Fimmtudagur 11. ágúst, 2022
8.8 C
Reykjavik

Pálmatré rjúka út í blómaverslunum

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Vinsældir pottablóma hafa aukist á undanförnum árum og bóhemískur stíll svolítið að koma í staðinn fyrir steríla svarthvíta innanhússtísku. Lára Jónsdóttir, garðyrkjufræðingur í Blómavali Skútuvogi, segir að í ljósi umræðunnar séu pálmar til dæmis vinsælir um þessar mundir og geti dafnað vel í heimahúsum.

„Pálmarnir eru fáanlegir hjá okkur í nokkrum tegundum og heita gullpálmi, paradísarpálmi (Kentia), þráðpálmi og veifupálmi. Pálmar geta vel dafnað í heimahúsum og þegar vel tekst til þurfa þeir gott pláss. Svo vöxtur sé þokkalegur þarf góða birtu og reglulega vökvun,“ segir Lára og bætir við að áhugi á pottaplöntum til híbýlaprýði hafi aukist mikið á síðustu tveimur til þremur árum. Vinsældalistinn sé nokkuð breytilegur.

Lára Jónsdóttir, garðyrkjufræðingur í Blómavali Skútuvogi.

„Samfélagsmiðlar gefa fólki hugmyndir að notkun og uppstillingum og vegna umfjöllunar um plöntur sem hreinsa andrúmsloftið hefur töluvert verið spurt um þær. Einnig fæ ég oft spurningar um hvort þessi eða hin plantan sé eitruð fyrir hunda og ketti sem og hvort börnum stafi hætta af einhverri plöntu á heimilinu,“ segir Lára.

„Samfélagsmiðlar gefa fólki hugmyndir að notkun og uppstillingum og vegna umfjöllunar um plöntur sem hreinsa andrúmsloftið hefur töluvert verið spurt um þær.“

Auk pálmanna eru vinsælustu plönturnar til dæmis friðarlilja, indjánafjöður, veðhlaupari, flamingóblóm, mánagull og klifurhjarta. „Drekatré eru til í ýmsum gerðum og eru duglegar plöntur og bonsai vekur alltaf forvitni. Kínversk peningaplanta hefur einnig notið vinsælda upp á síðkastið sem og rifblaðka og orkídea sem er sérstaklega blómsæl. Gjarnan er spurt um hengiplöntur og oft verið að leita að plöntum sem eiga að fara í litla potta sem hanga til skrauts inni í stofu, ekki alltaf í heppilegustu birtuskilyrðum,“ segir Lára.

Í Hagnýtu pottaplöntubókinni sem Magnea J. Matthíasdóttir þýddi og Vaka Helgafell gefur út eru ítarlegar útskýringar á ræktun pottaplantna.

Ráð fyrir blómaræktendur
Í Hagnýtu pottaplöntubókinni sem Magnea J. Matthíasdóttir þýddi og Vaka Helgafell gefur út eru ítarlegar útskýringar á ræktun pottaplantna og fjallað sérstaklega um 175 tegundir. Ráð eru gefin um umhirðu, birtu- og rakastig og næringu auk þess sem í bókinni eru ýmsar hugmyndir að uppstillingu plantnanna, hvernig útbúa má skilrúm með klifurplöntum, blómahengi og blómakrans úr þykkblöðungum, svo fátt eitt sé nefnt. Þar sem áhuginn fyrir pálmatrjám hefur stórlega vaxið að undanförnu er ekki úr vegi að fá nánari upplýsingar um kentíupálma úr þessari fróðlegu bók.

Kentíupálmi er auðveldur í ræktun og því ákjósanlegur fyrir byrjendur.

KENTÍUPÁLMI
Howea forsteriana
HITASTIG 13-24°C.
BIRTA Dálítill skuggi.
RAKASTIG Hóflegt.
UMHIRÐA Fremur auðveld.
HÆÐ OG UMFANG Allt að 3 × 2 m.
Kentíupálminn hentar vel í skuggsælum herbergjum og hefur háa stilka með dökkgrænum, gljáandi blöðum sem breiða glæsilega úr sér og gera hann að áberandi miðpunkti í plöntusafni. Hann er auðveldur í ræktun og því ákjósanlegur kostur fyrir byrjendur.
VÖKVUN
Vökvið þegar efsta lag moldarinnar er orðið dálítið þurrt á vorin og haustin; vökvið heldur minna á veturna, rétt nóg til að halda moldinni eilítið rakri. Látið plöntuna standa á bakka með rökum steinvölum eða úðið blöðin á nokkurra daga fresti.
NÆRING
Notið fljótandi alhliða áburð á tveggja vikna fresti frá vori fram á haust.
GRÓÐURSETNING OG UMHIRÐA
Gróðursetjið í 20-30 cm potti með 3:1 blöndu af pottamold og kornóttum sandi. Látið plöntuna standa í óbeinu sólarljósi þar sem enginn dragsúgur er. Endurnýið efsta lag moldarinnar árlega á vorin en umpottið eingöngu ef mjög þröngt er orðið um rætur plöntunnar.

(Úr Hagnýtu pottaplöntubókinni, Vaka Helgafell 2019, bls. 132).

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -