Páll minnist vinar og afreksmanns: „John Snorri hefði vel getað orðið geim­fari“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„John og Lína voru ein­stak­lega flott hjón. Lína stór­glæsi­leg, eld­klár, ein­beitt, harðdug­leg og skemmti­leg. John fjall­mynd­ar­leg­ur, með lokk­ana sína út um allt, brosið breitt og hlát­ur­inn smit­andi. Og líka eld­klár og dug­leg­ur, fjöl­hæf­ur og ein­hvern veg­inn gat allt sem hann tók sér fyr­ir hend­ur. Og sem hjón full­komnuðu þau hvort annað og voru sam­stiga og sam­hent í öll­um sín­um verk­efn­um,“ skrifar Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, um vin sinn Johns Snorra Sigurjónsson, sem talinn er af á ´fjallinu K-2. Páll rifjar upp þá góðu samleið sem John Snorri og Lína Móey áttu þar til yfir lauk.

Saman að sigra

„Lína Móey var gift fjall­göngu­manni sem vildi tak­ast á við mestu áskor­an­ir sem hægt er að tak­ast á við í fjalla­mennsku. Hún gaf hon­um frelsi til þess og veitti hon­um all­an stuðning sem hún gat. Verk­efnið hans varð um leið verk­efnið henn­ar. Sam­an voru þau að sigra hæstu tinda heims. Þegar John Snorri gekk á Lhot­se, fjórða hæsta fjall heims, flaug Lína út og fór á móti hon­um og gekk áleiðis í grunn­búðir Ev­erest með litla gutt­ann þeirra á öxl­inni og annað á leiðinni und­ir belti. Jafn­vel Guðrún Þór­ar­ins­dótt­ir sem á 19. öld gekk úr Hvann­döl­um fjör­una yfir í Héðins­fjörð um há­vet­ur með lítið barn á öxl­inni og annað und­ir belti hefði verið stolt af slíku ferðalagi. Og þegar John sigraði K2 sum­arið 2017 var Lína fyrst til að fagna hon­um og um leið gefa hon­um leyfi til að klífa Broad Peak, tólfta hæsta fjall heims bara nokkr­um dög­um síðar“.

Náttúrubarn

„John Snorri var magnaður fjallamaður. Nátt­úru­barn með mikla aðlög­un­ar­hæfni. Hann hafði oft sýnt það og sannað og vakið aðdáun og undr­un í heimi háfjalla­fólks og áunnið sér virðingu á skömm­um tíma, meira að segja meðal sjerp­anna sem þykja ein­stak­ir háfjallagarp­ar.

Páll Guðmundsson minnist vinar og afreksmanns.

John Snorri hafði á skömm­um tíma klifið fjög­ur af 14 áttaþúsund metra fjöll­un­um og stefndi á að klára þau öll. Auk þess hafði hann klifið fjöl­mörg önn­ur fræg fjöll, til að mynda Matter­horn þar sem hann skokkaði úr bæn­um Zermatt upp á hæsta tind á þessu fræga fjalli og til baka á rétt rúm­um fjór­um tím­um“.

Trúðum á kraftaverk

„Johns Snorra er nú sárt saknað af fjöl­skyldu, ætt­ingj­um og vin­um. Um tíma trúðum við á krafta­verk og hann kæmi gang­andi niður í grunn­búðir K2, eft­ir að eitt­hvað hafði greini­lega farið úr­skeiðis að morgni laug­ar­dags 6. fe­brú­ar sl. Nú eig­um við ekki þá von leng­ur. K2 – fjall fjall­anna, The mountain of the mountains – vildi ekki hleypa sum­ar­drengn­um okk­ar bjarta heim í faðm fjöl­skyld­unn­ar. Slík hafa orðið ör­lög margra sem klífa hæstu fjöll heims. Það er sárt og það er vont að vita ekki at­b­urðarás­ina alla. Þegar John Snorri kleif K2 2017 höfðu færri kom­ist á tind fjalls­ins en hafa farið út í geim. Fyr­ir vetr­ar­tíma­bilið núna hafði eng­inn kom­ist á tind K2 að vetr­ar­lagi. Vetr­araðstæður á K2 eru þær erfiðustu í heim­in­um sem hægt er að hugsa sér. Frostið um 50 til 60 gráður, vind­hraðinn get­ur orðið ógn­væn­leg­ur og þunna loftið yfir 8.000 metr­un­um ger­ir mann­legt líf nán­ast óbæri­legt. Fyr­ir marga get­ur verið illskilj­an­legt að leggja í slík­an leiðang­ur. Og það er kannski bara allt í lagi“.

Meira en fjallabaktería

„Maður þarf ekki að skilja allt. Maður þarf ekki endi­lega að hafa skoðanir á öllu. John var eina mín­útu að út­skýra fyr­ir mér að hann yrði að tak­ast við á við þetta verk­efni. Þetta var allt í bein­un­um í hon­um og blóðinu. Þetta var svo miklu meira en fjalla­bakt­ería sem sum okk­ar fá. Þetta var ástríða, köll­un sem hann varð að svara. John Snorri hefði vel getað orðið geim­fari. Hann hefði ekki skor­ast und­an því að að vera send­ur í geimskutlu á móts við risa­stór­an loft­stein sem stefndi á jörðina. Hann hefði gert það til að bjarga mann­kyn­inu ef hann hefði getað. Þannig hafði hann aðra sýn en við flest hin. Við hefðum legið uppi í sófa með fjar­stýr­ing­una af sjón­varp­inu og fylgst með frétt­um af geimskutl­unni. En þótt John hafi kosið að tak­ast á við áskor­an­ir sem voru okk­ur hinum ómögu­leg þá var hann fyrst og síðast elsk­andi eig­inmaður, um­hyggju­sam­ur faðir og frá­bær vin­ur“.

Lína og John Snorri.

„Og nú er sag­an þeirra orðin sag­an henn­ar Línu. Ég er viss um að það verður góð og fal­leg saga. Og þó að John sé ekki leng­ur á meðal okk­ar í lif­andi lífi, bros­andi og geislandi glaður, þá varðveit­um við í hjarta okk­ar minn­ing­ar um sann­kallaðan af­reks­mann en ekki síður ein­stak­an mann­vin og góða mann­eskju,“ skrifar Páll Guðmundsson. Grein hans birtist á mbl.is en hann gaf Mannlífi góðfúslega leyfi til að birta hana í heilu lagi.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -