Þriðjudagur 16. apríl, 2024
-1.9 C
Reykjavik

Páll Óskar gerir upp árið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Páll Óskar ætlar að enda árið með stórri flugeldasýningu.

Páll Óskar hefur sannarlega haft í nógu að snúast á árinu. Meðal annars leit ný plata dagsins ljós og fram undan eru svo stórir tónleikar í Laugardalshöllinni. Blaðamaður Mannlífs sló á þráðinn til söngvarans og spurði m.a. hvort eitthvað sérstakt standi upp úr á árinu sem er að líða.  

„Ég er ofsalega stoltur. Stoltur yfir því að hafa náð að klára nýja plötu og stoltur af tónleikunum. Þeir eru eitt það fallegasta sem ég hef gert í lífinu,“ segir Páll Óskar, þegar hann er spurður hvernig honum líði með árið sem er að líða.

„Nýja platan og svo tónleikarnir í september,“ svarar hann. „Við fengum rosaleg viðbrögð við þeim, aðallega frá fólki sem komst ekki á þá. Sem er ástæðan fyrir því að við ákváðum að halda aðra tónleika 30. desember. Gott fyrir þá sem misstu af þessu og auðvitað líka þá sem vilja upplifa þetta allt aftur.“

Tónleikarnir 30. desember lenda á laugardegi, er þá ekki viðbúið að þetta verði eitt allsherjar djamm? „Klárlega, segir hann hiklaust. „En ég er svo sem vanur því að halda stór partí á þessum árstíma. Í fyrra tróð ég til dæmis upp á Spot í Kópavogi og þar á undan spilaði ég auðvitað tólf ár í röð á Sjallanum á Akureyri. Þá var bara horft á Áramótaannálinn og Skaupið með öðru auga á meðan maður græjaði sig fyrir ballið og svo stokkið upp á svið. Mínar áramótahefðir eru því fyrst og fremst vinnutengdar.“

Páll Óskar segist fyrir löngu vera búinn að sætta sig við þetta fyrirkomulag. Þ.e. að vinna á tímum sem flestir aðrir eru í fríi. Þó sé einn dagur á ári sem hann passi sig alltaf að vera laus en það er annar í jólum. „Þá hittumst við nefnilega stórfjölskyldan, ég, systkini mín, makar, börn og barnabörn. Með öllum er þetta orðið hátt í fjörtíu manns þannig að stundum höfum við brugðið á það ráð að bóka sal til að koma öllum fyrir,“ segir hann og hlær.

„Ég nota áramótin sem mælistiku á sjálfan mig, til að skoða árangurinn minn, framfarir og afturfarir. Til að staldra aðeins við, athuga hvort ég hef náð að standa við síðustu áramótaheit, athuga á hvaða stað ég er á í dag og fara yfir það hvernig ég ætla að bæta mig á morgun.“

Áttu þá ekki einhverjar skemmtilegar minningar tengdar fjölskyldunni á áramótum? „Ja, ég á mér alla vega eina mjög eftirminnilega minningu frá því að ég var lítill, líklegast frá árinu 1981,“ segir hann hugsi. „En þau áramót enduðum ég og foreldrar mínir ein heima – aldrei þessu vant. Mamma vildi vera inni þannig að ég og pabbi fórum út að sprengja og þetta varð svona móment sem ég gleymi aldrei. Við pabbi einir í garðinum að sprengja og himininn fyrir ofan baðaður í ljósum springandi flugelda.“

Það kemur þögn í símann og blaðamaður ákveður að grípa tækifærið og spyrja hvort áramótin séu kannski sá tími árs sem töffarinn Páll Óskar verði svolítið meyr. „Meyr,“ hváir hann þá. „Öh, já svona álíka meyr og byggingaverktaki sem verður meyr við að taka fram tommustokkinn til að mæla eitthvað!“

- Auglýsing -

Hann hlær stríðnislega. En viðurkennir að áramótin séu aftur á móti ágætur tími til að líta í baksýnisspegilinn. „Ég nota áramótin sem mælistiku á sjálfan mig, til að skoða árangurinn minn, framfarir og afturfarir. Til að staldra aðeins við, athuga hvort ég hef náð að standa við síðustu áramótaheit, athuga á hvaða stað ég er á í dag og fara yfir það hvernig ég ætla að bæta mig á morgun.“

Og hvernig líður þér með árið sem er að líða? „Ég er bara ofsalega stoltur. Stoltur yfir því að hafa náð að klára nýja plötu og stoltur af tónleikunum. Þeir eru eitt það fallegasta sem ég hef gert í lífinu. Og ég hlakka til að endurtaka leikinn í desember. Að ná að enda árið með stórri flugeldasýningu.“

Texti / Roald Eyvindsson
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -