Opna Jaja Ding Dong stað á Húsavík

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Óhætt er að segja að sannkallað Ja Ja Ding Dong æði hafi runnið á þjóðina eftir frumsýningu Eurovision-kvikmyndar Wills Ferrell þar sem aðalpersónurnar Lars og Sigrit flytja samnefnt lag við tilfinningaþrungnar undirtektir Húsvíkinga í einu eftirminnilegasta atriði myndarinnar. Nú hafa tveir félagar séð sér leik á borði og opnað veitingastað á Húsavík sem heitir Jaja Ding Dong Húsavík. Í samtali við Mannlíf segjast þeir vonast til að staðurinn falli landsmönnum jafn vel í geð og lagið vinsæla.

„Þetta fer vel af stað og við erum bara ótrúlega spennt fyrir sumrinu,“ segir Örlygur Hnefill Örlygsson, safnstjóri Könnunarsafnsins á Húsavík og hótelstjóri Húsavík Cape Hotel, þegar hann er spurður að því hvernig staðnum JaJa Ding Dong Húsavík hafi verið tekið.

Örlygur og félagi hans Leonardo Piccione fengu þá bráðsnjöllu hugmynd að opna staðinn eftir að hafa séð kvikmynd Wills Ferrel, Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, þar sem samnefnt lag er flutt af aðalpersónunum Lars og Sigrit, en það hefur notið mikilla vinsælda á íslandi.

„Staðurinn var reyndar bara opnaður klukkan tvö í dag og við fengum sólskin í einhverja fjóra tíma en svo fór að rigna og þá buðum við gestunum okkar bara að setjast í bókastofuna á Cape Hotel. Jaja Ding Dong Húsavík er nefnilega útistaður sem er auðvitað glórulaus viðskiptahugmynd á Íslandi,“ segir Örlygur og hlær.

Að hans sögn verður boðið upp á kaffi á staðnum, kökur, kakó og bökur, bjór og annað áfengi. „Svo er auðvitað kokteill staðarins Double Trouble,“ tekur hann fram, sem er vísan í annað vinsælt lag úr myndinni.

Ég er búinn að vera að taka á móti ferðafólki í 14 ár, og við höfum verið með hópamat gegnum árin, en þetta er nýtt ævintýri fyrir okkur, segir Örlygur um opnun staðarins Jaja Ding Dong Húsavík. Með honum á myndinni er Leonardo Piccione.

Spurður hvað hafi eiginlega orðið til þess að þeir ákváðu að opna staðinn segir Örlygur að þeir Leonardo séu báðir miklir aðdáendur Eurovision og hafi orðið verulega leiðir þegar keppnin var slegin af í ár.

„En svo kom þessi fallega mynd sem var eins og ástaróður um heimabæ okkar,“ segir hann, „og okkur fannst ekki hægt annað en að gera eitthvað með þessa frábæru sögu sem var lögð upp í hendurnar á okkur.“ En eins og þeir vita sem til þekkja þá er Húsavík heimabær aðalpersónanna og myndin gerist að miklu leyti þar.

Þið hafið ekkert þurft samþykki höfunda myndarinnar fyrir nafngiftinni? „Nafnið er reyndar ekki alveg það sama og nafn lagsins þar sem staðurinn heitir Jaja Ding Dong Húsavík,“ bendir Örlygur þá á, „en við teljum að nafngiftin falli í kramið hjá rétthöfum myndarinnar, enda erum við að heiðra þetta magnaða lag.

Svo erum við að vinna í því að koma upp Eurovision-safni hérna og munum vera í sambandi við framleiðendur og handritshöfunda myndarinnar um aðkomu að því á síðari stigum. Það væri gaman að segja aðeins frá myndinni á slíku safni.“

„Við teljum að nafngiftin falli í kramið hjá rétthöfum myndarinnar, enda erum við að heiðra þetta magnaða lag.“

Eins og kunnugt er kom fjöldi Húsvíkinga að gerð myndarinnar á sínum tíma, og því ekki úr vegi að spyrja Örlyg í lokin hvort hann hafi kannski verið einn þeirra? „Nei,“ svarar hann og hlær, „en bæði Jóhanna kona mín og Örlygur nafni minn og faðir fóru með smáhlutverk í myndinni. Aftur á móti hitti ég bæði Will Ferrell, sem kíkti hingað á hótelið til mín, og Pierce Brosnan, sem kom í tvo tíma að skoða Könnunarsafnið. Það var ótrúlega gaman að spjalla við þá.“

Hann bætir við að hann og heimamenn flestir séu þeim og öðrum aðstandendum myndarinnar gríðarlega þakklátir, þar sem myndin sé auðvitað frábær kynning fyrir Húsvík. „Ég vona bara að sem flestir kíki á hana,“ segir hann glaðlega, „hún er alveg mögnuð.“

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -