Ræktum orðspor Íslands

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Skoðun

Eftir / Sigurð Hannesson

Nýta ætti hvert tækifæri til þess að auka veg íslenskrar framleiðslu og hönnunar og rækta þannig orðspor Íslands með tilheyrandi verðmætasköpun. Einstök hönnun og vönduð framleiðsla getur eflt ímynd Íslands og aukið eftirspurn á því sem frá okkur kemur.

Nú þegar íslensk húsgögn og hönnun prýða suðurstofu Bessastaða að frumkvæði Samtaka iðnaðarins er ástæða til að hvetja hið opinbera til að horfa í meira mæli til þess sem er hannað eða framleitt hér á landi. Af hverjum 100 krónum sem eytt er í íslenska hagkerfinu eyðir hið opinbera hvorki meira né minna en 40 krónum. Það segir sig sjálft að val hins opinbera í innkaupum hefur því óhjákvæmilega mikið að segja og getur haft jákvæð áhrif á uppbyggingu einstakra atvinnugreina.

Vöxtur innlends iðnaðar

Það er óhætt að fullyrða að íslenskir framleiðendur og hönnuðir standa erlendum keppinautum á sporði og uppfylla allar kröfur um gæði. Á síðustu árum hefur vegur íslenskrar húsgagnaframleiðslu vaxið enda er hönnunin listfeng og framsækin og smíðin gerð af fagmennsku. Íslenskir hönnuðir hafa getið sér gott orð og nú er hægt að velja úr fjölbreyttu úrvali íslenskra húsgagna. Það ætti því ekkert að standa í vegi fyrir því að hið opinbera beini innkaupum sínum í meira mæli til íslenskra framleiðenda og ýti þar með undir frekari vöxt innlends iðnaðar.

Það getur verið langur vegur frá fyrstu hugmynd og teikningu hönnuðar og þar til húsgagn hefur verið smíðað. En þegar handverk og hönnun fara vel saman tekst oft að skapa ný viðmið og verðmæti. Hönnun er samtal þriggja aðila sem eru hönnuður, framleiðandi og notandi. Við viljum að slíkt samtal eigi sér stað hér á landi enda getur það verið innblásið af sögu og menningu landsins og orðið til þess að byggja upp enn blómlegri iðnað. En það gerist ekki nema áhugi og eftirspurn fari saman. Þetta ættum við öll að hafa í huga og þá ekki síst þeir sem fara með fjármagn hins opinbera.

Til mikils að vinna

Það ætti að vera sjálfsagt mál að íslensk húsgögn og hönnun sjáist í öllum opinberum byggingum, ekki síst þar sem almenningur og erlendir gestir fara um í einhverjum mæli. Vinna þarf markvisst að því að gera íslenska hönnun og framleiðslu sýnilegri.

Samtök iðnaðarins hvetja til þess að íslenskt verði fyrir valinu en með því ræktum við orðspor Íslands um leið og við styrkjum efnahag landsins. Með jákvæðri ímynd getum við náð forskoti í samkeppninni við aðrar þjóðir og skapað enn meiri verðmæti hér á landi. Það gagnast öllum landsmönnum og því er til mikils að vinna.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Þegar tryggingar snúast um fólk

Tryggingafélagið VÍS hefur nýlega vakið athygli fyrir að boða nýjung á bílatryggingamarkaði, svokallaðan Ökuvísi. Ætlunin er að...