Mánudagur 9. september, 2024
5.1 C
Reykjavik

„Raddir allra verða að fá að heyrast“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi fór ung að verða fyrir kynþáttafordómum sem hún segir að hafi aðallega verið í formi forvitni en hún hafi ekki séð það þá, en hafi áttað sig á því þegar hún líti til baka.

 

„Ég er fædd hér á Íslandi en mamma fór með mig til Englands, þar sem pabbi minn sem er ættaður frá Tanzaníu býr, þegar ég var bara nokkurra vikna gömul. Þar bjuggum við þangað til ég var sjö ára og þar sem ég talaði ekki íslensku var ég sett í nýbúadeildina í skólanum. Ég var mjög fljót að læra íslenskuna, en kunni eðlilega ekki öll orðin.

Ég man eftir atviki þegar við vorum í litastund í skólanum og einn krakkinn bað mig um að rétta sér húðlitaða litinn. Ég vissi ekkert hvaða litur það var, en áttaði mig fljótlega á því að hann var að meina litinn sem ég hugsaði um sem ferskjulitaðan. Ég hafði ekki áttað mig á því að í augum hvíta fólksins væri sá litur húðlitaður og það væri normið. Þetta hefur sennilega verið í ársbyrjun 2000, þegar ég var sjö ára, og þetta hefur fylgt mér síðan.“

Sanna segist hafa verið svo „heppin“ að hafa ekki orðið fyrir mjög grófum kynþáttafordómum, en það sé auðvitað fáránlegt að líta á það sem heppni.

„Ég hef ekki orðið fyrir mjög ljótum eða ofbeldisfullum fordómum,“ útskýrir hún. „Það var kallað á eftir mér „hey, negri, ég skeit á þig áðan,“ og svona komment, en aðallega er þetta forvitni, fólk spyr hvaðan ég sé, hvort ég sé ættleidd, furðar sig á því hvað ég tali góða íslensku og alls konar svona spurningar, jafnvel frá ókunnugu fólki. Ég hef alltaf litið svo á að ég hafi verið heppin, en ég er auðvitað farin að sjá það núna að það segir mikið um ástandið í þessum málum að líta á það sem heppni að verða ekki fyrir ofbeldi vegna litarhafts míns.“

Áreitið minnkað eftir framboðið

- Auglýsing -

Spurð hvort að hún hafi ekki orðið fyrir meiri fordómum eftir að hún leiddi Sósíalistaflokkinn í síðustu borgarstjórnarkosningum og var kosin í borgarstjórn svarar Sanna, að merkilegt nokk þá hafi hún ekki orðið vör við það.

„Eitt sem ég hef alltaf tekið eftir er að fólk á mjög erfitt með að ná nafninu mínu,“ segir hún. „Ég hef meðal annars verið spurð að því hvort Sanna sé afríska nafnið mitt en svo er ekki. En núna þegar fólk kannast meira við mann finnst því greinilega ekkert mál að ná nafninu mínu, þannig að áreitið varðandi uppruna hefur minnkað eftir að ég fór í framboð og varð meira áberandi. Ég átti alveg von á því að fá yfir mig einhverjar fordómafullar athugasemdir í kosningabaráttunni, þar sem fólk með dökkt litarhaft í opinberum stöðum hefur upplifað slíkt en ég man ekki eftir neinu slíku tilviki.“

Sanna segir þessa reynslu hafa vakið hana til umhugsunar um það hvaða einstaklingar fái að tilheyra þjóðinni.

- Auglýsing -

„Ég hef talað mjög opinskátt um reynslu okkar mæðgna af fátækt hér og það er eins og fólki finnist þá að maður hafi öðlast rétt til að vera Íslendingur. Ég veit það ekki, er enn að reyna að komast til botns í því hvernig fólk hugsar þetta. Kannski það að ég er Mörtudóttir hjálpi líka til, fólk sér þá að ég er íslensk í aðra ættina.“

Fordómar ekki bundnir við aldur

Sanna segist ekki treysta sér til að fullyrða að rasismi sé í sókn á Íslandi, kannski sé hann bara orðinn meira áberandi. Það sé erfitt að átta sig á því.

Sanna Magdalena Mörtudóttir fór ung að verða fyrir kynþáttafordómum sem hún segir að hafi aðallega verið í formi forvitni.

„Maður heldur alltaf að fordómarnir séu að minnka og vill vona það,“ segir hún. „Umræðan er að aukast og margir að tala gegn kynþáttafordómum og margir orðnir meðvitaðir um að kynþáttaflokkun gengur ekki upp á líffræðilegum grunni, en svo kemur eitthvað upp og manni líður eins og við séum komin aftur til baka og að á ýmsum stöðum sé rasisminn að aukast. Maður hélt að þetta væri aðallega eldra fólk sem hefði gamaldags hugmyndir en svo hef ég heyrt frá fólki á mínum aldri að ég og annað brúnt fólk séum ekki Íslendingar. Þannig að þetta virðist ekki vera bundið við eldri kynslóðir eða ákveðna þjóðfélagshópa.“

Sanna er með masters-próf í mannfræði og masters-ritgerðin fjallar um reynslu fólks af blönduðum uppruna af því að tilheyra íslensku samfélagi, kom eitthvað í þeirri vinnu henni á óvart?

„Konurnar upplifðu meira áreiti en karlmennirnir, bæði til dæmis að fólk væri að snerta á þeim hárið án þess að biðja um leyfi og óviðeigandi kynferðislegar athugasemdir“

„Viðmælendur mínir upplifðu mjög sterkt að þeir væru taldir öðruvísi,“ segir hún. „Og það var almenn skoðun þeirra að þótt þeir væru að hluta til með annan uppruna en íslenskan gerði það þá ekki að minni Íslendingum en aðra. Konurnar upplifðu meira áreiti en karlmennirnir, bæði til dæmis að fólk væri að snerta á þeim hárið án þess að biðja um leyfi og óviðeigandi kynferðislegar athugasemdir. Bæði kyn upplifðu það að vera oft ávörpuð á ensku, spurð hvaðan þau væru „í alvörunni“ og svo framvegis og allt hefur þetta auðvitað áhrif á sjálfsmyndina og hvernig fólk skilgreinir sjálft sig.“

Konurnar í kjallaranum sópa upp glerbrotin

Spurð hvaða ráð Sönnu detti í hug til að vinna á móti þessum fordómum og vaxandi áróðri gegn innflytjendum og þeim með erlendan bakgrunn segir hún að fyrst og fremst þurfi að auka umræðu og fræðslu.

„Við þurfum að tala mjög reglulega um þetta,“ segir hún. „Mér finnst til dæmis mikilvægt að tala nógu mikið um að hugtakið kynþáttur gengur ekki upp líffræðilega. Það er búið að afsanna að það sé líffræðilegur munur á fólki eftir uppruna og litarhætti. Þetta er menningarleg sköpun sem ber í sér félagslegan veruleika og mótar líf fólks mjög mikið. Það gengur auðvitað heldur ekki að þykjast vera litblindur og halda því fram að allt fólk sé eins og allir séu jafnir vegna þess að staðan er bara alls ekki þannig. Það eru ekki allir jafnir og það er komið fram við fólk á mismunandi hátt eftir því hvort það er talið tilheyra ákveðnum „kynþætti“ eða ekki.

„Það er búið að afsanna að það sé líffræðilegur munur á fólki eftir uppruna og litarhætti.“

Við viljum auðvitað ekki viðhalda því en við verðum samt að tala um hvaða afleiðingar þessi skipting hefur fyrir fólk og horfast í augu við það. Femínisminn, bæði hér og erlendis, gengur líka út frá stöðu hvítra miðstéttarkvenna sem fæddar eru í landinu og tala tungumálið og það gengur alls ekki. Við þurfum að taka uppruna, litarhaft, stétt, efnahagslega stöðu og aðrar félagslegar stöður inn í umræðuna. Á meðan konur í góðum stöðum eru uppteknar af því að brjóta glerþök þurfa konurnar í kjallaranum að sópa upp glerbrotin. Og það eru mjög oft konur með erlendan bakgrunn; konur í láglaunastörfum. Mér finnst mjög mikilvægt að hleypa þeim að borðinu og að raddir kvenna, af öllum uppruna, með ólíkan bakgrunn, komi saman og vinni að lausn. Það breytist aldrei neitt ef það eru bara raddir eins þjóðfélagshóps sem fá að heyrast.“

Sjá einnig: Kynþáttafordómar eru að aukast

Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Emilíanna Valdimarsdóttir förðunarfræðingur fyrir Urban Decay á Íslandi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -