Miðvikudagur 24. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Ragna Árnadóttir, í stjórn IFRC: „Það er ekki hægt að þóknast öllum, enda ekki til þess ætlast“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég hef verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum á Íslandi í meira en 11 ár og þar af var ég varaformaður stjórnar í átta ár. Ég var kölluð til að sinna þessu alþjóðlega verkefni og ákvað að slá til, enda mikill heiður og ánægjulegt að geta gert gagn á þennan hátt. Það er áhugavert að vinna með fólki hvaðanæva að úr heiminum og hver heimsálfa á sinn fulltrúa í stjórninni svo þetta er afskaplega fjölbreytt,“ segir Ragna Árnadóttir. Rauði krossinn á Íslandi hlaut nýverið kjör til stjórnar Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC Governing Board) á aðalfundi IFRC og er Ragna fulltrúi Rauða krossins á Íslandi og verður sjálfboðaliði í stjórninni næstu fjögur ár. Rauði krossinn á Íslandi hefur einu sinni áður átt fulltrúa í stjórn IFRC en Guðjón Magnússon læknir sat í stjórninni á árunum 1989-1993.

Í stjórnarsetunni felst tækifæri af hálfu Íslands til að móta stefnu IFRC til framtíðar.

„Ég var kjörin í stjórn IFRC sem fulltrúi Rauða krossins á Íslandi. IFRC er samband allra landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans um heim allan, alls 192 félög. Í stjórninni sitja forseti, fimm varaforsetar og fulltrúar frá 20 landsfélögum. Hlutverk stjórnarinnar eru meðal annars að vera ráðgefandi milli aðalfunda IFRC, ráða framkvæmdastjóra IFRC og sjá til þess að ákvörðunum aðalfundar sé framfylgt. Í stjórnarsetunni felst tækifæri af hálfu Íslands til að móta stefnu IFRC til framtíðar og tryggja eftirfylgni við markmið alþjóðahreyfingarinnar um mannúð og óhlutdrægni um allan heim.“

Ragna segir að Rauði krossinn hafi algjöra sérstöðu. „Starfið er borið uppi af milljónum sjálfboðaliða sem þekkja best þarfir á sínum svæðum og njóta alþjóðlegs stuðnings við að mæta þeim þörfum. Samhliða er byggð upp aukin staðbundin þekking og geta til að sinna hjálparstarfi. Á átakasvæðum er Rauði krossinn því miður stundum einu alþjóðlegu hjálparsamtökin sem geta sinnt þolendum vegna sérstöðu sinnar sem hlutlauss aðila á átakasvæðum. Samhliða því að sinna lífsbjargandi mannúðaraðstoð er rætt við þá sem berjast og þeir fræddir um alþjóðleg mannúðarlög sem eru lög sem gilda í stríði til þess að koma í veg fyrir enn frekari hörmungar af völdum átakanna.“

Ragna Árnadóttir

 

Ekki hægt að þóknast öllum

- Auglýsing -

Ragna hefur víða komið við á starfsferlinum og má nefna að hún var skrifstofustjóri lagaskrifstofu í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í sjö ár auk þess að vera staðgengill ráðuneytisstjóra um tíma. Hún var svo lánuð stuttlega til forsætisráðuneytisins áður en hún var skipuð ráðherra. Hún var dóms- og kirkjumálaráðherra 1. febrúar 2009 til 10. maí 2009, dómsmála- og mannréttindaráðherra 10. maí 2009 til 2. september 2010, skrifstofustjóri Landsvirkjunar 2010–2012, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar 2012–2019 og skrifstofustjóri Alþingis frá 2019.

Hvað stendur upp úr á þeim tíma þegar hún var ráðherra og hvað lærði hún af þeim tíma? „Þetta var mikil reynsla og ótrúlegir tímar. Ég var með gott fólk í kringum mig í ráðuneytinu sem veitti mér ómetanlega aðstoð og hjálp. Margar erfiðar ákvarðanir lágu fyrir og flókin álitamál. Í slíkum tilvikum er gott að geta hugsað málin vel út frá öllum hliðum en það gefst reyndar ekki alltaf tími til þess í stjórnmálunum. Þá er bara að taka því. Það er ekki hægt að þóknast öllum, enda ekki til þess ætlast.“

Kerfið getur verið býsna þunglamalegt og sligandi.

Hvað Landsvirkjun varðar segir Ragna að það hafi verið mjög  áhugavert og skemmtilegt að vinna í Landsvirkjun og kynnast atvinnulífinu. „Ég vann með góðu og kláru fólki og lærði mikið. Umhverfi fyrirtækja og stofnana er enn sem komið er býsna ólíkt þótt ýmsir sameiginlegir fletir séu fyrir hendi. Það er ýmislegt í atvinnulífinu sem stofnanir geta tekið sér til fyrirmyndar. Kerfið getur verið býsna þunglamalegt og sligandi. Oft á það sér skýringar í þeim miklu kröfum sem eru gerðar til þess en ekki alltaf.“

- Auglýsing -

Og núna er Ragna skrifstofustjóri Alþingis. „Starfið er mjög fjölbreytt. Það snýst meðal annars um rekstur á vinnustaðnum Alþingi en starfsfólkið er alls um 140 talsins, að starfsfólki þingflokka meðtöldu. Þingmennirnir eru sem kunnugt er 63 þannig að hér er oft mikill erill. Það er ýmis þjónusta sem fylgir því að reka löggjafarsamkomu allan sólarhringinn, allan ársins hring. Síðan snýr starfið líka að þinghaldinu sjálfu en fjöldi funda og mála sem fjalla þarf um er ansi mikill. Svo erum við að byggja nýtt nefnda- og skrifstofuhús sem verður tekið í gagnið á næsta ári sem er mikil framkvæmd. Þannig að það er óhætt að segja að það sé fjör í vinnunni.“

Ragna er fyrsta konan til að gegna þessu starfi. Hvaða þýðingu hefur það fyrir hana? „Það er bara skemmtilegt. Ég er ekki fullkomnari fyrir það eitt að vera kona og þarf þess ekki heldur.“

Ég hef mikinn áhuga á fólki og mannlegum samskiptum.

Hvernig myndi Ragna lýsa sér sem stjórnanda? „Stjórnun snýst um að vinna með fólki. Ég hef mikinn áhuga á fólki og mannlegum samskiptum og nýt þess að vinna bæði í litlum hópum og stórum. Mannleg samskipti geta verið mjög flókin og það gerir þau einmitt svo áhugaverð.“

Út úr þægindarammanum

Ragna ólst upp í Reykjavík, Danmörku og Kópavogi. Hún segir að það hafi farið lítið fyrir sér. „Ég átti góða vini, æfði sund og var í skátunum. Einu draumarnir voru sennilega dagdraumar; það var nóg af þeim. Annars ætlaði ég alltaf að verða kennari enda komin af miklu skólafólki.“

Hvernig er lífsstíllinn og hver eru áhugamálin í dag? „Ég er í krefjandi starfi og huga vel að heilsunni, bæði líkamlegri og andlegri. Mér finnst gaman að vera á skíðum og að veiða. Ég er líka að reyna að komast á það stig í golfi.“

Ég var ekki eins feimin og óframfærin og ég hélt.

Hvaða lífsreynsla hefur mótað hana mest? Hvað gerðist, hvernig tókst hún á við það og hvaða áhrif hefur það haft á hana? „Ráðherrahlutverkið rak mig út úr þægindarammanum. Ég komst að því að ég gat farið í beina útsendingu án þess að fá hjartaáfall og gat komið fram opinberlega án þess að verða mér til skammar. Ég var ekki eins feimin og óframfærin og ég hélt.“

Ragna Árnadóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -