Fimmtudagur 12. september, 2024
8.8 C
Reykjavik

Orð og gerðir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í vikunni var haldin alþjóðleg ráðstefna í Hörpu um áhrif #metoo-hreyfingarinnar og hvernig vænlegast sé að halda áfram með það sem hún hratt af stað.

Þar komu fram heimsfrægir fyrirlesarar og átta hundruð manns voru skráð sem þátttakendur. Engu að síður hefur furðu lítið farið fyrir fréttaflutningi af því sem þar fór fram. Allir fjölmiðlar slógu því hins vegar upp að erlendir fjölmiðlar hefðu birt fréttir af ráðstefnunni – áður en hún hófst – var það tilgangurinn? Snýst hið margrómaða íslenska jafnrétti kynjanna eingöngu um það að vekja athygli umheimsins?

Það er ljótt að segja það en stundum læðist að manni að það sé akkúrat málið og atburðir síðustu daga draga ekki úr þeim grun. Haldinn var mótmælafundur við Héraðsdóm til að vekja athygli á því að 65% nauðgunarkæra fara aldrei fyrir dóm, þannig að nauðgun er nánast refsilaust athæfi á Íslandi jafnréttisins. Og til að bíta höfuðið af skömminni var svo Bergþór Ólason, sá sem gekk lengst í kvenfyrirlitningunni á Klausturfundinum fræga, kosinn for­maður um­hverfis- og sam­göngu­nefndar. Reyndar bara með eigin atkvæði og atkvæði samflokksmanns síns, aðrir nefndarmenn sátu hjá í mótmælaskyni, en niðurstaðan er sú sama. Maður sem hefur orðið uppvís að grófustu tegund kvenfyrirlitningar hlýtur stöðu sína aftur án þess að aðrir þingmenn þykist geta nokkuð í því gert. Þannig er staðan á Alþingi í jafnréttisparadísinni Íslandi.

„Enn og aftur vaknar spurningin: fyrir hverjar er þetta margumtalaða jafnrétti? Ekki er það fyrir þolendur nauðgana, ekki fyrir fatlaðar konur og ekki fyrir alþingiskonur heldur, virðist vera, ef samstarfsmenn þeirra komast upp með það að niðurlægja þær gróflega án þess að það hafi neinar afleiðingar.“

Ekki batnaði ástandið þegar ein af fáum fréttum af fyrrnefndri ráðstefnu snerist um það að einungis þrjátíu af átta hundruð þátttakendum hefðu sótt erindi um kynferðislegt ofbeldi gegn fötluðum konum, það vakti ekki áhuga þeirra. Enn og aftur vaknar spurningin: fyrir hverjar er þetta margumtalaða jafnrétti? Ekki er það fyrir þolendur nauðgana, ekki fyrir fatlaðar konur og ekki fyrir alþingiskonur heldur, virðist vera, ef samstarfsmenn þeirra komast upp með það að niðurlægja þær gróflega án þess að það hafi neinar afleiðingar. Snýst þetta jafnrétti þá bara um það að hafa jafnmargar konur og karla í opinberum nefndum og stjórnum fyrirtækja og borga þeim sömu laun og körlunum? Er það rétt sem stundum heyrist að jafnrétti sé bara ætlað vel menntuðum, hvítum, miðaldra konum í góðum stöðum, þær sem minna megi sín séu ekki með í myndinni, enda myndi staða þeirra setja töluvert stóran skugga á ímyndina um jafnréttisparadísina?

Nú vitum við auðvitað að hugmyndin um jafnrétti einskorðast ekki við að velstæðar konur geti komist áfram, við erum að tala um jafnrétti fyrir allar konur hvar sem þær standa í þjóðfélagsstiganum. En þessar staðreyndir segja okkur samt að pottur framkvæmdar þeirrar hugmyndar er mölbrotinn. Það dugar skammt að skýla sér á bak við það að þetta séu reglur – skráðar eða óskráðar – og bara ekkert hægt að breyta því. Orðum og hugsjónum verða að fylgja gerðir, annars eru þau fullkomlega ómarktæk.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -