Fimmtudagur 7. desember, 2023
2.1 C
Reykjavik

Orðin eru okkar kastalar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skoðun
Eftir / Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur

Samskipti við og í gegnum tölvur og snjalltæki eru orðin stór hluti okkar daglega lífs. Hingað til hefur megnið af þessum samskiptum þurft að fara fram á öðrum tungumálum en íslensku. Máltækniáætlun fyrir íslensku er ætlað að sjá til þess að íslenska verði nothæf og notuð í stafrænni tækni, það er í samskiptum manns við tölvur og snjalltæki en ekki síður í samskiptum manns í gegnum tölvur og snjalltæki. Þetta þurfum við að gera einfaldlega vegna þess að það sem er ekki notað, gleymist og týnist. Ef ekki er hægt að nota íslensku á svona fyrirferðarmiklu sviði daglegs lífs er hætta á því að við töpum tungumálinu okkar.

Til þess að þetta verði að veruleika skiptir miklu máli að byggja upp nýsköpunarsamfélag í máltækni á Íslandi. Ef við berum þetta ferli saman við það að byggja hús, þá má segja að grunnurinn að allri nýsköpun í máltækni á íslensku séu málföng; gögn fyrir íslensku á borð við risamálheild og ákveðin grunntól sem gera rannsakendum kleift að vinna með tungumálið. Ofan á þennan grunn má síðan steypa sjálft húsið, hinar svokölluðu kjarnalausnir; talgreini, talgervil, vélþýðingar og málrýni. Þegar húsið hefur verið steypt taka nýsköpunarfyrirtæki og fleiri rannsakendur síðan við og nýta þessar kjarnalausnir, gögn – tól – hugbúnað, og smíða ofan á þær máltæknilausnir fyrir neytendamarkað, sem við síðan notum til dæmis til að geta átt samskipti við heimabankann okkar með tali í stað þess að skrifa á lyklaborð.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO, sagði í innsetningarræðu sinni árið 1980 að orðin væru kastalar okkar Íslendinga, að við hefðum aldrei gleymt að setja í orð allan hag okkar og alla hugsun, og að orðin væru hinn eini varanlegi efniviður sem við ættum. Þarna tókst Vigdísi, eins og svo oft fyrr og síðar, að kjarna mikilvægi tungumálsins fyrir okkur Íslendinga. Hún lagði áherslu á að það væri íslensk tunga, öðru fremur, sem gerði okkur að Íslendingum, væri okkar raunverulega sameiningartákn og sameiningarafl.

Það er því sameiginlegt verkefni okkar allra að sjá til þess að við getum áfram tjáð hugmyndir okkar og hugsanir á móðurmálinu, um leið og við opnum dyrnar og sýnum þeim sem vilja tileinka sér tungumálið umburðarlyndi og veitum þeim þá hjálp sem þeir þurfa til að læra það. Það er stundum auðveldara að varðveita það sem hægt er að snerta, það sem er hlutbundið, heldur en það sem er óhlutbundið. Með því að byggja upp samfélag nýsköpunar í máltækni á Íslandi mun okkur vonandi takast að vernda orðin, kastalana okkar, um leið og við byggjum íslenskunni nýtt hús.

Höfundur er framkvæmdastjóri Almannaróms – Miðstöðvar um máltækni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -