Fimmtudagur 25. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Ólöf hjá Eflingu – var rekin frá Icelandair: „Aldrei búinn að tapa fyrr en maður hættir að berjast“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég hef verið í varaformannsembættinu í tvo mánuði og mér finnst þetta mjög áhugavert starf. Á þessum tveimur mánuðum sem ég hef sinnt starfi varaformanns hef ég lært margt, bæði um sjálfa mig og um Eflingu, og ég finn bara að þetta starf á mjög vel við mig og ég vil halda áfram. Nú erum við að detta í kjarasamninga og er það stórt og mikið verkefni sem við Agnieszka Ewa Ziółkowska, starfandi formaður Eflingar og kjörinn varaformaður, erum spenntar að fara í með því öfluga fólki sem starfar í þágu Eflingar.

Ég vil styrkja stöðu trúnaðarmanna en það fordæmi sem Icelandair og SA virðast ætla að setja með því að segja upp trúnaðarmanni í haust er hættulegt öllu launafólki í landinu, trúnaðarmenn þurfa að geta treyst á uppsagnarverndina þegar þeir eru að berjast fyrir sig og félaga sína,“ segir Ólöf Helga Adolfsdóttir, starfandi varaformaður Eflingar, í viðtali við Mannlíf en hún hefur tilkynnt að hún ætli að gefa kost á sér í embætti formanns stéttarfélagsins.

Ólöf Helga hefur gegnt embætti varaformanns Eflingar frá því í nóvember eða frá því að Sólveig Anna Jónsdóttir hætti þar störfum.

Ég hef einnig mikinn áhuga á að draga meira inn unga fólkið; mér finnst mikilvægt að fá raddir þess að borðinu.

„Svo vil ég náttúrlega halda áfram því starfi sem Efling hefur unnið að síðustu ár sem lítur að þjónustu við erlenda félagsmenn og þátttöku þeirra í starfi hreyfingarinnar. Ég hef einnig mikinn áhuga á að draga meira inn unga fólkið; mér finnst mikilvægt að fá raddir þess að borðinu. Að auki vil ég vinna að því að efla enn frekar þjónustu við félagsmenn, auka lýðræði innan félagsins og tryggja aðgengi félaga að upplýsingum um starfsemi Eflingar svo eitthvað sé nefnt.“

Ólöf Helga kom að sviðinni jörð má segja í vetur eftir átök innan Eflingar og brotthvarf meðal annars þáverandi formanns. „Þetta var náttúrlega skrýtið þá og mjög krefjandi en ég hef lært ótrúlega mikið á þessum tíma og ég tel okkur bara koma sterkari til baka.“

Í tilkynningu Ólafar Helgu um framboðið segir annars eftirfarandi: „Framboð til formanns Eflingar – stéttarfélags

- Auglýsing -

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til formanns Eflingar til næstu tveggja ára, og gef kost á mér til setu í stjórn Eflingar á þeim lista sem uppstillingarnefnd mun setja saman. Ég hef verið virk í verkalýðsbaráttunni undanfarin ár og setið í stjórn Eflingar frá árinu 2019.

Frá því í byrjun nóvember sl. hef ég gegnt embætti varaformanns og starfað ásamt Agniezsku Ewu Ziólkowsku að því að halda starfsemi Eflingar gangandi í gegnum róstursama tíma eftir að þáverandi formaður félagsins sagði af sér embætti og framkvæmdastjóri sagði upp störfum. Ég varð virk í verkalýðsmálum í starfi mínu sem hlaðmaður á Reykjavíkurflugvelli, en þar vann ég í fimm ár og gegndi embætti trúnaðarmanns þar til mér var sagt upp störfum. Það er erfitt að missa vinnuna og framfærsluna, ekki síst fyrir okkur sem höfum eingöngu starfað í láglaunastörfum og eigum því ekki borð fyrir báru þegar í harðbakkann slær. En það er líka sárt að vera vísað á dyr af óljósum ástæðum, sem virðast ekki vera aðrar en þær að ég sinnti hlutverki trúnaðarmanns af alúð á tímum þar sem vegið var að kjörum og réttindum starfsfólks.

Við þessar aðstæður átti ég skjól hjá mínu stéttarfélagi sem reis upp mér til varnar. Ég þekki því af eigin raun hversu mikilvæg öflug og skipulögð verkalýðshreyfingin er launafólki andspænis ægivaldi fyrirtækja og samtaka atvinnurekenda. Ég býð mig fram til formanns Eflingar því að ég hef áhuga á að beina öllum kröftum mínum að verkalýðsbaráttu. Ásamt stjórn, samninganefnd og trúnaðarráði vil ég leiða Eflingu – næststærsta stéttarfélag landsins og stærsta félag verka- og láglaunafólks – í gegnum kjarasamninga sem eru lausir síðar á þessu ári.

- Auglýsing -

Ég vil leggja mitt af mörkum til að styrkja stöðu trúnaðarmanna og efla þá í starfi. Ég vil halda áfram því öfluga starfi sem Efling hefur unnið að síðustu ár og lýtur m.a. að þjónustu við erlenda félagsmenn og þátttöku þeirra í starfi hreyfingarinnar. Ég vil takast á við vanda ungs fólks á vinnumarkaði og þeirra sem eru utan náms og vinnu af fullum þunga. Síðast en ekki síst vil ég vinna að því ásamt stjórn og skrifstofu að efla þjónustu við félagsmenn enn frekar, byggja upp fræðslustarf, auka lýðræði innan félagsins og tryggja aðgengi félaga að upplýsingum um starfsemi Eflingar. Á næstu vikum mun ég leitast við að hitta sem flesta félagsmenn, bæði til að kynna mig og mínar hugmyndir og heyra enn betur hvað brennur á félagsmönnum. Með framboði þessu bið ég um traust trúnaðarráðs og félagsfólks Eflingar til að leiða félagið fram til baráttu næstu tvö ár.“

Aftur að Mannlífsviðtalinu. Ólöf Helga segir að ef hún nái kjöri muni hún vilja opna Eflingu þannig að hinn almenni félagsmaður fái að hafa meiri áhrif. Taki meiri þátt. „Ég myndi vilja að Efling upplýsti félagsmenn meira um hvað er að gerast á stjórnarfundum; hvað félagið er að gera og af hverju fólkið er í verkalýðsfélagi. Mér finnst vera mikilvægt að auka stéttarvitund hjá fólki; vitund um það hvað er að vera í stéttarfélagi og að það geri sér grein fyrir réttindum sínum og skyldum. Svo snýst þetta að sjálfsögðu um aukin lífsgæði fólks og að minnka misskiptingu á bæði auð og lífsgæðum. Ég vil bara að við gerum betur.“

Svo lærði ég það þegar ég varð eldri að maður þarf sjálfur að stíga fram og tala ef maður vill að eitthvað breytist.

Sú sem vill verða formaður Eflingar segist vera feimin og hlédræg og að hún hafi læðst með veggjum í grunnskóla. „Ég hef alltaf verið voðalega feimin og hlédræg manneskja,“ segir Ólöf Helga og kannast ekki við áberandi leiðtogahæfileika á árum áður þótt hún hafi fundið fyrir ákveðinni ábyrgðartilfinningu og mikilli réttlætiskennd í gegnum tíðina. „Svo lærði ég það þegar ég varð eldri að maður þarf sjálfur að stíga fram og tala ef maður vill að eitthvað breytist. Maður getur ekki bara beðið eftir því að einhver annar geri það.“

Hún segir að ástæða þess að hún varð trúnaðarmaður hjá Icelandair sé að þáverandi trúnaðarmaður vildi hætta og þar sem enginn hafði áhuga á að taka stöðuna að sér þá hafi hún gert það af skyldurækni. „Það þurfti einhver að gera þetta. Ég veit alveg að þetta er mikilvægt starf. Þetta er ekki eftirsótt, en það er mikilvægt. Svo er ég þannig að ef ég tek eitthvað að mér þá geri ég það eins vel og ég get og ég tek það mjög alvarlega.“

Ólöf Helga Adolfsdóttir

Er enn reið

Ólöf Helga komst í fréttirnar í fyrra eftir að Icelandair sagði henni upp, en hún hafði verið trúnaðarkona í hlaðdeild Icelandair á Reykjavíkurflugvelli. Í viðtali við Mannlíf í fyrrahaust sagði hún: „Ég var búin að vera trúnaðarmaður í rúm þrjú ár, en undanfarna mánuði hafði ég verið að vinna í ákveðnum málum fyrir hlaðdeildina, bæði varðandi breytingu á vaktaplani og svo færslu á ákveðnu starfi sem snýr að þjónustu við hreyfihamlaða farþega.

Í rauninni var ég í sumarfríi þegar ég fékk símtal frá yfirmanninum mínum um að ég ætti von á uppsagnarbréfi; ég var í heimsókn hjá félögum mínum í hlaðdeildinni og var því á Reykjavíkurflugvelli. Ég fékk svo uppsagnarbréfið í hendurnar fimm dögum seinna. Ég hef ekki fengið neinar almennilegar ástæður fyrir uppsögninni nema að stöðvarstjórinn nefndi í símtalinu við mig að um trúnaðarbrest væri að ræða og tilkynnti svo samstarfsfólki mínu að mér hafi verið sagt upp störfum vegna alvarlegs trúnaðarbrests. Ég fékk síðan þær upplýsingar á fundi að ástæða uppsagnarinnar væri samskiptaerfiðleikar sem ég tel ekki nægilega góða ástæðu til þess að segja upp trúnaðarmanni. Icelandair heldur því fram að þau hafi ekki vitað að ég væri trúnaðarmaður þrátt fyrir að ég sé búin að vera í stöðugum samskiptum við þau sem trúnaðarmaður síðastliðna mánuði vegna ágreiningsmálanna sem ég nefndi áðan. Ef ég hefði aðgang að tölvupóstinum mínum hjá flugfélaginu þá gæti ég sýnt fram á það að Icelandair vissi sannarlega að ég var trúnaðarmaður og var í virkri réttindagæslu fyrir samstarfsmenn. Svo var ég líka öryggistrúnaðarmaður frá september 2020 og hefur Efling það staðfest frá vinnueftirlitinu að ég var skráður öryggistrúnaðarmaður.“

Ólöf Helga sagðist í viðtalinu ekki kannast við trúnaðarbrest í starfi og þegar hún var spurð um samskiptaerfiðleika sagði hún: „Ég verð að viðurkenna að ég er náttúrlega mannleg og ég get alveg hafa verið pirruð einhvern tímann; sérstaklega þegar við vorum í miðri baráttu um réttindamál þar sem ég, fyrir hönd hlaðdeildarinnar, mótmælti því að Icelandair gæti einhliða ákveðið að setja ábyrgð á starfi sem tilheyrir annarri deild yfir á okkar deild bara af því að þeim datt það í hug. Starfið sem um ræðir er mikilvægt og allir starfsmenn sammála um mikilvægi þess að sinna því starfi vel en tækjakostur til verksins er ekki viðunandi og starfið í rauninni hættulegt. Ég tel þá hvernig breytingin var tilkynnt hafa skapað mjög erfitt andrúmsloft en það var gert þannig að yfirmenn ákváðu þessa breytingu einhliða og kynntu hana þannig að starfsfólk var kallað á fund og okkur tilkynnt að frá þeim degi væri starfið á okkar ábyrgð; ekkert samtal heldur bara ákvörðun sem yfirmenn tóku.“ (https://www.mannlif.is/frettir/olof-helga-var-rekin-ur-starfi-hja-icelandair-eg-verd-ad-vidurkenna-ad-eg-er-natturlega-mannleg/)

Ég lærði ótrúlega mikið af þessu þótt þetta hafi verið erfitt og leiðinlegt, en það skilaði mér hingað, þar sem ég er núna.

Ólöf Helga segist enn vera reið vegna uppsagnarinnar hjá Icelandair. „Fyrst var ég náttúrlega í sjokki, sérstaklega af því að ég kannaðist ekki við ástæðurnar sem voru gefnar upp. Ég get að sjálfsögðu verið ákveðin og það var mitt starf sem trúnaðarmaður að berjast fyrir réttindum samstarfsfélaga minna og mínum eigin. Ég var hissa og ég skildi þetta ekki. Svo var ég í rauninni bara sár. Ég hafði byrjað að vinna hjá Flugfélagi Íslands sem varð svo Air Iceland Connect og það var í rauninni lítið fyrirtæki og stemmingin var á þá leið að við hjálpuðumst öll að og við vorum eins og ein fjölskylda. Það átti að vera þannig áfram eftir að Icelandair tók yfir, en það breyttist einhvern veginn. Ég er leið yfir því hvernig þetta fór allt saman og hvernig áhrif þetta hefur haft á vinnustaðinn. Það var ótrúlega gott að vita að maður gat leitað til stéttarfélagsins, Eflingar, og finna fyrir þeim stuðningi. Ég er gífurlega þakklát fyrir það og vil halda áfram því starfi. Ég lærði ótrúlega mikið af þessu þótt þetta hafi verið erfitt og leiðinlegt, en það skilaði mér hingað, þar sem ég er núna.“

Ólöf Helga segist ekki lengur vera sár út í Icelandair vegna uppsagnarinnar. „Ég er eiginlega bara reið yfir þessu broti á réttindum launafólks. Ég er bara reið yfir þessari árás. Ég er reið yfir því að Icelandair fái að ráðast svona á réttindi launafólks og það með fullum stuðningi Samaka atvinnulífsins. Ég bara kemst ekki yfir það.“

Hún segir að það hafi hjálpað hvað hún fann mikinn stuðning eftir uppsögnina.

„Ég hafði gífurlegan stuðning frá stéttarfélaginu, Eflingu, og ég fann fyrir gífurlegum stuðningi frá fólki í landinu. Það voru stuðningsyfirlýsingar svo sem frá öllum flugstéttunum, frá Rafiðnaðarsambandinu, ASÍ- UNG og Sameyki. Frá fjölda fólks.“

Maður er aldrei búinn að tapa fyrr en maður hættir að berjast.

Hvað lærði hún af þessu öllu?

„Ég lærði helling. Ég lærði sérstaklega að maður á ekki að gefast upp ef maður veit að það sem maður er að berjast fyrir er mikilvægt. Ekki leyfa atvinnurekendum að stjórna samtalinu og að réttindi okkar, þau sem við göngum að sem vísum og margir telja að séu sjálfsögð, gætu verið í hættu ef við erum ekki á varðbergi. Réttindabarátta verkalýðsins er langtímaverkefni og við megum ekki gefast ekki upp þó að það líti stundum út fyrir að maður sé að tapa. Maður er aldrei búinn að tapa fyrr en maður hættir að berjast.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -