• Orðrómur

Ragnar dæmdur í 14 ára fangelsi fyrir morð: „Síðasti róðurinn sem við fórum saman“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Ragnar Sigurður Jónsson var í héraðsdómi Reykjaness í janúar síðastliðnum dæmdur í fjórtán ára fangelsi fyrir að verða eiginkonu sinni að bana með því að þrengja að hálsi hennar, á heimili þeirra í Sandgerði í lok mars á síðasta ári.

Ragnar var úrskurðaður í gæsluvarðhald í byrjun apríl í fyrra en Landsréttur felldi það úr gildi í októbe í kjölfar vitnisburðar matsmanna sem töldu einnig koma til greina að áfengi og lyf hefðu orðið henni að bana.

Konan var 52 ára gömul þegar hún fannst látin á heimili sínu og Ragnars í Sandgerði 28. mars. Kviknaði grunur um að andlát hennar hefði borið að með saknæmum hætti eftir krufningu og var Ragnar handtekinn þremur dögum síðar á heimili þeirra, 31. mars. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 1. apríl til áttunda þess sama mánaðar. Það var ættingi sem tilkynnti um andlát konunnar til lögreglunnar á Suðurnesjum. Í tilkynningu frá lögreglu sagði:

„Rannsóknarlögreglumaður fór þegar ásamt lækni og presti á staðinn. Ekkert á vettvangi benti til þess að eitthvað saknæmt hefði átt sér stað. Sama máli gegndi um líkskoðun á sjúkrastofnun.“

Rólegt reglufólk

Mannlíf hafði heimildir fyrir því að bæjarbúar væru slegnir yfir atvikinu. Parið var reglufólk, rólegt og til fyrirmyndar. Ragnar birti eftirfarandi skilaboð orðrétt, á Facebook, daginn eftir andlát hennar:

- Auglýsing -

„Það er með mikilli sorg í hjarta og tár í augum, sendum við þessa tilkynningu út frá okkar að ástkæra eiginkona mín/móðir, teindamóðir og amma. … varð bráðkvödd á heimili sínu þann 28 Mars. Þetta eru erfiðir tímar framundan hjá okkur að halda utan um öll okkar kríli og okkur sjálf. Við biðjum ykkur vinsamlegast um að hafa samband fyrst við …. varðandi heimsóknir því það er jú samkomubann. Ást og friður frá okkur öllum. Ekki gleyma að halda utanum ykkar nánustu og njótið saman.“

Þann 30. mars  í fyrra birti Ragnar mynd af sambýliskonu sinni þar sem þau voru úti á sjó og konan við stýrið. Þar stóð:

„Síðasti róðurinn sem við fórum saman.“

Í frétt Mannlífs frá 6. apríl 2020 kom fram að þann 1. apríl það sama ár, eða fjórum dögum eftir andlát konunnar barst niðurstaða réttarmeinafræðings. Í niðurstöðunni sagði að sterkur grunur léki á að andlátið hefði borið að með saknæmum hætti.

- Auglýsing -

Ragnar var þá handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 8. apríl. Staðfesti Landsréttur þann úrskurð tveimur dögum síðar. Gæsluvarðhald yfir manninum var síðan framlengt til 15. apríl. Það var síðan aftur framlengt til 22. apríl.

Látinn laus í október

Fimm réttarmeinarfræðingar hafa komið að málinu. Tveir unnu krufningu og þrír voru dómkvaddir til að svara spurningum en ekki leggja heildstætt mat á dánarorsök. Voru þeir ekki einróma um hvað varð konunni að bana. Í krufningarskýrslu var talið að kyrking hefði orðið konunni að bana en matsmenn svöruðu fyrir dómi að mögulega hefði konan látist af áfengis og lyfjaeitrun. Eftir að matsmenn skiluðu skýrslu var Ragnar látinn laus úr gæsluvarðhaldi í október í fyrra og var hann ekki látinn sæta farbanni.

Ákæra var gefin út í júní 2020 þar sem saksóknari taldi að Ragnar hefði orðið konu sinni að bana. Aðalmeðferð fór fram um miðjan nóvember og stóð þá yfir í tvo daga.

Ragnar hefur verið í sambandi við börn sín. Samkvæmt heimildum Mannlífs héldu þau jól saman. Þá segja heimildarmenn Mannlífs að börn þeirra trúi á sakleysi hans.

Fyrir dómi bar Ragnar við minnisleysi en fjölskipaður héraðsdómur Reykjaness dæmdi hann í fjórtán ára fangelsi. Ekki var farið fram á neinar miskabætur. Í júní í sumar staðfestir Landsréttur svo dóminn.

Fékk ekki að áfrýja

Ragnar Sigurður, sem sakfelldur var fyrir morð á eiginkonu sinni, fékk ekki að áfrýja 14 ára fangelsisdómi sínum til Hæstaréttar. Ragnar sótti um áfrýjun til Hæstaréttar en því var hafnað.

Ragnar hefur ávallt neitað sök og segir hann að hann og eiginkona hans hafi setið í friðsemd við áfengisdrykkju og sjónvarpsáhorf þetta kvöld. Ragnar hringdi ekki fyrst í Neyðarlínuna heldur í dóttur sína sem kom á vettvang á undan lögreglu. Fyrir dómi segist hann hafa verið viss um að konan væri látin og því ákveðið að hringja í börnin sín á undan Neyðarlínunni. DV greindi frá.

Samkvæmt DV lá lík konunnar í sófa í stofunni er lögreglu bar á vettvang og var búið að breiða teppi yfir það. Segir í skýrslu lögreglu að konan hafi verið köld viðkomu, hörund hennar fölt og hún hafi ekki sýnt nein lífsmörk. Í skýrslunni segir að ekkert á vettvangi hafi bent til þess að andlát konunnar hafi borið að með saknæmum hætti.

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -