er mikilvægt að við hugsum vel um hvernig manneskju við viljum hafa í þessari stöðu og gleyma þá ekki að formaður VR gat ekki fordæmt hópuppsagnir skrifstofufólks þrátt fyrir að hafa átt þar félagsmenn sjálfur og vera formaður félags sem er með mikinn fjölda félagsfólks í sínu félagi.“

Ólöf Helga Adolfsdóttir

Til að hleypa öllu upp

- Auglýsing -

Að undanförnu hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum að Agnieszka Ewa Ziólkowska, þáverandi starfandi formaður Eflingar, hafi fengið aðgang að tölvupósthólfi Sólveigar Önnu Jónsdóttur og Viðars Þorsteinssonar sem höfðu þá hætt hjá félaginu. Sólveig tilkynnti svo málið til Persónuverndar. Kjarninn greindi frá því að Agnieszka hafi óskað eftir aðgangi að tölvupósthólfunum í janúar og vísað til álits frá lögmanni um leyfi til þess og hafði hún aðgang að tölvupóstinum til 13. apríl en það var stuttu eftir að Sólveig Anna hafði verið endurkjörin formaður Eflingar og sneri þangað aftur.

Tímasetningin á þessu uppþoti er beintengd þingi ASÍ.

Hvað vill Ólöf Helga segja um þetta? „Þetta eru venjulegir ferlar sem fóru þarna í gang. Við leituðum álits lögfræðinga en þau höfðu í þessu tilviki tvær vikur til þess að tæma öll einkagögn sem mögulega voru í þeim pósthólfum sem tengdust vinnunetföngum þeirra. Eftir það voru þetta í rauninni gögn félagsins enda póstar sem þau fengu vegna þeirrar stöðu sem þau gegndu. Það vantaði í rauninni bara gögn sem voru þarna inni til þess að halda áfram með ákveðin mál. Tímasetningin á þessu uppþoti er beintengd þingi ASÍ. En Sólveig Anna veit til dæmis að ég mun standa uppi á þingi ASÍ og gagnrýna þau ólýðræðislegu vinnubrögð hennar þegar hún valdi þingfulltrúa Eflingar og svo veit hún líka að hópuppsagnarmálið er algjörlega óuppgert innan ASÍ. Þannig að þetta er bara til þess að sverta mannorð þeirra sem mögulega gætu gagnrýnt hana – eða þau – á þinginu.“

 

- Auglýsing -

Rosalega skrýtið

Ólöf Helga starfaði hjá Icelandair í nokkur ár sem hlaðmaður á Reykjavíkurflugvelli og hafði verið trúnaðarmaður starfsmanna Icelandair á Reykjavíkurflugveli frá árinu 2018 og sem öryggistrúnaðarmaður Vinnueftirlitsins frá 2020 þegar henni var sagt upp í fyrra og vakti það mikla athygli. Mál hennar var tekið fyrir af Félagsdómi og rak ASÍ málið fyrir hönd Eflingar. Aðalmeðferð fór fram 27. september síðastliðinn og er enn beðið niðurstöðu.

Ólöf Helga hafði verið í stjórn Eflingar þegar hún vann hjá Icelandair og varð svo eftir uppsögnina varaformaður Eflingar um tíma. Þar gekk mikið á. Hvernig var fyrir hana að stíga þar inn eftir ólgusjóinn sem tengdist uppsögninni?

Þar fundum við hversu mikilvægt það er að innviðir ASÍ séu góðir.

„Þetta var rosalega skrýtið. Ég var náttúrlega í stjórn Eflingar og á þeim tímapunkti hafði ég ekki fengið neinar upplýsingar um að það væri einhver óánægja hjá starfsfólki skrifstofunnar. Svo ég vissi í raun ekki hvert ástandið var innan skrifstofunnar þar sem upplýsingarnar höfðu ekki borist til stjórnar. Svo þegar við Agnieszka fengum starfsemi Eflingar í fangið þá var ég að sjá það í fyrsta skipti með mínum eigin augum hvernig var komið fram við trúnaðarmenn og starfsfólkið og var það ótrúlega leiðinlegt af því að ég var náttúrlega að horfa á þetta beint út frá minni baráttu sem trúnaðarmaður. Ég átti rosalega erfitt með það því að þegar mér var sagt upp störfum sem trúnaðarmaður þá upplifði ég náttúrlega mjög mikinn stuðning frá Eflingu og það var mikið lagt í að gera þetta opinbert því að það var svo mikil ósvífni að koma svona illa fram við trúnaðarmann. Þarna var einmitt mjög mikilvægt fyrir mig og Agnieszka að geta leitað til ASÍ og þar fundum við hversu mikilvægt það er að innviðir ASÍ séu góðir; að aðildarfélög geti leitað til þeirra þegar þau eru í vandræðum eins og þarna. Við vorum mjög óreyndar en ég kynntist svo sannarlega starfsemi hreyfingarinnar á methraða og lærði ótrúlega margt. Ég á að sjálfsögðu ennþá margt ólært en ég er með mikla reynslu samt sem áður bæði sem láglaunakona – enda hef ég alltaf unnið láglaunastörf og það er mikilvæg reynsla held ég í komandi baráttu – en líka að taka við félagi sem er klofið, að ákveðnu leyti líkt og eins og ASÍ er núna.“

Ólöf Helga er spurð hvaða áhrif það hafi haft á hana að vinna í þessum hvirfilbyl.

„Ég veit það ekki. Ég varð að sjálfsögðu stundum þreytt á kvöldin. Þetta voru oft langir vinnudagar þegar maður var í þessu. Mér finnst ekkert erfitt að fá einhverjar svona leiðindasögur og ásakanir þegar ég veit að þær eru ekki sannar og þá bara leiði ég þær hjá mér. Ég á mína fjölskyldu og mína vini; ég finn líka fyrir miklum stuðningi. Þannig að þetta hefur ekki haft mikil persónuleg áhrif á mig. Ég læt ekki sögusagnir og niðurrif hafa mikil áhrif á mig.“

Ólöf Helga Adolfsdóttir

Á réttri hillu

Ólöf Helga hefur ljáð öðrum rödd sína undanfarin ár. Hvað varð til þess að hún fór þessa leið?

„Ég kom fyrst fram í fjölmiðlum fyrir rétt rúmu ári síðan eftir að mér hafði verið sagt upp hjá Icelandair og það var mjög skrýtið. Síðan þá hef ég verið mjög mikið í fjölmiðlum og verið svolítið mikil rödd fyrir ákveðinn hóp fólks allavega. Ég leiddist út í trúnaðarmannastarfið af því að mér finnst réttindi vera mikilvæg og mér finnst vera mikilvægt að við stöndum vörð um þau af því að við höfum alveg séð að ef við pössum okkur ekki þá eru atvinnurekendur meira en tilbúnir til þess að taka af okkur réttindi. Ég var í þeirri stöðu á mínum vinnustað að það var enginn tilbúinn til þess að sinna þessu starfi; síðasti trúnaðarmaður fór í annað félag þannig að ég tók þetta bara að mér af ákveðinni skyldurækni. Svo fann ég mig í þessu starfi; ég hafði gaman af því að lesa samninginn og í rauninni að eiga þetta samtal við yfirmenn.“

Hún varð trúnaðarmaður hjá Icelandair í mars 2018, hún var komin í trúnaðarráð í  nóvember og vorið 2019 var hún komin í stjórn Eflingar. Og varð svo varaformaður.

Ég hef bara unnið láglaunastörf alla mína starfsævi.

„Jú, að sjálfsögðu er ég rödd fyrir hluta af félagsmönnum Eflingar og fleira fólks. Ég hef bara unnið láglaunastörf alla mína starfsævi. Þetta var algjörlega óvart en ég finn að þetta á vel við mig. Þarna fann ég algjörlega mína hillu.“

Hún vill verða forseti ASÍ. Hvað með drauma til enn lengri tíma litið? Frami í stjórnmálum?

„Ég hef enga risastóra drauma um einhverjar stórar stöður. Ég vil endilega fá að taka þátt í að byggja upp betra samfélag fyrir okkur. Lágmarkið er að lægst launaða fólkið geti lifað af laununum sínum og að við getum öll leitað til læknis og farið til tannlæknis án þess að setja okkur í skuldir. Það þurfa ekki að vera einhverjar háar stöður til að vinna að þessu; ég vil bara fá að taka þátt.“

 

Eigum öll erindi

Ólöf Helga er spurð hvað hún hafi lært á sjálfa sig frá því hún varð trúnaðarmaður hjá Icelandair og gengið í gegnum það sem síðan tók við.

Við eigum öll erindi í stjórn og hvað sem er.

„Það sem mér finnst vera mikilvægasti lærdómurinn er að þó ég sé láglaunamannskja og í rauninni ómenntuð þá eru mínar spurningar og athugasemdir ekki vitlausar. Ég hef alveg vit á því hvað er mikilvægt fyrir mig. Það er eitthvað sem mér finnst að allt launafólk þurfi að gera sér grein fyrir varðandi sig sjálft. Við eigum öll erindi inn í stéttarfélögin okkar og við eigum öll erindi í stjórn og hvað sem er. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að raddir okkar eru mikilvægar og ekkert rangari en aðrar. Ég er að eðlisfari mjög feimin og inni í mér þannig að þegar ég fer í viðtal þá þarf ég pínu að róa mig niður en þetta hefur vanist. Ég er orðin aðeins öruggari í þessu og það gerðist nokkuð hratt. Þegar ég missti starfið hjá Icelandair þá hringdu fjölmiðlar mikið í mig og svo í kringum Eflingarframboðið þannig að þegar það voru mörg símtöl á dag þá vandist þetta. En þetta er samt ennþá svolítið óþægilegt. En ég lærði að það sem ég hef að segja á jafnmikið rétt á sér og það sem aðrir hafa fram að færa.“

Ólöf Helga Adolfsdóttir

18 ára móðir

Ólöf Helga er Hafnfirðingur og býr þar enn þann dag í dag og nú ásamt dóttur sinni og hundinum þeirra; hún segir að frítímanum verji hún með þeim, kærastanum og við spil og viðhald á heimilinu. Hún er ritari Eflingar og stjórnarmaður þar og svo er hún í stjórn ASÍ.

Ólöf Helga er fimmta í röðinni af átta systkinum. „Ég á stóra fjölskyldu og ég ólst alltaf upp við það að einn bróðir minn dó áður en ég fæddist þannig að maður lærði strax að meta lífið og vera þakklátur fyrir að vera til. Við rifumst öll systkinin þannig að ég lærði að láta ekki áreiti hafa áhrif á mig og kannski að sætta mig við það þegar maður varð undir.“

Hana dreymdi um að verða lögfræðingur. Hún hóf nám við Kvennaskólann í Reykjavík eftir grunnskólanám og 18 ára gömul eignaðist hún dóttur sína sem er 16 ára í dag.

Ég hafði áhyggjur af því að ég væri að missa barnið.

Ólöf Helga talar um það erfiðasta sem hún hefur gengið í gegnum. „Það var þegar ég var gengin 17 vikur á leið en þá byrjaði að blæða og ég hafði áhyggjur af því að ég væri að missa barnið. Það var rosalega erfitt. Ég hringdi upp á spítala og fékk spurningar sem mér fannst vera skrýtnar svo sem hversu mikið væri að blæða og hvort það væri eins og ein matskeið. Ég skil þessar spurningar í dag en á meðan ég var að ganga í gegnum mikinn ótta þá gat ég ekki skilið þær. Ég veit í dag að það er ekki pláss, starfsfólk eða fjármagn til að taka á móti öllum sem hafa áhyggjur og sem betur fer fór allt saman vel. Þetta var eitthvað sem enginn gat útskýrt en þetta var mjög erfitt og ég var mjög hrædd.“

Hvernig var að verða móðir 18 ára gömul?

„Þegar ég hugsa til baka þá var þetta yndislegur tími en ég var oft hrædd. Ég var alltaf hrædd um að hún væri ekki að anda eins og flestir kannast við sem hafa eignast börn; sérstaklega hvað vaðar fyrstu börn. Það heyrist svo lítið í þeim þegar þau eru sofandi. Ég er heppin en ég fékk mikinn stuðning frá fjölskyldunni minni og fékk að búa heima hjá mömmu og pabba fyrst eftir að hún fæddist. Ég hef alltaf getað leitað til þeirra og get það enn; ég er mjög heppin að eiga foreldra sem bæði geta og vilja hjálpa ef eitthvað er.“

Hún segist hafa verið sjálfstæð frá því hún var lítil og ól hún dóttur sína upp ein.

Ólöf Helga flosnaði upp úr námi eftir að dóttir hennar kom í heiminn.

„Ég fór nokkrum sinnum aftur í skóla og prófaði ýmislegt svo sem bifvélavirkjun og ljósmyndanám en festist aldrei af viti í neinu. Ég er að skoða hvort ég ætti að fara í háskólann í haust. Ég sé til. Ég er svolítið að pæla í félagsfræði eða lögfræði.“

Hún fór svo út á vinnumarkaðinn og áður en hún fékk vinnu sem hlaðmaður hjá Icelandair vann hún meðal annars í fimm ár sem laugarvörður í sundlaug í Hafnarfirði, hún vann sem næturvörður hjá Vöku, við umönnun, í dagvistun fyrir heilabilaða og í sjoppum.

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -