Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Ör fjölgun vegglistaverka í Reykjavík: „Við gerum þetta fyrir okkur sjálfa og alla hina“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Mynd. Skjáskot/Reykjavíkurborg

Á síðustu árum hefur vegglistaverkum fjölgað mikið í Reykjavík og sífellt fleiri sækjast eftir því að hafa list af þessu tagi í sínu nánasta umhverfi. Stefán Óli og Arnór Kári eru meðal ótal margra listamanna sem standa á bak við ýmis verk í borginni en þeir voru að klára stóra mynd við Sundahöfn.

Stefán og Arnór hófu samstarf sitt nú í sumar þegar þeir tóku að sér að vinna nokkur verk á vegum Reykjavíkurborgar, Torg í biðstöðu og verkið í Sundahöfn.

„Ég er búinn að krota á veggi síðan ég var krakki en það var ekki meðvituð ákvörðun að verða listamaður,“ segir Stefán í samtali við Hrund Þórsdóttur, upplýsingafulltrúa Ráðhúss Reykjavíkur.

„Nei, þetta er bara eitthvað sem maður er að gera og heldur því svo áfram af því manni finnst það ganga vel,“

bætir Arnór við. „Ég útskrifaðist úr Listaháskólanum í myndlist, en ég var svo sem ekkert að læra þetta þar.“

Fólk virðist njóta vegglistarinnar
Þeir segja misjafnt hvernig verkin verði til. Stundum leiti fólk til þeirra en oft hafi þeir sjálfir

Mynd. Skjáskot/Reykjavíkurborg

frumkvæði að því að fá að mála á veggi sem henta vel til þess.

- Auglýsing -

„Þegar við bönkum upp á hjá fólki hefur það oft ekki áttað sig á að það sé með fínan vegg til að mála á en þegar maður bendir á það finnst fólki það geggjuð hugmynd,“ segir Arnór.

„Við spyrjum fyrst hvort við megum mála og síðan reynum við að finna einhverjar leiðir til að fjármagna það,“ segir Stefán. „Þegar við byrjuðum á þessum vegg var ekki víst að hann yrði styrktur. Við gerum þetta fyrir okkur sjálfa … og alla hina!“

Gera eitthvað fyrir hverfið

- Auglýsing -
Mynd. Skjáskot/Reykjavíkurborg

Verkið í Sundahöfn blasir við langt að og breytir ásýnd svæðisins mikið. Fólk sem vinnur í nágrenninu hefur þakkað Stefáni og Arnóri fyrir, en einnig hafa þeir fengið viðbrögð til dæmis á samfélagsmiðlum og í heita pottinum í sundlauginni, þar sem þeir láta oft líða úr sér eftir annasama daga.

„Við erum allavega búnir að gera eitthvað fyrir hverfið og fólk virðist njóta þess,“ segir Stefán hógvær. „Þetta umbreytir svæðinu, sem var markmiðið.“

Arnór tekur undir. „Þetta hefur verið dálítið falinn blettur í borginni. Fólk er ekkert mikið að þvælast um á gámasvæðinu, en þetta gefur mikið líf og sést langt að. Í dag eru eiginlega allir spenntir fyrir þessu,“ segir Stefán.

„Eftir því sem fleiri vegglistaverk eru máluð, því betur áttar fólk sig á því hversu notalegt er að hafa myndlist í umhverfinu,“ segir Arnór. „Auðvitað vill einn og einn hafa allt hvítt og grátt, en ég sé þetta þannig að þótt einhver máli mynd sem ég er kannski ekkert hrifinn af persónulega, út frá einhverri listrænni skoðun, þá finnst mér samt betra að hafa mynd en bara hvítan vegg. Svo er líka alltaf hægt að mála nýtt.“

Óhefðbundnar vinnuaðstæður
Það má segja að vinnuaðstæður Stefáns og Arnórs séu óhefðbundnar. Nýjasta verk þeirra er í Sundahöfn er á 500 fermetra vegg, sem nær upp í um 45 metra hæð og til að komast að honum þarf að príla upp nokkra stiga, sem verða brattari eftir því sem ofar dregur. Þetta eru vinnuaðstæður sem listamennirnir þurfa að venjast, sem getur tekið á við hin ýmsu veðurskilyrði.

Þeir félagar segja verk á borð við þetta taka um tvær vikur í vinnslu ef veður er alltaf gott og þá er miðað við langa vinnudaga.

„Svo vorum við miklu lengur að hanna vegginn og skipuleggja hann,“ segir Stefán. „Mesta vinnan var að koma öllu á staðinn. Þetta eru oft krefjandi aðstæður og hér var ekki hægt að mæta bara með skotbómulyftu á staðinn og byrja. Við þurftum að koma öllu draslinu hingað upp, finna út hvernig við gætum hengt festingar fyrir lyftuna upp á þakið, hagræða alls konar köplum og svo framvegis.“

Stefán segir að verkið hafi gengið eins og í sögu þrátt fyrir erfiðar lægðir inn á milli.

„Þetta var bókstaflega eins og í ævintýrasögu,“ bætir Arnór við. „Það gekk á ýmsu og var rok og rigning nánast allan mánuðinn, en þetta hafðist með þrautseigju.“

Ekki það auðveldasta
Að sinna listsköpun utandyra á Íslandi er kannski ekki það auðveldasta en þeir félagar segja það ágætt yfir sumartímann. Erfiðast sé þegar óvissa um veður sé mikil enda kosti sem dæmi mikið að leigja lyftu.

„Þessu tiltekna verkefni hér lýsi ég eins og fjallgöngu,“ segir Arnór. „Maður veit eiginlega ekkert; kemur upp á einhverja hæð og heldur að maður sé að ná toppnum en svo er fjallið miklu hærra og þannig heldur það áfram. Maður verður að taka eitt skref í einu. Taka til dæmis veðrinu eins og það er. Þetta er þolinmæðisverk.“

Fjallgangan er viðeigandi myndlíking því um líkamlega erfiðisvinnu er að ræða.

„Við tökum jógaæfingar og teygjur uppi á lyftunni, teygjum á bakinu og svona,“ segir Arnór. „En ég hef alltaf gaman af því sem er líkamlega krefjandi, svo fyrir mér er veggjalist fullkomin blanda af líkamsrækt og listsköpun,“ bætir Arnór við.

„Þetta er líka mjög skemmtilegt þegar veðrið er gott,“ segir Stefán. „Og svo er gaman þegar verkin fá að njóta sín og standa í einhvern tíma. Ég hef ekki verið mikið fyrir að halda listsýningar þar sem maður setur upp myndir en þarf að taka þær strax niður aftur.“

Hægt er að lesa fréttina í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -