Föstudagur 19. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Óttaðist að fólki fyndist hún ógeðsleg

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Druslugangan verður farin í níunda sinn í dag en tilgangur hennar er að sýna brotaþolum kynferðisofbeldis samstöðu og krefjast betra réttarkerfis og bætts samfélags. Að göngu lokinni verður skipulögð dagskrá á Arnarhóli, tónlistaratriði og ræðuhöld en meðal þeirra sem taka til máls er Sigrún Bragadóttir sem hefur meðal annars vakið athygli fyrir að tala opinskátt um afleiðingar kynferðisofbeldis sem hún varð fyrir.

„Ég ætla að tala um bataferli í kjölfar kynferðisofbeldis og hvað þetta ferli getur verið misjafnt eftir brotaþolum. Það er nefnilega alltaf verið að draga upp þá staðalímynd af brotaþolum að þeir séu einir grátandi úti í horni, á meðan raunveruleikinn er sá að brotaþolar eru jafnólíkir og þeir eru margir og þeir koma sér upp alls konar bjargráðum til að komast af. Til að þrauka. Nokkuð sem mér finnst mikilvægt að benda á þar sem þetta gleymist gjarnan í umræðunni um þolendur kynferðisofbeldis,“ segir Sigrún.

Sigrún talar af reynslu því hún lenti í kynferðisofbeldi fyrst þegar hún var barn þegar maður sem tengdist henni í gegnum fjölskylduna misnotaði hana. Hún varð einnig fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi frænda síns, henni var byrlað ólyfjan í menntaskóla og hún var áreitt kynferðislega á skólaballi þegar hún var í 8. bekk. Sigrún var orðin fertug þegar hún viðurkenndi þetta loks fyrir sjálfri sér og leitaði hjálpar hjá Stígamótum. Síðan þá hefur hún unnið úr afleiðingum kynferðisofbeldisins með ýmsum hætti og meðal annars haldið úti rafrænni dagbók utan um bataferli sitt á Twitter undir myllumerkinu #BataferliSigrúnar.

Í sjósundi í Nauthólsvík. „Ég fór að stunda sjósund sem hluti af bataferlinu mínu.“

Átti erfitt með að opna sig um ofbeldið
„Rafræna dagbókin var fyrst hálfgert tilraunaverkefni í kjölfar Druslugöngunnar árið 2016, eða um það leyti sem ég fór í veikindaleyfi í vinnunni vegna afleiðinga kynferðisofbeldins sem ég varð fyrir, en í henni ákvað ég að fjalla á heiðarlegan hátt um það hvernig ég hafði verið að takast á við þessar afleiðingar,“ lýsir hún. „Þetta var mjög erfitt skref þar sem ég er ekki mikið gefin fyrir athygli þrátt fyrir að vera svolítil brussa, í jákvæðum skilningi orðsins. Mér fannst líka erfitt að ætla að taka mér þetta pláss fyrir mínar hugsanir og mína tilveru. Ég var svo sannfærð um að ef ég deildi reynslu minni og hugsunum með öðrum sæi fólk hvað ég væri raunverulega ömurleg og viðbjóðsleg og það myndi ekki vilja vita meira af mér. Ég vissi þá ekki að það er eitt einkenni á afleiðingum kynferðisofbeldis að þolendur eru stöðugt að passa upp á ímyndina því þeir eru svo hræddir við viðbrögð annarra. Hræddir við að vera hafnað.“

„Ég var svo sannfærð um að ef ég deildi reynslu minni og hugsunum með öðrum sæi fólk hvað ég væri raunverulega ömurleg og viðbjóðsleg og það myndi ekki vilja vita meira af mér.“

Sigrún segir dagbókina hafa verið æfingu í því að berskjalda sig á öruggan hátt því hún hafi ráðið nákvæmlega hvað hún sagði frá miklu. Og þvert á það sem hún bjóst við voru viðtökurnar góðar. „Ég fann óvænt fyrir meðbyr. Þá er ég ekki að tala um að einhver klappstýrufögnuður hafi brotist út heldur tengdu margir við það sem ég sagði og þar af leiðandi fékk ég á tilfinninguna að ég væri ekki ein á þessari vegferð. Að þetta hjálpaði öðrum. Að ég gæti veitt öðrum von með því að segja frá því hvernig ég hef unnið mig út úr þessu, líka frá mistökunum sem ég hef gert og hvernig líf mitt er í dag. Því án þess að ætla að hljóma eins og einhver amerísk fimmaurasálfræði og segja fólki hvað það á að gera þá finnst mér mikilvægt að sýna fólki að það er alltaf von. Von um bata. Von um betra líf. Að von er ekki einhver óraunhæfur draumur, heldur getur hún fleytt fólki ansi langt.“

Sigrún hefur vakið athygli fyrir að tala opinskátt um afleiðingar kynferðisofbeldis sem hún varð fyrir. Mynd/Hákon Davíð Björnsson

Skilningslausir ráðamenn
Sigrún bætir við að markmiðið með dagbókinni hafi þó ekki síður verið að skera upp herör gegn þögguninni sem umlykur kynferðisbrot í íslensku samfélagi. „Það er alltaf verið að senda okkur þau skilaboð að halda kjafti og vera sæt, því þá erum við ekki fyrir og ekki til vandræða. Nú eru alls konar byltingar í gangi til að ögra þessari þöggun og ekki veitir af. Það er nefnilega ótrúlega sorglegt hvernig ráðamenn þjóðarinnar virðast líta á þessi mál. Batterí sem veita þolendum kynferðisofbeldis þjónustu berjast í bökkum, sem dæmi, sem er skelfilegt til að hugsa. Svo er líka verið að skera niður í geðheilbrigðisgeiranum. Þessi málaflokkur er bara ekki í forgangi á Alþingi, það er nokkuð ljóst.

Það er eins og þingmenn átti sig hreinlega ekki á því hversu mikilvægt er að veita brotaþolum áfallahjálp og hversu mikilvægt er að sinna fíknimeðferðum barna og unglinga svo þessi brotnu börn verði ekki brotnir fullorðnir einstaklingar sem ali aðra brotna einstaklinga. Eins og þeir skilji ekki að ef ekkert er að gert verður þetta eilífur vítahringur.“

- Auglýsing -

Heldur fast í vonina
Sigrún segist þó trúa að einhvern tímann muni ástandið lagast og bindur vonir við að unga kynslóðin taki málin í sínar hendar. „Ég er bjartsýn á það, enda hefur þessi kynslóð sem er að vaxa úr grasi sýnt að hún er meðvituð um samfélagið, að henni stendur ekki á sama og það þvert á stjórnmálaflokka. Meira að segja í Sjálfstæðisflokknum er ungt fólk sem er farið að berjast fyrir umhverfinu. Já, það eru breytingar í aðsigi og ég bind vonir við þessa ungu kynslóð sem kemur til með að taka við af minni kynslóð, þessari forréttindafirrtu kynslóð sem nú er við völd. Ég er bjartsýnismanneskja og held fast í vonina.“

„Án þess að ætla að hljóma eins og einhver amerísk fimmaurasálfræði og segja fólki hvað það á að gera þá finnst mér mikilvægt að sýna fólki að það er alltaf von. Von um bata. Von um betra líf.“

Hún segist líka, þrátt fyrir allt, trúa því að fólk sé almennt gott og það vilji almennt vel. Illska sé ekki það sama og flónska. Almennt sé fólk að reyna að gera sitt besta þótt það sé „í vanmætti“, eins og hún orðar það. Það sé stóri lærdómurinn sem hún hafi dregið af því að halda úti fyrrnefndri dagbók. Bókinni sem átti bara að vera tilraunaverkefni í viku en er enn í vinnslu heilum þremur árum síðar.

En hvaða áhrif vonast hún til að það hafi að stíga fram og taka til máls í dag að lokinni Druslugöngunni? „Í stuttu máli vona ég að ég geti vakið upp, eða minnt á vonina hjá fólki,“ segir hún. „Það er mín einlæga ósk.“

- Auglýsing -

Sjá einnig: Kom aldrei til greina að segja strax frá

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -