Gönguleiðir að gosinu í Meradölum verða lokaðar í dag líkt og undanfarna daga. Slæmt veður var á svæðinu í gær og sendi Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra frá sér tilkynningu þar sem kom fram að aðgengi að gosstöðvunum yrði lokað. Hópur fólks lenti í ógöngum á Fagradalsfjalli í gær en komst til byggða með hjálp björgunarsveita.

Mynd: Reynir Traustason
Búist var við að gosstöðvar yrðu opnaðar á ný klukkan tíu í dag. Veður er enn slæmt og því tekin ákvörðun um að halda stöðvunum lokuðum þar til lægir. Töluvert er um að fólk fari með börn sín upp að gosinu en hafa nokkur örmagnast á leiðinni. Mannlíf greindi í gær frá tillögu Kolbrúnar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins. Sagði hún réttast að foreldrar taki fyrirmælum yfirvalda alvarlega þegar þau eru beðin um að fara ekki með börn að gosstöðvunum.